„Við erum að verja fjármunum til allra í staðinn fyrir að beina þeim til þeirra sem þurfa á þeim að halda,“ sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ráðherra í samtali við Morgunblaðið á dögunum.
Hún var ekki að tala um þá hundruð milljarða króna af skattfríðindum eða beinum fjárframlögum úr ríkissjóði sem hefur verið varið til tekjuhæsta hóps landsmanna í gegnum svokallaða Leiðréttingu eða skattfrjálsa nýtingu séreignarsparnaðar. Hvort tveggja voru ráðstafanir sem gerðar hafa verið undir forystu flokks hennar undanfarinn áratug. En kannski var þeim bara beint til þeirra sem á þurftu að halda.
Ráðherrann var samt ekki að vísa í þetta í viðtalinu við Moggann.
Nei, hún var að tala um mat fyrir börn.
Henni þótti óeðlilegt að skólamáltíðir í grunnskólum væru ókeypis fyrir þau öll. Frekar ætti að beina fénu, og þannig fría matnum, að börnunum sem þess raunverulega þurfa.
Fyrir ári kynnti Áslaug Arna áform um að auka verulega við framlög handa einkareknum háskólum sem annars fjármögnuðu sig með skólagjöldum, af því að annað teldi hún ósanngjarnt.
„Ríkið á ekki að gera upp á milli nemenda,“ sagði Áslaug Arna þá.
Ráðherrann hefur talsvert til síns máls – í bæði skiptin. Það er auðvitað ekki gott þegar verið er að gera upp á milli fólks. Sérstaklega ekki þegar ríkið sjálft gerir það og það má líka alveg taka mið af því að fólk sé misstatt eða aflögufært.
Horfa verði til þess hvar skattfé sé best varið. Rétt eins og þess hvernig það er innheimt.
Prómilinn heim
Fyrir flesta eru tæpar tuttugu milljónir króna talsvert mikill peningur. Vegleg útborgun í íbúð jafnvel. Í samhengi við rekstur nokkurra þúsunda manna samfélags, sem í sameiningu stendur undir milljarða árlegum kostnaði við leik- og grunnskóla, félagsþjónustu, gatnagerð, fráveitu og hvað ekki, eru átján milljónir og átta hundruð þúsund krónur ekki há fjárhæð.
Á síðustu tveimur árum hafa 14 einstaklingar haft tekjur sem samanlagt nema tæplega 40 milljörðum króna. Það eru 40 þúsund milljónir króna.
Öll eiga þau það sameiginlegt að hafa selt sjávarútvegsfyrirtæki þar sem obbinn af verðmætunum fólst í réttindum til að veiða fisk. Menn geta svo tekist á um það hvort það sé sanngjarnt eða ósanngjarnt.
Um það geta menn rifist í drep.
Það er hins vegar erfitt að finna sanngirnisrök fyrir því að þessi 14 manna hópur hafi einungis greitt fáeinar milljónir króna í útsvar, til þeirra sveitarfélaga sem þau búa í. Þar sem þau hafa starfrækt hin verðmætu fyrirtæki sín og byggt þau upp með aðstoð viðkomandi samfélags.
Útsvarið sem þessir 14 einstaklingar greiddu samanlagt nam 18,8 milljónum króna – af hátt í fjörutíu milljarða tekjum.
Skipstjóri á Fáskrúðsfirði greiddi, til samanburðar, 17 milljónir króna í útsvar í fyrra. Hann var með 115 milljónir í árstekjur. En þær tekjur fékk hann greiddar sem laun. Greiddi því af þeim bæði tekjuskatt og útsvar.
Íslensk stjórnvöld hafa metið það sem svo að það sé ríkari ástæða til að skattleggja tekjur launþega en þeirra sem afla sér tekna með því að selja eignir eða greiða sér arð.
Efstu á hátekjulista Heimildarinnar í ár, skipstjórinn fyrrverandi og börnin hans þrjú, höfðu samanlagt 13 milljarða króna í tekjur af sölu útgerðar í Vestmannaeyjum.
Þau greiddu samanlagt þrjár og hálfa milljón króna í útsvar til Vestmannaeyjabæjar.
Af þrettán þúsund milljóna króna tekjum.
Fjórir leikskólakennarar á grunnlaunum myndu, til samanburðar, greiða svipað eða jafnvel hærra útsvar af árstekjum sínum.
Hinar tekjurnar, sko
Fjölskyldan í Eyjum greiddi vissulega háar fjárhæðir í skatt, eða 2,7 milljarða króna í fjármagnstekjuskatt til ríkisins.
„Ég vorkenni mér bara ekkert að borga þetta,“ sagði skipstjórinn Sigurjón í samtali við blaðakonu Heimildarinnar aðspurður um milljarðana sem hann og börnin hans greiddu í skatt.
Miðað við það hvernig Sigurjón og fjölskylda hans tala um heimabæinn sinn og hvernig þau hyggja á að fjárfesta þar og byggja upp nýtt fyrirtæki í öðrum geira, er næsta öruggt að skiptingin milli ríkis og bæjar er þeim ekki að skapi.
Ósanngirnin sem í þessari skiptingu birtist er ekki þeim að kenna, Sigurjóni Óskarssyni eða börnunum hans. Allt væri þetta fólk eflaust til í að hluti fjármagnstekjuskattsins sem þau greiddu, rynni til verkefna í heimabyggð þeirra.
Það á efalaust líka við um þau tíu sem í fyrra seldu fyrirtæki og kvóta, högnuðust um 23 milljarða króna, en greiddu samanlagt 15 milljónir króna í útsvar.
Ábyrgðin liggur ekki þar. Hún liggur hjá stjórnvöldum.
Athafnaskáld á lágmarkslaunum
Forseti ASÍ sagði árið 2019 að það væri „óþolandi að sumir séu í aðstöðu til að beinlínis velja að greiða ekki skatta til sveitarfélaga. Við hin borgum þá í staðinn leikskóla, grunnskóla, götulýsingu, gistiskýli, menningarstofnanir, umönnun aldraðra og veikra og allt annað sem útsvarið okkar fer í.“
Sveitarfélög landsins hafa nú á þriðja áratug bent á að það gangi ekki að fólk greiði lítið eða ekkert í sameiginlega sjóði heimabyggða sinna af milljarða, eða tugmilljarða tekjum.
Ríkisvaldið streittist lengi vel á móti, með ansi hreint furðulegum rökum. En það var reyndar á furðulegum tímum.
Þeim hefur fjölgað jafnt og þétt sem höfðu litlar eða engar launatekjur, en þeim mun hærri fjármagnstekjur. Þannig hefur flestum orðið ljóst að annað og meira en hrein atorkusemi og atvinnusköpun athafnaskálda, lá að baki því að einkahlutafélögum fjölgaði hratt.
Og að eftir því sem þeim fjölgaði, fækkaði þeim sem voru að greiða laun. Margt benti einfaldlega til þess að félögin væru nýtt til að halda utan um alls kyns persónulegan rekstur og eignir fólks, til þess að spara sér skatt. Í gegnum þau færu tekjur fólks, skattlagðar sem fjármagn en ekki laun.
Það að hafa fjármagnstekjur, en ekki launatekjur, sparar ekki bara útsvarsgreiðslur, heldur líka skattgreiðslur. Fjármagnstekjuskattur er mun lægri en tekjuskattur og útsvar af útborguðum launum.
Staðgreiðsla skatta af launatekjum er á bilinu 36,94 til 46,24 prósent að útsvari meðtöldu en fjármagnstekjuskattur er 21 prósent, auk þess sem ekki þarf að greiða útsvar af þeim tekjum.
Að fá tekjur greiddar sem arð eða hagnað af eignasölu, er því ódýrara en að þiggja laun fyrir vinnu.
Þetta geta þó ekki allir nýtt sér. Fæst sveitarfélög greiða til að mynda laun leikskólakennara til einkahlutafélaga í þeirra eigu, sem síðan greiða þeim tekjurnar út sem arð, eða kaupa undir þá hús eða bíl.
En það geta hins vegar margar aðrar, og þá aðallega margfalt tekjurhærri stéttir, rukkað vinnuframlag sitt inn í nafni einhvers með ehf-endingu.
Þaðan er svo mun ódýrara að greiða sér tekjur sem arð en að reikna á sig laun, eins og menn eiga að gera, svona að minnsta kosti að nafninu til. Og gera augljóslega.
Skýrsla sérfræðingahóps á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins frá árinu 2017 sýndi að meðallaun frá einkahlutafélögum til eigenda sinna voru 620 þúsund krónur á mánuði, á meðan greiddur arður til eigendanna var 770 þúsund krónur á mánuði. Það þýðir að „fyrirtæki“ sem auðveldlega getur greitt 10 milljónir króna á ári í arð, getur samt ekki greitt „forstjóra“ sínum og jafnvel eina starfsmanninum að baki þeirri verðmætasköpun, umfram lægstu taxta leikskólakennara.
Það meikar sens.
Fyrir flestum er þetta augljóst dæmi um það sem á hreint ægilega tæknilegri íslensku kallast skattasniðganga. Það felast nefnilega ekki skattsvik í því að nýta sér galopnar glufur í skattkerfinu. Heldur tækifæri, að mati þeirra sem nýta sér slíkt og ekki síst þeim sem ráðleggja slíkt.
Það er ekki heldur eins og þetta sé mikið hernaðarleyndarmál.
Tveir hagfræðingar ASÍ mátu það sem svo að skatttekjur ríkisins gætu auðveldlega aukist um að minnsta kosti 8 milljarða króna, með einfaldri en sanngjarnri breytingu, sem fyrst og síðast kæmi frá þeim tekjuhærri, sem græddu á ósanngirninni sem nú er ráðandi.
Það sem er kannski galnast við þetta allt er að stjórnvöld eru fullmeðvituð um þessa augljósu glufu og ósanngirnina sem í henni felst. Þau hafa meira að segja sett þetta fram sem sérstakt forgangsverkefni. Ríkisstjórnin sem nú situr lofaði því meira að segja eftir síðustu kosningar að ráðast í að breyta þessu.
„Nú er kominn tími til að breyta skattlagningu þeirra sem fyrst og fremst hafa fjármagnstekjur og tryggja að þau greiði sanngjarnan hlut í útsvar til sveitarfélaganna til að fjármagna þau mikilvægu verkefni sem þau sinna ekki síst í félags- og velferðarþjónustu. Um það hefur verið talað í tuttugu ár en nú er kominn tími aðgerða.“
Svona lýsti þáverandi forsætisráðherra þessu verkefni.
Þremur árum síðar er tími aðgerða enn ekki kominn.
Kannski verður þrautalendingin sú að úthluta okkur öllum einkahlutafélögum til eigin nota. Það er kannski einfaldara.
Því eins og ráðherrann sagði, í fyrra skiptið: „Ríkið á ekki að gera upp á milli nemenda.“
Ég vil í þessu sambandi benda á grein Indriða Þorlákssonar í Heimildinni nú í dag. Það hefur legið ljóst fyrir í nær 30 ár að skattakóngur Íslands er Davíð Oddsson nýfrjálshyggjugaur.
Þetta eru auðvitað engin ný tíðindi og það lak út við samninga-borðið 1990 í umræðunni um kröfu lífeyrissjóðanna um auknar greiðslur launafólks í lífeyrissjóðina. Þegar fulltrúar atvinnurekenda upplýstu um að þegar Sjálfstæðisflokkurinn kæmist á ný að kjötkötlunum án þessa vera háður vinstri flokki myndi flokkurinn beita sér fyrir tilkomu 10% fjármagnstekjuskatts.
Okkur var alvarlega brugðið því við vissum að þarna var á ferðinni hugmynd um aukna skatta á launafólki til viðbótar við þá launaskatta launafólks til lífeyrissjóðanna og sjálf tryggingagjöldin.
Þessu gat flokkurinn strax breytt þessu í samstarfi með Framsókn. Sagt var að það yrði gert samkvæmt tillögum Péturs Blöndal um fjármagnstekjuskatt. Þetta kom til framkvæmda síðar og ríkisstjórn undir forystu Davíðs Oddssonar í samstarfi með Framsókn hækkaði skatta á launafólki verulega svo tekjur ríkissjóðs rýrnuðu ekki.
En hér í þessari grein gleymir skrifandinn að minnast á lífeyris-sjóðina og eignarhalds-félögin sem komu með EFTA-aðildinni. Samkvæmt því hvernig þetta var framkvæmt að þá var ekki greitt í lífeyrissjóði af þessum tekjum.
Frá og með þessum tíma sem fjármagnstekjur tóku gildi höfðu þær allt aðrar skattalegar reglur en almennt gerðist og tekjur atvinnurekenda og fjármaagnseigenda faldar í eignarhaldsfélögum. Einnig gleymist að halda því til haga að skattar fjármagnstekjum reiknast af nettó fjármagnstekjum en skattar launafólks af brúttólaunatekjum.
Það sem einnig stingur í augu er að þessir aðilar njóta miklu meiri þjónustu frá sveitar-félaganna vegna miklu stærri húseigna þeirra sem þeir eru sagðir eigendur að eða fyrirtæki þeirra og miklu meiri bílaeignar.
Þá hefur sjálftaka þeirra út úr fyrirtækjunum alltaf verið ljós launa-fólki sem starfar hjá fyrirtækjum sem þetta fólk er sagt eiga. þá má auðvitað átta sig á þeirri staðreynd að þeir minni spámenn í þessum hópi sem notið þessara fríðinda síðustu nær 30 árin eru gjarnan virkir í Gráa hernum.
Töglin og hagldirnar á Íslandi
Kjósendur fela jafnan flokkum útgerðarinnar að fara með stjórn landsins. Þessir flokkar eru handbendi fyrirtækjanna í landinu. Þetta á ekki bara við um útgerðarfyrirtæki, heldur öll fyrirtæki í landinu. Fyrirkomulagið á einnig við um lítil einkafyrirtæki sem hafa í störfum einn aðila. T.d. nánast alla sem kalla sig listamenn eða skemmtikrafta.
Rithöfundar eru svo sannarlega í þessum hópi fólks. Þetta hefur viðgengist alveg frá inngöngu Íslands í EFTA en þróast mjög síðan. Margir þessara aðila fóru illa út úr hruninu vegna þess að íbúðir þessa fólks og bílar voru opinberlega í eigu ofurskuld-settra gervifyrirtækja í öllum fyrirtækjategundum í eignarhaldsfélögum í þeirra nafni.
Nú hefur stór hluti minni spámanna í hópi þessara skattlausu aðila náð yfirhöndinni yfir samtökum eldri borgara. Með ,,Gráa hernum"
Árum saman hafa vinstri flokkar bent á þetta skattaranglæti en hagsmunagæsla fyrir-tækjanna hafa til þessa haldið. Það eru kjósendur sem hafa tryggt hinum raunverulegu valdhöfum þessa aðstöðu allan lýðveldistímann.
Það er sama hvar borið hefur niður, veiðigjöld, skattamál eða stjórnarskrárbreytingar. Nú má almenningur fara að vara sig því núverandi forsætisráðherra hefur boðað breytingar á stjórnaskrá þjóðarinnar.
Það er mjög ósennilegt að það verði gert í þágu hagsmuna almennings.