Árið 1981 kom mamma frá útlöndum sem oftar og ég fór á Drafnarstíg að bjóða hana velkomna til landsins. Ég man ekki hvar hún hafði þá aðallega verið en hún hafði komið við í London á heimleiðinni og keypt þar nýútkomna skáldsögu sem ég fór að glugga í af rælni þegar hún var búin að segja ferðasöguna.
„I was born in the city of Bombay ... once upon a time. No, that won't do, there's no getting away from the date: I was born in Doctor Narlikar's Nursing Home on August 15th, 1947.“
Ég áttaði mig ekki á því strax af hverju dagsetningin var mikilvæg, né klukkustundin, en það var þó fljótlega upplýst – sögumaður þessarar bókar fæddist á nákvæmlega þeirri stundu þegar Indland fékk sjálfstæði frá Bretum.
Ég hélt áfram að lesa og þegar ég kvaddi Drafnarstíginn tók ég bókina með mér, mamma sagðist vel geta lánað mér hana í nokkra daga.
En ég skilaði henni aldrei.
Midnight's Children eftir Salman Rushdie.
Ég las hana bergnuminn, þessa ótrúlega fallegu og litríku sögu um fjölskyldu sögumannsins sem fléttast saman við sögu Indlands, og þó ég væri ýmsum furðum vanur úr Hundrað ára einsemd eftir Márquez sem ég kunni nálega utanbókar um þær mundir, þá gerðu sumar setningarnar í Midnight's Children mig alveg agndofa:
„Three drops of blood plopped out of his left nostril, hardened instantly in the brittle air and lay before his eyes on the prayer-mat, transformed into rubies.“
Ég hef aldrei gleymt þessum rúbínum, svo yfirlætislausir sem þeir eru.
En það eru ekki bara setningar og augnablik heldur heilu kaflarnir í Midnight's Children sem eru ógleymanlegir.
Ég skil til dæmis enn ekki hvernig hægt er að skrifa svo óbrotgjarna snilld sem stuttan kafla sem gerist úti í frumskóginum.
Persónurnar eru guðdómlegar og hin sögulega vitund, sem alls staðar er nærri, ekkjan sem alltaf færist nær og nær – allt var þetta einstök upplifun, og eins sú eftirminnilegasta sem ég hef átt sem lesandi bóka.
Á eftir Midnight's Children kom skáldsagan Shame sem mér fannst líka frábær, þó ég hafi uppgötvað mér til furðu að ekki eru allir sammála mér um það.
Og svo, 1988: The Satanic Verses.
Ég skal viðurkenna að sú bók heillaði mig ekkert sérstaklega. Jú, hún er skrifuð af gríðarlegum þrótti og metnaði, og líka hugrekki, eins og ég áttaði mig á síðar.
Og sögulegum þrótti og skilningi.
En miðað við þau áhrif sem Midnight's Children hafði á hinn unga lesanda árið 1981, þá var The Satanic Verses samt eiginlega óþarfi.
Fyrir mig persónulega, það er að segja.
Sannarlega samt ekki fyrir höfundinn sjálfan eða aðra lesendur.
Eftir að hryllingsklerkur stjórnarinnar í Íran hafði dæmt Rushdie til dauða fyrir guðlast út af því sem hann skrifaði í þá bók.
Og síðan hefur Rushdie lifað sínu lífi í skugga þess hryllings og fyrir nokkrum misserum kostaði það ofstæki hann annað augað.
Mér finnst frábært að Salman Rushdie skuli nú fá bókmenntaverðlaun þau sem kennd eru við Halldór Laxness.
Af því tilefni verður heilmikið rætt um hlutskipti hans og hlutverk í baráttunni fyrir – já! – frelsi. Og það er að vonum.
Mig langar bara að minna á að bak við hinn ódeiga baráttumann fyrir tjáningarfrelsi, óheftu listrænu frelsi, á bak við táknmyndina gegn heift, ofstæki og þröngsýni, þá stendur líka BARA frábær rithöfundur.
Sem hefur skrifað eina allra bestu bók 20. aldar.
Listasmiður á orð og persónur, en líka hugsuður og sjáandi, því hann sá þá þegar fyrir að þetta myndi ekki enda vel „because it is the privilege and the curse of midnight's children to be both masters and victims of their times, to forsake privacy and be sucked into the annihilating whirlpool of the multitudes, and to be unable to live or die in peace.“
Lesið þessa bók, ef þið hafið ekki gert það nú þegar. Lesið hana sem skýrslu um ástand heimsins, þá og nú, og lesið hana sem fyrir fram ákæruskjal gegn illskunni.
En fyrst og fremst sem stórkostlega bókmennt.
Athugasemdir