Nýlega samþykkti Alþingi löngu tímabæra uppfærslu á lögum um listamannalaun. Á næstu fjórum árum mun úthlutuðum mánuðum fjölga úr 1.600 í 2.490, auk þess sem tveir nýir sjóðir bætast við; fyrir kvikmyndahöfunda og sjóðurinn vegsemd fyrir 67 ára og eldri.
Síðast var lögum um listamannalaun breytt árið 2009, ferlið fært til Rannís, mánuðum fjölgað og skerpt á vinnulagi. Eftir hrunið var augljóslega ekki mikil stemning fyrir því að fjölga mánuðum verulega eða hækka launin í krónutölu en úthlutuðum mánuðum var þó fjölgað í skrefum, rétt eins og núna og fjárhæð mánaðarlegrar greiðslu fastsett og skyldi miðast við vísitölu neysluverðs. Hvorki þá né nú er hins vegar miðað við launavísitölu. Síðustu ár hafa laun hækkað umtalsvert og kaupmáttur þorra þjóðarinnar því vaxið á síðustu árum – en listamenn sitja eftir. BHM benti á það í umsögn sinni um frumvarpið að á árunum 2011–2024 hækkuðu starfslaun listamanna um 96% á meðan launavísitalan hækkaði um heil 160%. Hefðu listamannalaunin verið verðtryggð með þróun launavísitölu væri upphæð þeirra 32% hærri en nú er, eða kr. 713.000 en ekki 538.000 eins og nú er.
„Hafa höfundar aðeins einu sinni fengið færri mánuði úthlutaða miðað við mannfjölda en nú“
Starfslaun listamanna eru svo alls ekki venjuleg laun eins og heiti þeirra gefur til kynna heldur verktakagreiðslur. Listafólkið þarf sjálft að greiða tryggingargjald og önnur launatengd gjöld sem og lífeyrissjóðsgreiðslur – en eiga þó ekki rétt á orlofi, desemberuppbót, launum fyrir viðurkennda frídaga né í veikindaleyfi og eru ekki slysatryggð í störfum sínum. Listamönnum hefur heldur ekki gengið vel að sækja atvinnuleysisbætur. Þeir standa utan kerfa og eiga lítinn rétt.
Samkvæmt reiknivél BHM fyrir sjálfstætt starfandi jafngildir 538.000 kr. verktakagreiðsla 384.000 kr. launagreiðslu sem er töluvert undir lágmarkstaxta Eflingar sem er 425.985 kr. á mánuði. Listamannalaun eru þó einungis skilgreind sem 66% starf en listamenn sem þau hljóta mega ekki taka að sér launaða vinnu í hærra starfshlutfalli en 33% á meðan starfslauna nýtur. Listamenn sæta því yfirvinnubanni, ein stétta. Fæstir geta aukið og minnkað launaða vinnu í takt við úthlutun listamannalauna og eru því oft tekjulausir hluta úr ári og undir lágmarkslaunum hina mánuðina.
List og menning hefur aldrei verið í harðari samkeppni við alls konar afþreyingu og hluti af afurðum okkar hafa færst yfir á netið í gegnum streymisþjónustur sem éta upp allan gróða en ropa upp smápeningum fyrir okkur. Í minni grein sjáum við tekjur höfunda af bóksölu hríðfalla vegna streymis, lækkaðs bókverðs og minnkandi eintakasölu.
Þá má benda á að þótt úthlutuðum mánuðum hafi verið fjölgað bæði með lögunum 2009 og nú, þá hefur landsmönnum fjölgað enn hraðar. Sé litið á launasjóð rithöfunda eingöngu þá hafa höfundar aðeins einu sinni fengið færri mánuði úthlutaða miðað við mannfjölda en nú er, eða 14 á hverja 10.000 íbúa landsins. Það var árið 2010, rétt áður en fjölgun mánaða í þarsíðustu lagasetningu tók gildi. Hæst fór hlutfallið í 22 mánuði á hverja 10.000 íbúa árið 2020 þegar kom til aukaúthlutunar vegna heimsfaraldursins. Fyrir 2009 gat úthlutaður fjöldi mánaða rokkað til og var hlutur rithöfunda á árunum 1994–2009 frá 15 mánuðum upp í 20 á hverja 10.000 íbúa. Þegar tekið er tillit til miðgildisspár Hagstofunnar um mannfjölda árið 2028, þegar full fjölgun mánaða hefur tekið gildi, munu rithöfundar fá 16 mánuði á hverja 10.000 íbúa. Það er töluvert undir meðaltalinu í lok síðustu aldar.
Um leið og við erum þakklát fyrir uppfærð lög, enda listamannalaun súrefnið í menningarlífinu og forsenda sköpunar, hljótum við að spyrja hvort samfélagið geti ekki gert betur við listafólkið sitt sem ekki aðeins ber hróður þjóðarinnar um heim allan með tónlist, bókmenntum og kvikmyndum, er okkur nauðsynlegur spegill á viðsjárverðum tímum og varðveita tungumálið í verkum sínum. Þegar allt kemur til alls höfum við ekki efni á að spara í listum og menningu. Það er of mikið í húfi.
Höfundur er formaður Rithöfundasambands Íslands
Athugasemdir