Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið halda stýrivöxtum óbreyttum. Þeir munu því áfram vera 9,25 prósent. Í yfirlýsingu nefndarinnar er bent á að verðbólga hafi aukist lítillega frá síðasta fundi nefndarinnar eftir að dregist nokkuð saman á fyrri hluta ársins. Verðbólga mældist 6,3 prósent í júlí og hafði þá hækkað 0,5 prósentustig milli mánaða.
„Undirliggjandi verðbólga er enn mikil og verðhækkanir eru á breiðum grunni þótt húsnæðisliðurinn vegi enn þungt. Verðbólguvæntingar hafa einnig lítið breyst og haldist yfir markmiði. Hægt hefur á innlendri eftirspurn undanfarið ár í takt við aukið peningalegt taumhald. Nokkur spenna er þó enn til staðar í þjóðarbúinu og hefur lítið dregið úr henni frá maífundi nefndarinnar,“ segir í yfirlýsingu nefndarinnar.
Þá telur nefndin að það muni taka „nokkurn tíma“ að ná verðbólgu niður í ásættanlegt horf.
„Peningastefnunefnd telur að núverandi aðhaldsstig sé hæfilegt til þess að koma verðbólgu í markmið en þrálát verðbólga og kraftur í innlendri eftirspurn kalla á varkárni. Mótun peningastefnunnar mun sem fyrr ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga.“
Vonbrigði fyrir aðila á vinnumarkaði
Í aðdraganda fundar peningastefnunefndar Seðlabankans sendu Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem minnt er á að markmið nýlegra langtímakjarasamninga væru að ná niður mikilli verðbólgu og háu vaxtastigi.
Í yfirlýsingunni er bent á að greina megi augljós merki þess í atvinnulífinu að hagkerfið sé að kólna og að verðbólga mæld á ársgrundvelli hafi lækkað úr 7,7 prósentum í 6,3 prósent.
„Háir raunvextir eru íþyngjandi fyrir skuldsett heimili, standa fjárfestingu í framtíðar verðmætasköpun fyrir þrifum og draga úr þrótti á íslenskum hlutabréfamarkaði. Það er því mikilvægt að Seðlabankinn sé framsýnn í sínum ákvörðunum þegar kemur að ákvörðun um stýrivexti,“ segir í yfirlýsingu ASÍ og SA.
https://worldofwarcraft.blizzard.com/en-us/