Þegar Joe Biden var kjörinn forseti Bandaríkjanna árið 2020 varð hann, 78 ára gamall, elsti maður í sögu landsins til að sinna embættinu. Í dag er Biden 81 árs, og var þangað til í gær, elsti forsetaframbjóðandi í sögu Bandaríkjanna. Heiðurinn að þeim titli á nú Donald Trump, frambjóðandi Repúblikanaflokksins sem er 78 ára gamall.
Áhyggjur af aldri Bidens í kjölfar kappræða
Þann 27. júní mættust mennirnir tveir í kappræðum sem stýrt var af fréttamiðlinum CNN í Atlanta. Það var Biden sjálfur sem hafði stungið upp á því að hann og andstæðingur hans myndu mætast fyrr en hefð er fyrir í kosningabaráttunni – kappræðurnar hafa aldrei á síðari tímum verið haldnar svona snemma.
Markmiðið var að hrekja útbreiddar áhyggjur um að Biden væri orðinn of gamall til að valda starfi forseta Bandaríkjanna – áhyggjur sem höfðu verið viðloðandi alla hans forsetatíð en höfðu stigmagnast í aðdraganda kosninganna í haust.
Biden tókst ekki að kveða þessar raddir niður í kappræðunum. Þvert á móti urðu þær háværari í kjölfar þeirra. Biden var veiklulegur. Hann var hás og svör hans héldu stundum litlu sem engu vatni. Hann óð úr einu í annað og talaði oft og tíðum óskýrt. Í einu svarinu gleymdi hann alveg hvað hann væri að tala um en endaði svarið á því að fullyrða: „Við sigruðumst loksins á Medicare.“ En Medicare eru ríkisstyrktar sjúkratryggingar fyrir aldraða og þetta var víst ekki það sem Biden ætlaði sér að segja.
Kallaði Selenskí Pútín og Harris Trump
Skömmu síðar, í fyrri hluta júlí, mættust leiðtogar Atlantshafsbandalagsríkjanna í höfuðborg Bandaríkjanna, Washington DC. Í kjölfar leiðtogafundarins gerði Biden tvenn neyðarleg og alvarleg mistök. Annars vegar kynnti hann forseta Úkraínu, Volodimír Selenskí, sem „Pútín forseta,“ á blaðamannafundi. Hins vegar kallaði hann varaforseta sinn, Kamölu Harris, óvart „Trump varaforseta.“
Tveimur dögum eftir þessi mismæli Bidens, þann 13. júlí, slapp Donald Trump naumlega frá morðtilræði á kosningafundi sínum í Pennsylvaníu. Byssuskot hæfði hann í annað eyrað en að öðru leyti slapp Trump ómeiddur. Ýmsir stjórnmálagreinendur sögðu í kjölfarið að tilræðið ætti eftir að auka stuðninginn við Trump umtalsvert. Það jók ótta Demókrataflokksins við að lúta í lægra haldi fyrir honum í kosningunum í nóvember.
Sagðist ítrekað hvergi hættur
Eftir kappræðurnar og fund leiðtoga NATO-ríkjanna jókst þrýstingurinn á Biden að draga framboð sitt til baka. Hann hélt því þó staðfastlega og ítrekað fram að hann myndi hvergi fara. Hann gerði það meðal annars á kosningafundi í Norður-Karólínu þann 28. júní og í viðtölum þann 8. júlí, 11. júlí og 15. júlí. Í viðtali við ABC News þann 5. júlí sagði hann að aðeins undir þeim kringumstæðum að guð almáttugur stigi niður af himnum og segði honum að draga framboðið til baka myndi hann gera það.
Á sama tíma hvöttu æ fleiri demókratar Biden til að draga framboð sitt til baka. Í síðustu viku var greint frá því að skoðanakönnun frá AP-NORC sýndi að nærri tveir þriðju demókrata vildu að hann hætti við framboð sitt. Nær 70% bandarísku þjóðarinnar tók í sama streng. Meðal demókrata voru aðeins þrír af hverjum tíu sannfærðir um að Biden hefði vitsmunalega getu til að sinna embættinu.
Á miðvikudaginn, 17. júlí, greindist Biden með Covid-19 og hélt heim til sín í Delaware í einangrun. Talsmenn hans héldu áfram að hafna því að hann ætlaði að hætta við framboðið. Í gær, 21. júlí, skrifaði Biden skyndilega á samfélagsmiðla að hann væri hættur við og lýsti yfir stuðningi við Kamölu Harris, varaforseta sinn. En hún tilkynnti um framboð sitt til forseta í kjölfarið.
Þetta er í fyrsta skiptið síðan 1968 sem sitjandi forseti velur að bjóða sig ekki fram til seinna kjörtímabils. En það gerði síðast Lyndon B. Johnson, varaforseti og arftaki J.F. Kennedys.
Biden dregur sig í hlé þegar nokkuð stutt er í kosningarnar sjálfar en þær eiga að fara fram í byrjun nóvember á þessu ári. Landsþing Demókrataflokksins verður haldið í ágúst og þar verður forsetaframbjóðandi flokksins tilnefndur formlega og opinberlega.
Athugasemdir