Utanríkisráðuneytið birti færslu á samfélagsmiðlinum X þar sem hernám Ísraels í Palestínu var sagt ólöglegt og eru það skilaboð frá ráðuneytinu. Færslan var ekki birt á samfélagsmiðlum utanríkisráðherra.
Færsla ráðuneytisins birtist á X, sem áður hér Twitter, á laugardag og var hún viðbrögð við úrskurði Alþjóðadómstólsins í síðustu viku þar sem Ísrael var sagt innlima palestínsk landsvæði og mismuna palestínsku fólki.
„Ráðgefandi álit Alþjóðadómstólsins er skýrt,“ segir í færslu ráðuneytisins í þýðingu blaðamanns. „Áframhaldandi hernám Ísraels á Vesturbakkanum og Austur-Jerúsalem er ólöglegt og það eru einnig landnámsaðgerðir þess. Ísland skorar á Ísrael að stöðva allar aðgerðir sem brjóta í bága við alþjóðalög.“
Í svari við fyrirspurn Heimildarinnar til upplýsingadeildar utanríkisráðuneytisins kemur fram að skilaboðin séu frá ráðuneytinu.
„Ráðherra er sjálf með tístreikning þar sem hún setur fram skilaboð í eigin nafni og embættisins“
„Ráðherra er sjálf með tístreikning þar sem hún setur fram skilaboð í eigin nafni og embættisins,“ segir í svarinu. Þegar færslur eru settar út á X reikningi ráðuneytisins eru það skilaboð frá ráðuneytinu.“
Skilaboðin til alþjóðasamfélagsins
Í svarinu kom einnig fram að ákvörðun um birtingu efnis á samfélagsmiðlum sé tekin af skrifstofustjórum sem fara með málefnið sem um ræðir í samvinnu við ráðherraskrifstofu og upplýsingadeild. „Hvaða miðill er notaður ræðst af því hver markhópurinn er, ef skilaboðin eru til alþjóðasamfélagsins er notast við X, eigi þau sérstaklega erindi við Íslendinga er notast við Facebook síðu ráðuneytisins,“ segir í svarinu.
„Ef skilaboðin eru til alþjóðasamfélagsins er notast við X“
Þórdís Kolbrún hefur öðru hverju tjáð sig á X um hernað Ísraels í Palestínu undanfarin misseri. Nú síðast 10. maí sagði hún Ísland styðja tveggja ríkja lausn þar sem „bæði Ísrael og Palestína færu að alþjóðalögum og virtu tilvistarrétt hvors annars.“
Þann 7. maí sagði hún Ísland hvetja Ísrael til að stöðva „aðgerðir sínar í Rafah, þar sem meiriháttar áras mundi valdi ómælanlegum þjáningum.“ Þá hvatti hún til þess að Hamas og Ísrael samþykktu vopnahlé. Hafði Hamas samþykkt tillögu um vopnahlé daginn áður sem Ísrael hafnaði.
Byggðum viðhaldið í bága við alþjóðalög
Alþjóðadómstóllinn í Haag úrskurðaði á föstudag að vera Ísraels í Palestínu væri ólögleg og að henni ætti að ljúka „eins fljótt og auðið er“. Úrskurðurinn er ráðgefandi og ekki bindandi og byggir á máli sem Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna setti fram árið 2022.
Ísrael er sagt brjóta gegn Genfarsáttmálanum með framferði sínu, að stefna Ísraels á svæðum Palestínu sé ígildi innlimunar svæðanna og að Ísrael mismuni palestínsku fólki á svæðunum.
„Byggðir Ísraels á Vesturbakkanum og í Austur-Jerúsalem, og stjórnin sem fylgir þeim, hafa verið settar upp og er viðhaldið í bága við alþjóðalög,“ kom fram í niðurstöðu 15 manna dómstólsins, að því fram kom á fréttamiðlinum Al Jazeera.
Suður-Afríka rekur annað mál fyrir dómstólnum þar sem því er haldið fram að Ísrael fremji þjóðarmorð með hernaði sínum á Gaza. Bráðabirgðarniðurstaða hefur þegar verið birt í málinu og skipaði dómstóllinn Ísrael að koma í veg fyrir þjóðarmorð og tryggja það að hjálpargögn berist íbúum Gaza.
Athugasemd: Eftir birtingu fréttarinnar barst árétting frá ráðuneytinu þar sem bent var á að ráðherra bæri ábyrgð á því efni sem kemur frá ráðuneytinu.
„Færslan var borin undir ráðherra og ráðherra ber ábyrgð á því sem sett er fram í nafni ráðuneytisins,“ segir í uppfærðu svari frá ráðuneytinu. „Við fylgjumst með viðbrögðum við álitinu og skoðum í framhaldinu frekari viðbrögð.“
Athugasemdir