Tilboð um starf hjá Hafnarfjarðarbæ sem Óskar Steinn Ómarsson hafði þegið var skyndilega dregið til baka daginn eftir að Óskar gagnrýndi meirihluta bæjarstjórnar opinberlega fyrir að loka ungmennahúsinu Hamrinum í bænum. Þessu greinir Óskar frá í Facebook-færslu frá því fyrr í dag.
Óskar Steinn segist hafa sótt um stöðu deildarstjóra tómstundamiðstöðvar Hraunvallaskóla í vor og fengið starfið. Viku síðar tók bæjarstjórn Hafnarfjarðar þá ákvörðun að loka ungmennahúsinu Hamrinum. Þetta líkaði Óskari illa. En hann hafði starfað þar í hlutastarfi í á fimmta ár.
„Ég tjáði mig um þá ákvörðun og leyfði mér að gagnrýna meirihluta bæjarstjórnar harðlega, eins og ég trúði að mér væri frjálst að gera sem frjáls maður í frjálsu landi,“ skrifar Óskar á Facebook.
Hann gerði þetta meðal annars með því að skrifa grein um málið á Vísi, Aðför að ungmennum (Í minningu Hamarsins), þar sem hann fór hörðum orðum um bæjaryfirvöld og þeirra vinnubrögð. Í greininni velti hann því meðal annars upp hvort að meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknar væri ef til vill haldinn útlendingaandúð eða að ákveðnir starfsmenn Hamarsins væru honum ekki pólitískt þóknanlegir.
Stjórnmálafræði nýtist ekki í starfi
Daginn eftir að greinin birtist fékk Óskar símtal frá skólastjóra Hraunavallaskóla þar sem honum var tilkynnt að við frekari skoðun stæðist hann ekki menntunarkröfur. Þremur vikum eftir að honum hafði verið ráðinn í starfið var ráðningin því afturkölluð.
„Ég óskaði eftir nánari rökstuðningi og í honum segir að BA gráða mín í stjórnmálafræði sé ekki nógu skyld tómstundafræði eða menntunarfræði til að hún geti talist sem „annað háskólanám sem nýtist í starfi.““
Óskar segir að í rökstuðningum sé ekki minnst á áralanga reynslu hans af tómstundastarfi með ungmennum og þau mörgu námskeið sem hann hafi sótt um ungmennastarf. „Þar að auki virðist það engu máli skipta að í nokkrum tómstundamiðstöðvum Hafnarfjarðar starfa deildarstjórar með aðra háskólamenntun, meðal annars í stjórnmálafræði,“ skrifar Óskar.
Nú segist hann standa í stappi við bæinn um hvort sveitarfélagið geti fallið frá ráðningu í starf sem þegar var búið að ráða hann í. „Á meðan dælir bærinn peningum útsvarsgreiðenda í að auglýsa starfið á samfélagsmiðlum og þurfti að framlengja umsóknarfrestinn því eitthvað virðist framboðið lítið af góðum kandídötum í starfið - einhverjum öðrum en mér allavega.“
Dæmi um ógnarstjórn og spillingu
Saga Óskars hefur valdið talsverða hneykslan á netinu, en til dæmis segir Davíð Arnar Stefánsson, oddviti Vinstri grænna í Hafnarfirði, í ummælum undir færslunni að lýsing Óskars sé „auðvitað ekkert annað en vísir að ógnarstjórn.“ Þetta sé ekki eina dæmið um slíkt.
Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segir þetta snúast um að ráða aldrei fólk sem viðri skoðanir sínar opinberlega til starfa. „Meðvituð leið til að halda hæfu fólki frá opinberum störfum,“ skrifar hún.
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, deilir færslunni og segir að sagan sé ágætis útskýring á því hvernig farið sé með pólitískt vald á Íslandi. „Þetta er dæmi um spillingu - í skilningi þess að hér er verið að spilla / skemma skýrt og faglegt ferli með pólitískum afskiptum. Það er amk það sem ég les á milli línanna að hafi gerst þarna. Við verðum að gera betur.“
Lars Imsland, skólastjóri Hraunvallaskóla, neitað að tjá sig um málið þegar Heimildin náði af honum tali. Ekki náðist í Rósu Guðbjartsdóttur bæjarstjóra í Hafnarfirði við vinnslu fréttarinnar og ekki fékkst samband við samskiptastjóra bæjarins, nema í gegnum tölvupóst.
Athugasemdir