Í byrjun 17. aldar byrjuðu Bretar að taka sér nýlendur á strönd Norður-Ameríku. Á ýmsu gekk til að byrja með en þegar komið var fram á 18. öld voru nýlendurnar orðnar allmargar og flestar döfnuðu vel. Upp úr miðri öldinni fór sambúð nýlendufólks og stjórnarinnar heima í London að versna. Nýlendufólki þótti sem stjórnin liti á það sem eintóma peningabuddu sem mætti sækja í skatta og tolla eftir þörfum en stjórninni fannst að nýlendufólk væri sífellt að koma sér undan því að taka eðlilegan þátt í rekstri og vörnum ríkisins.
Í desember 1773 kom til uppþots í Boston í nýlendunni Massachusetts sem kallað var „The Boston Tea Party“ og árið 1774 ákvað breska stjórnin að refsa íbúum Massachusetts með því að svipta þá þeirri takmörkuðu sjálfstjórn sem þeir höfðu notið.
Nýlendubúar brugðust hart við og héldu þing um haustið þar sem þeir réðu ráðum sínum. Fram undir þetta höfðu fáir úr þeirra hópi velt eiginlegu sjálfstæði nýlendnanna fyrir sér, en nú, þegar þeim fannst breska stjórnin svara kröfum þeirra með tómri hörku og skætingi, fór að þykkna í þeim.
Einn af helstu andans mönnum nýlendubúa var Thomas Jefferson og hann lét hafa eftir sér um þetta leyti að hann hefði fram að þessu unnað Bretlandi hugástum og viljað flest til vinna að tilheyra því áfram, en nú væri það að verða ókleift. Bretar höfðu sett hafnbann á Boston og var siglingaleiða gætt með herskipum, breskt herlið lét mjög á sér bera á strætum úti þar í borginni og fjölgað var í herliði stjórnarinnar í öllum nýlendunum.
Fyrir sitt leyti fóru nýlendubúar að skipuleggja vopnaða flokka sem áttu að snúast til varnar ef Bretar sýndu of mikinn yfirgang og þeir sönkuðu jafnframt að sér hergögnum, sprengiefni og þess háttar.
Þann 19. apríl 1775 kom fyrst til raunverulega átaka. Breskur herflokkur í Boston sem taldi 800 menn marseraði norðvestur til bæjarins Lexington þar sem nokkrir leiðtogar nýlendumanna héldu til.
Meiningin var að handtaka þá og eyðileggja vopnabirgðir sem Bretar vissu að nýlendumenn höfðu falið í smábæjum þar í uppsveitum Boston.
Við Lexington var hleypt af fyrstu skotunum í því sem síðar fékk nafnið Frelsisstríð Bandaríkjanna. Ekki hefur tekist að úrskurða um hvor aðili hóf skothríð en hún endaði með því að sjö menn úr flokki liði nýlendubúa féllu. Bretar héldu svo áfram til bæjarins Corcord þar skammt frá og tókst að eyðileggja töluvert af vopnabirgðum og skotfærum sem nýlendumenn höfðu þar í geymslu.
Síðan urðu Bretar hins vegar að að hrökklast burt undan skothríð nýlendumanna. Nú varð ekki lengur framhjá því horft að þarna var að brjótast út raunveruleg uppreisn nýlendumanna. Og þarna féllu um 50 uppreisnarmenn en um 80 úr breska herliðinu.
Bretar hörfuðu til Boston en daginn eftir hafði drifið að mikið lið úr herflokkum nýlendumanna og settist liðið um Boston.
Stóð umsátrið í næstum heilt ár.
Í maí 1775 hófst hins vegar annað þing nýlendufólks og þótti nú öllum sýnt að engar sættir gætu tekist milli þeirra og bresku stjórnarinnar.
Stríð væri hafið.
Því til sönnunar fyrirskipaði þingið að nú skyldi stofnaður sameiginlegur her nýlendnanna og var settur yfir hann George nokkur Washington. Gekk svo á með skærum og bardögum sumarið 1775 og þótt úrslit væru sjaldnast afgerandi var ljóst að nýlendubúar ætluðu hvergi að láta sinn hlut.
Í mars 1776 sáu Bretar í Boston sitt óvænna og lúpuðust burt úr borginni. Sjálfstraust nýlendumanna var nú í hámarki og hið fyrrnefnda þing, sem enn sat í borg Philadelphiu, var óðum að komast að niðurstöðu um hvað gera skyldi.
Ekkert minna en fullur aðskilnaður við Bretland dugði nýlendubúum er hér var komið.
Og þann 4. júlí þetta ár birti þingið í Philadelphiu niðurstöðu sína, plagg sem þingfulltrúar skrifuðu nú undir og hófst á þessa leið:
„Vér teljum þann sannleika liggja í augum uppi, að allir menn séu skapaðir jafnir, að skapari þeirra hafi búið þeim ýmis óframseljanleg réttindi og meðal þeirra séu líf, frelsi og eftirsókn eftir hamingju. Að til að tryggja þau réttindi sé komið á stjórnvöldum meðal manna, sem eigi vald sitt til að stjórna undir samþykki þeirra sem lúta stjórninni. Að hvenær sem nokkur stjórnvöld taka að brjóta gegn þessum réttindum sé það réttur fólksins að breyta um eða fella niður þau stjórnvöld, og að koma á fót nýjum stjórnvöldum, sem reist séu á fyrrnefndum grundvallarreglum og skipulögð með það fyrir augum að þau virðist líkleg til að tryggja öryggi og hamingju fólksins.“
Þetta er lausleg þýðing.
En þið skiljið.
Þetta er upphafið á sjálfstæðisyfirlýsingu Bandaríkjanna.
Athugasemdir