Á þjóðhátíðardegi Íslendinga 17. júní sl. samþykkti Evrópuráðið endanlega lög um endurheimt náttúru. Lögin skuldbinda ríki Evrópusambandsins til að endurheimta hið minnsta 20% af land-, ferskvatns- og hafsvæðum sínum fyrir árið 2030. Fyrir 2050 á endurheimtin að hafa náð til allra hnignaðra vistkerfa.
Þetta er fyrsta löggjöf um endurheimt vistkerfa sem nær yfir heila heimsálfu. Það er, fyrsta sameiginlega löggjöfin sem heilt ríkjabandalag setur um endurheimt náttúru. Í henni er tekist á við bráðavanda náttúrunnar, hrun líffræðilegrar fjölbreytni, áhrif loftslagsbreytinga og náttúruvá, auk markmiða um stöðvun landhnignunar, fæðuöryggi og að alþjóðlegum skuldbindingum skuli náð.
Hér er á ferðinni tímamótalöggjöf um náttúruvernd í Evrópu sem sýnir að löndin sem að henni standa vilja tryggja framtíð náttúrunnar. Lögin stuðla að nýju jafnvægi lífríkis og mannlegra athafna án þess að þau svæði sem unnið er með þurfi í öllum tilfellum að fella undir sérstaka vernd sem náttúruverndarsvæði. Evrópusambandið vinnur með öðrum orðum að því að tryggja framtíð náttúru aðildarlandanna í heild sinni.
Ástand náttúru í Evrópu
Náttúra Evrópu á við alvarlega hnignun vistkerfa að stríða, enda eru meira en 80% vistkerfa þar í slæmu ástandi. Verst er ástandið á votlendis- og strandsvæðum, því næst í skóg- og graslendi. Fiskistofnar eiga líka undir högg að sækja, en 82% þeirra eru í slæmu ástandi. Sjötíu prósent jarðvegs eru í óheilbrigðu ástandi.
Allt þetta hefur áhrif á fæðuöryggi. Landbúnaður er háður heilbrigðum vistkerfum. Nú er 73% landbúnaðarlands Evrópu að fást við hnignun jarðvegs. Framleiðsla landbúnaðarafurða upp á nærri fimm milljarða evra stendur og fellur með fiðrildum og býflugum sem eru algengustu frjóberarnir. Lífsskilyrði fyrir þessar lífverur teljast nú einungis viðunandi á helmingi þeirra svæða sem nýtt eru til ræktunar ávaxtatrjáa, svo dæmi sé tekið. Einni af hverjum þremur tegundum frjóbera fer hnignandi, 10% eru í útrýmingarhættu og 30% af tegundum graslendisfiðrilda hafa glatast frá árinu 1991. Fuglar eru mikilvægur þáttur heilbrigðra vistkerfa. Þeir eru viðkvæmir fyrir umhverfisbreytingum og því góðir mælivísar um ástand vistkerfa. Algengum fuglategundum hefur fækkað um 36% frá 1990.
Endurheimt náttúru
Þessu má snúa við með endurheimt fjölbreyttra vistkerfa. Hér er átt við m. a. endurheimt votlendis, graslendis, skóga, landbúnaðarsvæða, borgarvistkerfa, árvatns, vatna og hafs.
Tiltekin markmið og mælivísar eru settir um hina ýmsu geira. Sem dæmi um málefni sem hefur verið hér í umræðunni má nefna að lögin setja markmið um endurheimt á lífrænum jarðvegi landbúnaðarsvæða þar sem votlendi hefur verið ræst fram. Lögin setja skýr markmið um endurheimt votlendis. Hér er ekki verið að tala um áætlun á hugmyndastigi líkt og í nýrri aðgerðaáætlun íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum, heldur eru sett bindandi tölusett og tímasett markmið; 30% endurheimt votlendissvæða fyrir 2030, 40% fyrir 2040, og 50% fyrir 2050.
Hvað er átt við með vistkerfi í lögunum?
Vistkerfi er flókið samfélag plantna, dýra, sveppa og örvera sem skapar sívirka einingu ásamt umhverfi sínu og nær yfir mismunandi vistgerðir, búsvæði tegunda og stofna lífvera.
Hvað er svo endurheimt samkvæmt skilgreiningu laganna?
Þar er átt við beinar eða óbeinar aðgerðir til að bæta uppbyggingu og virkni vistkerfa með það að markmiði að varðveita eða efla líffræðilega fjölbreytni og viðnámsþrótt vistkerfanna, efla vistgerðir sem eru í góðu ástandi, að koma á fót hagstæðu viðmiðunarsvæði og koma búsvæðum og stærð stofna í það ástand og stærð sem samræmist settum markmiðum.
Með endurheimt eykst líffjölbreytni og þjónusta vistkerfa eflist svo sem hreinsun vatns og lofts, frævun fyrir uppskeru og vernd gegn flóðum. Með því að byggja upp seiglu vistkerfa og samfélaga Evrópu, draga úr ógnum sem steðja að fæðuöryggi og koma í veg fyrir náttúruhamfarir, aukast líkurnar á því að markmið náist um að takmarka hlýnun jarðar við 1,5℃ .
Ávinningurinn af endurheimt náttúrunnar er ekki einungis af umhverfislegum toga heldur er vel þekkt að slíkt skilar sér einnig í efnahagslegum ágóða. Evrópuráðið telur að hver evra sem notuð er í aðgerðir til endurheimtar skili 8-48 evrum í efnahagslegum ágóða. Að auki getur þetta skilað bændum auknum tekjum ef þess er gætt að þeir fái greitt fyrir vistkerfisþjónustu. Sömuleiðis gætu orðið til valkvæðir markaðir fyrir vottaðar einingar sem gefnar yrðu út vegna líffræðilegrar fjölbreytni.
Aðdragandinn að setningu laganna
Allir eru sammála um að núverandi ástand náttúrunnar og viðvarandi hnignun hennar er ófremdarástand. Þrátt fyrir það hefur ferlið gengið hægt og verið hnökrótt og brösuglega gengið að fá lögin samþykkt. Þegar fyrstu drögin voru lögð fram var fljótlega tekið til við að þynna þau út með breyttum skilgreiningum og lægri prósentutölum um markmið endurheimtar þannig að heildarmarkmiðin urðu mun veikari en lagt hafði verið upp með í upphafi. Þá tók við tveggja ára nokkuð hefðbundið ferli við gerð lagasetningar, sem endaði með því að allt virtist komið á beinu brautina, allir sáttir og einungis formsatriði eftir. Þá kom pólitíkin aftur til skjalanna, flækti málin og hægði enn frekar á hlutunum. Í mars dró Ungverjaland stuðning sinn skyndilega til baka ásamt sjö öðrum löndum sem mun vera einsdæmi í ákvörðunarferli löggjafar innan Evrópusambandsins. Þetta þýddi að meirihluti var ekki lengur fyrir málinu og því þurfti að fresta atkvæðagreiðslum.
Gagnrýnt var að með þessu væri grænu orðspori Evrópusambandsins stofnað í hættu, auk þess sem efnahagur Evrópu mætti hreinlega ekki við því að vistkerfum yrði leyft að hnigna og hverfa. Sömuleiðis væru alþjóðlegar skuldbindingar um líffræðilega fjölbreytni í uppnámi. Ástæður þess að umrædd lönd drógu stuðning sinn til baka voru óljósar. Græn „þreyta“ virtist komin í evrópsk samfélög út frá blöndu afleiðinga frá loftslagsbreytingum, hægan efnahagsbata af völdum heimsfaraldurs, ásamt áhrifa af stríði Rússlands í Úkraínu og tilheyrandi verðbólgu. Græn málefni eru ekki sett í eins mikinn forgang og áður. Einnig virðist sem ófrægingarherferð sem talið er að rekja megi til framleiðanda og seljanda áburðar og plöntuverndarvara hafi haft áhrif á fulltrúa á Evrópuþinginu. Síðast en ekki síst er talið að kröftug mótmæli bænda gegn sívaxandi kröfum á landbúnaðinn um bætta umhverfisvernd hafi haft sitt að segja og verið áhrifarík.
Haft er eftir fulltrúa eins ríkjanna sem þátt tóku í viðræðunum að „við getum ekki sagt annan daginn við bændur að við höfum fengið allt í gegn sem þeir báðu um varðandi ívilnanir frá Brussel og innleitt svo auknar byrðar á bændur hinn daginn“. Aðrir fulltrúar bentu á að bændur væru einfaldlega að berjast fyrir sanngjörnum tekjum. Í því fælist barátta þeirra. Þeir væru ekki að berjast gegn náttúrunni.
Stuðningur almennings við löggjöfina var skýr. Það sást meðal annars á skoðanakönnunum í þeim löndum þar sem stjórnvöld höfðu sett sig upp á móti löggjöfinni. Þar reyndist almenningur fylgjandi henni rétt eins og í Evrópusambandinu öllu. Yfir ein milljón borgara skrifaði undir áskoranir og skilaboðin voru send stjórnvöldum. Að auki sýndu yfir 6.000 vísindamenn, meira en 100 fyrirtæki, ýmis ungliðasamtök og samfélagshópar víðtækan stuðning.
Staðan virtist hnífjöfn og að lokum fór loftslagsráðherra Austurríkis djarflega gegn vilja kanslara síns og greiddi atkvæði með endurheimt náttúrunnar burtséð frá mögulegum afleiðingum slíkrar ákvörðunar fyrir hana sjálfa. Hún lagði ráðherrastól sinn að veði og enn sér ekki fyrir endann á þeim lagaflækjum og áhrifum á stjórnmálin innanlands sem þetta hefur valdið. Ráðherrann nýtti sér heimild í austurrískum lögum sem veita ráðherra úrskurðarvald ef ekki ríkir eining milli fylkja landsins um tiltekið málefni. Hún fór eftir sannfæringu sinni með þá framtíðarsýn að eftir 20-30 ár myndi hún geta sýnt frænkum sínum tveim fegurð landsins og Evrópu allrar. Ef þær spyrðu hvað hún hefði gert þegar mikið lá við myndi hún geta svarað að hún hefði veitt náttúrunni stuðning sinn eftir fremsta megni.
Lögin um endurheimt náttúru voru samþykkt með stuðningi 20 ríkja sem samsvarar 66,1% af íbúafjöldanum í ESB.
Orð framkvæmdastjóra umhverfismála ESB, Virginijus Sinkevičius, lýsa vel tilgangi laganna er hann sagði: „ ... hér er ekki verið að endurheimta náttúruna einungis fyrir náttúruna, heldur er þetta gert til að tryggja lífvænlegt umhverfi þar sem velsæld núverandi og komandi kynslóða er tryggð“.
Framkvæmd laganna og framtíðin
Framkvæmd laga um endurheimt náttúru byggist á að ESB-lönd leggi fram endurheimtar- áætlanir til framkvæmdastjórnarinnar innan tveggja ára frá gildistöku laganna þar sem fram kemur hvernig löndin hyggjast ná markmiðunum. Eftirlitið er síðan markvisst. Löndunum er gert að fylgjast með framgangi verkefnanna og skila skýrslum þar um. Umhverfisstofnun Evrópu á að skila framkvæmdastjórninni reglulega árangursskýrslum um framfarir í átt að markmiðunum en framkvæmdastjórnin gefur aftur á móti Evrópuþinginu og Evrópuráðinu skýrslu um framkvæmd náttúruverndarlaganna.
Löggjöfin er líka mikilvægt nesti til að hafa í farteskinu fyrir næstu ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um líffræðilegan fjölbreytileika (CBD COP16) síðar á þessu ári. Hún sýnir að Evrópa er reiðubúin að vera í fararbroddi annarra ríkja og takast á við þær ógnir sem steðja að loftslagi og líffræðilegum fjölbreytileika með því að standa við alþjóðlegar skuldbindingar sínar. Það eru líka mjög skýr skilaboð til nýs þings og framkvæmdastjórnar ESB, að gleyma ekki að hafa líffræðilegan fjölbreytileika í forgrunni á stefnuskrá sinni.
Grænn stórsigur fyrir Evrópu, náttúru, íbúa og framtíðina.
Höfundur er jarðfræðingur hjá Landi og skógi
Athugasemdir (2)