Þessi grein birtist fyrir meira en mánuði.

17. júní 1944: Forsetasonurinn í SS-sveitunum mætti og hrópaði húrra

Ís­lend­ing­ar í Dan­mörku héldu há­tíð í Kaup­manna­höfn 17. júní 1944 til að halda upp á lýð­veld­is­stofn­un­ina á Þing­völl­um. Einn við­staddra lýsti veisl­unni ör­fá­um dög­um síð­ar í bréfi til syst­ur sinn­ar og mágs.

17. júní 1944: Forsetasonurinn í SS-sveitunum mætti og hrópaði húrra
Sveinn Björnsson undirritar eiðstaf sem fyrsti forseti lýðveldisins Íslands á Þingvöllum 17. júní 1944. Spurning hversu hinum vammlausa Sveini hefði líkað það hefði hann vitað að þá um kvöldið skyldi drukkinn SS-maður (til hægri) mælast til þess að hrópað yrði húrra fyrir öllu saman.

Á þessum degi fyrir 80 árum var haldin samkoma á Þingvöllum þar sem Íslendingar afsköffuðu danska kónginn og gerðu ríki sitt að lýðveldi. Sveinn Björnsson var kjörinn fyrsti forseti Íslands.

Lýðveldisstofnunin var nokkuð umdeild þar eð Danmörk hafði þá verið undir járnhæl þýskra nasista í fjögur ár og ákvörðunin var því tekin einhliða af Íslendingum. Það var þeim vissulega heimilt samkvæmt samkomulagi þjóðanna frá 1918 en ýmsum fannst samt að kurteislegra hefði verið að bíða með full sambandsslit þar til Danir gætu um frjálst höfuð strokið.

Meðal þeirra sem töldu að heppilegra hefði verið að bíða voru áreiðanlega margir þeirra Íslendinga sem voru innilokaðir í Danmörku og höfðu deilt kjörum með Dönum síðan Þjóðverjar hernámu landið í apríl 1940.

En eftir að stjórnvöld á Íslandi höfðu tekið sína lokaákvörðun fögnuðu Íslendingar í Danmörku þó auðvitað lýðveldinu.

Og að kvöldi þess dags þegar Sveinn Björnsson skrifaði undir eið sinn sem fyrsti forseti lýðveldisins Íslands komu Íslendingar í Kaupmannahöfn saman í húsnæði stúdentasambands í borginni til að fagna lýðveldinu.

Páll Ragnarsson (1915-1998) lýsti því fyrir systur sinni og mági hvað fyrir augu bar í veislunni. Hann starfaði lengi hjá Siglingamálastofnun á Íslandi og endaði sem aðstoðarsiglingamálastjóri.

Mér barst nýlega í hendur bréf þar sem þeirri samkomu er lýst.

Bréfið skrifaði Páll Ragnarsson sem þá var tæplega þrítugur og hafði verið við skipstjóranám í Kaupmannahöfn þegar Þjóðverjar lögðu Danmörku undir sig og lauk svo sjóliðsforingjaprófi 1942.

Hann var svo áfram við nám í siglingafræðum ýmsum.

Páll bjó í Kaupmannahöfn ásamt danskri konu sinni, Hönnu Westgart.

Bréfið var hins vegar skrifað til Rögnu systur Páls og eiginmanns hennar, Jóns Sigurðssonar læknis en þau bjuggu þá í Óðinsvéum.

Bréfið var skrifað 19. júní og hefst á þessa leið og skal tekið fram að greinarmerkjasetningu og ákveðnum smáatriðum verið hnikað örlítið til á stöku stað:

„Kæru hjón Ragna og Jón.

Þakka ykkur fyrir bréfið og sendinguna, sem ég býst við að fá í dag.

Nú skal ég reyna að gefa report af 17. júní meðal landa í Kaupenhöfn.

Ragna Ragnarsdóttir Sigurðsson (1912-2005) og eiginmaður hennar Jón Sigurðsson (1906-1986) fengu bréfið frá Páli, bróður Rögnu. Ragna starfaði í bönkum í London, Hamborg og Kaupmannahöfn en gerðist síðar húsmóðir. Jón var lengi borgarlæknir.

Ég kom kl. 7 i Studenterforeningen, þó hátíðahöldin ættu að byrja kl. hálf 7. Klukkan hálf 8 hófst hátíðin með ræðu sem Jón prófessor Helgason hélt og kallaði Minni Íslands, var hún ágæt. Svo söng kórinn nokkur lög og tókst vel, og að lokum lék Axel Arnfjörð nokkur lög á fortepanó.“

Hér er vísað til Jóns Helgasonar sem þá var hálf fimmtugur en var löngu kominn í hópi helstu fræðimanna á sviði íslenskrar tungu og bókmennta. Hann var forstöðumaður safns Árna Magnússonar í Kaupmannahöfn og jafnframt prófessor við háskólann í borginni. Þá var Jón þegar farinn að láta að sér kveða sem skáld.

Axel Arnfjörð var Bolvíkingur sem hafði flust til Kaupmannahafnar til að stúdera tónlist 1930, er hann var aðeins tvítugur, og var búsettur þar æ síðan. Hann hafði stofnað Íslendingakórinn í borginni 1943.

En áfram heldur bréf Páls og nú koma til sögunnar tveir ólíkir menn.

Jón Helgason (1899-1986), Jakob Benediktsson (1907-1999) og Axel Arnfjörð (1910-1982) komu allir við sögu á lýðveldishátíð Íslendinga í Kaupmannahöfn. Jón og Jakob fluttu ávörp en Axel stjórnaði kórsöng og lék á píanó.

Annar var Jakob Benediktsson, tæplega fertugur Skagfirðingur, einn hinn lærðasti Íslendingur um sína daga og þá meðal annars bókavörður við Háskólabókasafnið í Kaupmannahöfn.

Jakob ritstýrði tímaritinu Frón sem Íslendingar í borginni gáfu þá út og hafði þar haldið fram því sjónarmiði að réttast væri að bíða með lýðveldisstofnun en þegar Íslendingar ákváðu að bíða ekki studdi hann þó þá ákvörðun.

Hinn var af nokkuð öðru sauðahúsi því hann var meðlimur í hinum þýsku SS-sveitum.

Hann hét Björn Sv. Björnsson, var 35 ára gamall og elsti sonur Sveins Björnssonar sem einmitt þennan dag, 17. júní 1944, var kosinn fyrsti forseti Íslands.

Björn hafði upp úr tvítugu fengist við kaupsýslu bæði í Danmörku og Þýskalandi en með heldur litlum árangri. Meðan hann var búsettur í Þýskalandi gerðist hann nasisti en þetta var á velmektarárum Adolfs Hitlers sem foringja Þjóðverja. Eftir að síðari heimsstyrjöldin braust út gekk Björn til liðs við SS, svonefndar „úrvalssveitir“ þýsku nasistanna, og var í nokkur ár fréttaritari á vegum SS á austurvígstöðvunum.

Hann hélt því fram síðar að hann hefði hvorki vitað af né hvað þá tekið þátt í nokkurs konar grimmdarverkum SS.

Björn Sv. Björnsson (1909-1998) átti eftir að vekja rækilega athygli í Kaupmannahöfn haustið 1944.Þá stýrði hann yfirtöku þýskra SS-manna á danska ríkisútvarpinu og var síðan yfirmaður þess í þeirra umboði skamma hríð. Varð hann vegna þessa afar illa liðinn í Danmörku. Eftir stríðið handtóku dönsk yfirvöld Björn en vegna þrýstings frá Íslandi var hann látinn laus og komst til Íslands þar sem reynt var að þagga framgöngu hans í SS-sveitunum í hel.

Hið fyrra var náttúrlega bláköld lygi.

Allir SS-menn vissu vel hvað gekk á enda stóðu þeir fremstir í flokki manndrápa og hryllingsverka. Og það er beinlínis fráleitt að Björn hafi ekki sjálfur séð ummerki illverka SS og/eða orðið vitni að þeim.

Hins vegar hefur ekki verið sýnt fram á að hann hafi tekið þátt í einhverju af því tagi sjálfur.

Eins og það var orðað á einum stað: Úr augum Björns brann ekki eldur ofstækismannsins heldur snarkaði þar glóð meðreiðarsveinsins. Hins vegar var hann ótvírætt sannfærður nasisti.

Þegar þarna var komið sögu hafði Björn að mestu aðsetur í Kaupmannahöfn og var nú sem sagt mættur í hóf Íslendinga til að fagna lýðveldisstofnuninni — og kjöri föður síns sem forseta hins nýja lýðveldis.

Þriðji maðurinn sem nefndur er í klausunni hér á eftir, Silli, hét Gunnar Böðvarsson og hafði nýlega lokið prófi í verkfræði frá Berlín og þá flutt sig yfir til Danmerkur.

Páll Ragnarsson hélt áfram í bréfinu til systur sinnar og mágs:

Gunnar Böðvarsson (1916-1989) eða „Silli“ varð að lokum prófessor í Bandaríkjunum: „Þú ert hysterískur, Björn!“ sagði hann við SS-manninn landa sinn.

„Svo var sest að borðum og hver ræðan fylgdi annari og hvert lagið [tók við af] öðru. Jakob Ben talaði fyrir Danmörku og mæltist vel; bað hann fólk að standa upp og hrópa húrra fyrir Danmörku og gerðu það allir nema elsti sonur nýja forsetans okkar, nefnilega Björn Sveinsson.

Við Silli sátum rétt hjá honum og Silli sagði: „Þú ert hysteriskur Björn!“

Björn sagði eitthvað á þá leið, að hann gæti ekki verið sammála Jakobi Ben, sem hefði sagt [að] Danir eiginlega aldrei hefðu beitt Íslendinga andlegri kúgun. Persónulega held ég að [Birni] hafi mislíkað […] þegar Jakob sagði að hann vonaðist til að Danir bráðum losnuðu úr ánauð [Þjóðverja] og yrðu frjálsir aftur.“

Svo kemur í ljós að ekki einungis Íslendingar voru viðstaddir, því þarna var líka Erlendur Patursson, röggsamur Færeyingur sem hafði verið við nám og störf í Danmörku um skeið en átti síðar eftir að stofna færeyska Þjóðveldisflokkinn og verða einn helsti stjórnmálamaður Færeyja í áratugi.

Erlendi Paturssyni (1913-1986) fannst Færeyjum gerð nokkur niðurlæging í veislunni en gladdist þó með Íslendingum.

Viðar Pétursson, sem einnig er nefndur, var læknir og tannlæknir og reyndar kunnur söngmaður.

Páll skrifar:

„Við fengum alla söngvana á prenti, og þar á meðal alla þjóðsöngva Norðurlanda nema Færeyja, svo Erlendur Paturson var [móðgaður] og sat þétt á rassi sínum meðan hinir voru sungnir.

Að söngnum loknum, og er fólk var farið að setjast, byrjuðu nokkrir að syngja þann færeyska (þá reis [Erlendur upp]) en þar eð fáir kunnu hann, fór það svona hálfpartinn út um þúfur, en viðleitni var gerð.

Viðar Pétursson (1908-1988) var söngmaður góður og skammaði landa sína fyrir frammistöðu sína við að syngja færeyska þjóðsönginn í lýðveldisveislunni.

Að því loknu reis upp Viðar Pétursson og bað fólk að skammast sín fyrir þetta.

Svo hljóp Erlendur upp á stól og bað fólk um að hrópa ferfalt húrra fyrir nýja íslenska lýðveldinu. Síðan stóð upp Björn Sveinsson sem var hálffullur og sagði með svo miklu handapati og af mikilli tilfinningu:

„Þar sem engum hafi dottið það í hug fyrr þá vil ég sem elsti sonur forseta mælast til að hrópað verði húrra fyrir lýðveldinu!“ 

(Þetta er nú ekki orðrétt hjá mér, en það var eitthvað á þessa leið.) 

Mér er næst að halda að Björn í ,,Brandert“ sínum hafi gleymt að Erlendur var nýbúinn að mælast til þess sama.“

Danska orðið brandert þýðir einfaldlega ölvunarástand.

Í síðasta kafla bréfs Páls, sem hér verður birtur, eru nefndir þeir Óli Vilhjálmsson sem var starfsmaður Sambands íslenskra samvinnufélaga í Kaupmannahöfn og Jón Krabbe sem var sonur dansks föður en íslenskrar móður og vann í áratugi í íslenska sendiráðinu í Kaupmannahöfn.

Óli Vilhjálmsson (1888-1975) flutti að mati Páls bréfritara lítt skiljanlega ræðu ætlaða fyrst og fremst Jóni Krabbe (1874-1964).

Í bréfinu segir:

„Svo stóð upp Óli Vilhjálmsson og ætlaði að byrja ræðu sína á gömlum mjög indvinkluðum íslenskum málshætti, en hann mundi ekki málsháttinn þegar tilkom en það gerði nú ekki neitt því að ræðan var til [Jóns Krabbe] og hann er jú næstum heyrnarlaus karlanginn sem allir vita.

Var nú sungið og talað, svo næstum engin tími gafst til þess að borða og klukkan var orðin 11 áður en maður vissi af.“

Bréfinu lauk svo á klassískan hátt:

„Hvernig hefur strákurinn það? [Örn, barnungur sonur Rögnu og Jóns Sigurðssonar.] Er hann farin að tala, að fá tennur .... að ganga svolítið?

Þið eruð svo löt að skrifa, maður heyrir næstum aldrei neitt frá ykkur.

Bestu kveðjur frá mér og konu minni.

Palli“

Kjósa
69
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Flækjusagan

Mest lesið í vikunni

Uppskera íslenskra kartaflna skemmdist á 48 tímum: „Aldrei séð annað eins“
1
FréttirNeytendamál

Upp­skera ís­lenskra kart­aflna skemmd­ist á 48 tím­um: „Aldrei séð ann­að eins“

Heit­ar um­ræð­ur sköp­uð­ust á Face­book í gær eft­ir að Ingi­björg Sól­rún Gísla­dótt­ir greindi frá því að heill poki af nýj­um kart­öfl­um hefði reynst skemmd­ur. Gunn­laug­ur Karls­son, for­stjóri Sölu­fé­lags garð­yrkju­manna, seg­ist aldrei hafa séð ann­að eins. Upp­sker­an hafi skemmst á tveim­ur sól­ar­hring­um.
Greiddu 17 milljónir fyrir skýrslu um stöðu drengja
2
Fréttir

Greiddu 17 millj­ón­ir fyr­ir skýrslu um stöðu drengja

Skýrsla um stöðu drengja í skóla­kerf­inu sem unn­in var að beiðni mennta- og barna­mála­ráð­herra og há­skóla-, iðn­að­ar- og ný­sköp­un­ar­ráð­herra kostaði sam­an­lagt um 13,7 millj­ón­ir króna auk virð­is­auka­skatts og hljóð­ar heild­ar­upp­hæð­in því upp á rúm­ar 17 millj­ón­ir. Tryggvi Hjalta­son, grein­andi hjá CCP, er eini höf­und­ur skýrsl­unn­ar. Í sam­tali við Heim­ild­ina seg­ist hann hafa unn­ið að skýrsl­unni sam­hliða öðr­um störf­um en vinn­an tók um eitt og hálft ár.
Öskraði í sturtu því hún mátti ekki hitta dóttur sína
5
Viðtal

Öskr­aði í sturtu því hún mátti ekki hitta dótt­ur sína

Guð­laug Elísa­bet Ólafs­dótt­ir, kúa­bóndi og leik­kona, er orð­in goði. Nýi goð­inn hef­ur upp­lif­að gleði og sorg­ir og varð líf­ið hel­víti lík­ast þeg­ar hún fékk ekki að um­gang­ast barn­unga dótt­ur sína, sem frændi henn­ar og mað­ur hans höfðu ætt­leitt. Stúlk­an vildi fyr­ir nokkr­um ár­um hitta móð­ur sína og eru sam­skipt­in við feð­urna góð í dag en lær­dóm­ur­inn var mik­ill: „Ég hef trú á að það hjálpi mér við að um­gang­ast fólk í djúpu og miklu sorg­ar­ferli.“
Meðallaun segja ekki allt varðandi kjör fólks í landinu
6
GreiningMillistétt í molum

Með­al­laun segja ekki allt varð­andi kjör fólks í land­inu

Reglu­lega er töl­um um með­al­laun Ís­lend­inga fleygt fram í um­ræð­unni og þau gjarn­an sögð vera óvenju­há í sam­an­burði við önn­ur lönd. Í fyrra voru heild­ar­laun full­vinn­andi fólks að með­al­tali 935.000 þús­und krón­ur á mán­uði. Hins veg­ar fær flest starf­andi fólk mán­að­ar­laun sem eru lægri en þetta með­al­tal. Að ýmsu þarf að gæta þeg­ar með­al­tal­ið er rætt því hlut­fall­ið seg­ir ekki alla sög­una.
Þurftu að kalla fólk niður af fjalli til að færa bílana
7
Fréttir

Þurftu að kalla fólk nið­ur af fjalli til að færa bíl­ana

Daní­el Freyr Jóns­son, svæð­is­sér­fræð­ing­ur í nátt­úru­vernd­art­eymi, seg­ir stans­laus­ar tepp­ur hafa ver­ið á bíla­stæð­um við Land­manna­laug­ar áð­ur en far­ið var að inn­heimta bíla­stæða­gjöld á álags­tím­um í sum­ar. Kalla hafi þurft bíl­stjóra nið­ur af fjöll­um til að færa bíl­ana til að greiða leið fyr­ir rút­um. Nýja fyr­ir­komu­lag­ið hafi hlot­ið góð við­brögð hjá gest­um.
Einstæðir foreldrar berjast í bökkum
8
Fréttir

Ein­stæð­ir for­eldr­ar berj­ast í bökk­um

Nú­ver­andi efna­hags­ástand hef­ur sett heim­il­is­bók­hald­ið hjá mörg­um lands­mönn­um úr skorð­um. Ástand­ið kem­ur verst nið­ur á þeim sem búa ein­ir og reiða sig á stak­ar mán­að­ar­tekj­ur. Sá tími þeg­ar ein­stak­ling­ar með lág­ar eða með­al­tekj­ur gátu rek­ið heim­ili er löngu lið­inn. Lít­ið má út af bregða hjá stór­um hluta ein­stæðra for­eldra til þess þau þurfi ekki að stofna til skuld­ar.
„Enginn sem tekur við af mér“
9
Viðtal

„Eng­inn sem tek­ur við af mér“

Það er barn­ing­ur fyr­ir marga að vera sjálf­stætt for­eldri á ein­um tekj­um. En hver er stað­an ef for­eldr­ið er al­far­ið eitt með barn­ið? Hvað ef barn­ið glím­ir við sér­tæk­ar grein­ing­ar? Alma Hrönn Hrann­ar­dótt­ir og Diljá Ámunda­dótt­ir Zoëga eru báð­ar ein­ar á vakt­inni, alltaf. Mæð­urn­ar hafa glímt við heilsu­brest vegna álags, með­vit­að­ar um að ef eitt­hvað kem­ur fyr­ir þær er eng­inn sem tek­ur við af þeim.

Mest lesið í mánuðinum

Þau sem hafa hagnast ævintýralega á Þorpinu
1
FréttirHúsnæðismál

Þau sem hafa hagn­ast æv­in­týra­lega á Þorp­inu

Ár­ið 2021 keypti hóp­ur fjár­festa í gegn­um eign­ar­halds­fé­lag­ið Þorp­ið 6 ehf. lóð­ir og bygg­ing­ar­rétt­indi á Ár­túns­höfða í Reykja­vík fyr­ir 7,4 millj­arða króna. Fyrr á þessu ári voru lóða­rétt­ind­in seld fyr­ir ell­efu millj­arða króna án þess að nokk­uð hafi ver­ið byggt á svæð­inu. Við­skipt­in sýna vel hvernig fjár­fest­ar geta hagn­ast æv­in­týra­lega með því að kaupa og selja lóð­ir og bygg­ing­ar­rétt­indi á til­tölu­lega skömm­um tíma.
Uppskera íslenskra kartaflna skemmdist á 48 tímum: „Aldrei séð annað eins“
2
FréttirNeytendamál

Upp­skera ís­lenskra kart­aflna skemmd­ist á 48 tím­um: „Aldrei séð ann­að eins“

Heit­ar um­ræð­ur sköp­uð­ust á Face­book í gær eft­ir að Ingi­björg Sól­rún Gísla­dótt­ir greindi frá því að heill poki af nýj­um kart­öfl­um hefði reynst skemmd­ur. Gunn­laug­ur Karls­son, for­stjóri Sölu­fé­lags garð­yrkju­manna, seg­ist aldrei hafa séð ann­að eins. Upp­sker­an hafi skemmst á tveim­ur sól­ar­hring­um.
Hulduheildsali flytur inn hundruð tonna af kjöti
4
RannsóknSamkeppnisundanþága í Landbúnaði

Huldu­heild­sali flyt­ur inn hundruð tonna af kjöti

Ris­ar á ís­lensk­um kjöt­mark­aði, sem fengu í vor um­deild­ar und­an­þág­ur frá sam­keppn­is­lög­um til þess að verj­ast sam­keppni að ut­an, verða á þessu ári um­fangs­mest­ir í kjöt­inn­flutn­ingi og því keppi­naut­ar sjálfs sín. „Von­brigði,“ seg­ir formað­ur at­vinnu­vega­nefnd­ar. Um­fangs­mik­il heild­sala á hundruð­um tonna af inn­fluttu kjöti virð­ist fyrst og síð­ast leiktjald fyr­ir öfl­ug­asta hags­muna­afl­ið gegn inn­flutn­ingi land­bún­að­ar­vara.
Greiddu 17 milljónir fyrir skýrslu um stöðu drengja
5
Fréttir

Greiddu 17 millj­ón­ir fyr­ir skýrslu um stöðu drengja

Skýrsla um stöðu drengja í skóla­kerf­inu sem unn­in var að beiðni mennta- og barna­mála­ráð­herra og há­skóla-, iðn­að­ar- og ný­sköp­un­ar­ráð­herra kostaði sam­an­lagt um 13,7 millj­ón­ir króna auk virð­is­auka­skatts og hljóð­ar heild­ar­upp­hæð­in því upp á rúm­ar 17 millj­ón­ir. Tryggvi Hjalta­son, grein­andi hjá CCP, er eini höf­und­ur skýrsl­unn­ar. Í sam­tali við Heim­ild­ina seg­ist hann hafa unn­ið að skýrsl­unni sam­hliða öðr­um störf­um en vinn­an tók um eitt og hálft ár.
„Ég var bara niðurlægð“
6
Viðtal

„Ég var bara nið­ur­lægð“

Séra Agnes M. Sig­urð­ar­dótt­ir, bisk­up Ís­lands, vill skila skömm­inni til kirkju­þings þar sem hún upp­lifði nið­ur­læg­ingu eft­ir að óvissa varð uppi um lög­mæti embætt­is­gjörða henn­ar. Hún seg­ir að kirkju­þing hafi átt að greiða úr mál­inu og eyða óvissu um stöðu henn­ar. Agnes tel­ur að karl­kyns bisk­up hefði aldrei þurft að þola slíka fram­komu af hálfu kirkju­þings en hún er fyrsta kon­an sem er kjör­in bisk­up.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár