„Í dag þurftum við því miður að hefja þann feril að hætta starfsemi Running Tide,“ skrifaði Marty Odlin, stofnandi og forstjóri Running Tide á Linkedin í gær, föstudag. Tveimur dögum áður tilkynnti Kristinn Árni Lár Hróbjartsson, framkvæmdastjóri dótturfélagsins á Íslandi, hið sama. Skýringin er sögð sú að ekki hafi tekist að tryggja „rétta tegund fjármögnunar til að halda starfi okkar áfram á þeim mikla hraða sem þarf til,“ líkt og Odlin orðar það.
Í nýjasta tölublaði Heimildarinnar, sem kom út þann sama dag og þessi tíðindi bárust, er fjallað ítarlega um starfsemi Running Tide hér á landi. Fyrirtækið, sem gaf sig út fyrir að vinna að verkefnum í þágu loftslags, fékk hraða meðferð í gegnum íslenska stjórnsýslu, stuðningsyfirlýsingu fjögurra ráðherra og leyfi til rannsókna - allt á innan við hálfu ári frá fyrstu snertingu við stjórnvöld.
Aðgerðir þær sem fyrirtækið fór í voru á endanum ekki undir neinu eftirliti opinberra stofnanna hér á landi og voru aðrar en þær sem lýst var í rannsóknarleyfi. Í stað þess að fleyta sérstökum flothylkjum sem stórþörungar áttu að vaxa á, var þúsundum tonna af kanadísku trjákurli, húðuðu kalksteinsefnum, hent í sjóinn. Í kjölfarið fullyrti Running Tide að 25 þúsund tonna binding af CO2 hefði átt sér stað.
Blaðamenn Heimildarinnar ræddu við hóp vísindamanna, íslenskra sem erlendra, sem gagnrýndu aðferðir fyrirtækisins
„Aðferðirnar sem Running Tide notar binda ekkert koltvíoxíð úr andrúmsloftinu. Núll,“ sagði Jón Ólafsson, haffræðingur og prófessor emerítus, við Heimildina. „Allt þetta brambolt er til einskis.“
Hann er í hópi fjölmargra vísindamanna sem rekið hafa upp stór augu eftir að hafa kynnt sér starfsemi Running Tide. Þeir sögðu fullyrðingu um hina miklu bindingu ekki standast skoðun og að enginn óháður aðili hefði staðfest að hún hafi átti sér stað. Þá undruðust þeir mjög að Umhverfisstofnun hefði ekkert eftirlit haft með starfseminni.
Vísindamennirnir bentu ennfremur á að kenningar sem Running Tide hélt fram stæðu á veikum vísindalegum grunni og væru líklega framsettar til þess að afla fjármagns. Þá væri illskiljanlegt að yfirvöld hefðu leyft svo mikla losun efnis í rannsóknarverkefni, eða allt að 50 þúsund tonn árlega. Tíu tonn hefðu dugað.
Kristinn framkvæmdastjóri dótturfélagsins á Íslandi sagði á miðvikudag að öllu starfsfólki hér á landi hefði verið sagt upp. Þá tók hann einnig sérstaklega fram að Running Tide væri ekki gjaldþrota þótt verið væri að vinda ofan af starfseminni.
Odlin stofnaði Running Tide í Maine í Bandaríkjunum árið 2017. Fyrirtækið hóf starfsemi hér á landi árið 2022.
Athugasemdir (2)