Evrópukeppnin í knattspyrnu hófst í gær. Svo virðist sem allir gleðjist yfir því nema ég og Kolbrún Bergþórsdóttir sem kvartaði í vikunni yfir raski á sjónvarpsdagskránni vegna „ofríkis íþróttaheimsins“ í pistli í Morgunblaðinu.
Þangað til nýlega blasti við mér út um eldhúsgluggann minn fótboltaleikvangur enska úrvalsdeildarliðsins Arsenal. Fyrst eftir að ég flutti inn í blokkaríbúð í Highbury fór það í taugarnar á mér þegar 60.000 fótboltaáhangendur lögðust á hverfið eins og engisprettufaraldur. Þegar eiginmaðurinn, sem hafði aldrei sýnt fótbolta minnsta áhuga, fór að kveikja á sjónvarpinu til að horfa á hverfisliðið spila var mér verulega brugðið. Hafði ég keypt köttinn í sekknum?
Aðeins ein breyting
Bretar syrgja nú vinsælan sjónvarpsmann, lækninn Michael Mosley, sem lést sviplega í gönguferð á grísku eyjunni Symi þar sem hann var í sumarfríi með eiginkonu sinni. Mosley hafði ástríðu fyrir því að fræða almenning um heilsu og hvíldu ráðleggingar hans ávallt á vísindalegum grunni.
Þegar Mosley lést flutti Breska ríkisútvarpið nýja útvarpsþætti hans, „Just one thing“, sem veltu upp spurningunni „ef við gerðum aðeins eina breytingu á lífi okkar, hvað bætti heilsu okkar mest?“ Mælti Mosley með að við gerðum armbeygjur í morgunsárið, færum í kalda sturtu, dönsuðum, færum í göngutúr fyrir morgunmat, hreyfðum okkur stutt en oft, borðuðum heimagert súrkál og dökkt súkkulaði eða tækjum lúr eftir hádegismat. Ein var þó sú heilsubót á lista Mosley sem stakk í stúf við heilsuráð eins og við þekkjum þau.
Líkamlega á staðnum
Ég horfi ekki lengur á fótboltavöll út um eldhúsgluggann minn. Eftir áratugardvöl við Arsenal-leikvanginn er ég flutt. Mér til furðu sakna ég hins vegar sveimsins af fótboltabullum sem örkuðu syngjandi fram hjá með grillaða pylsu í annarri hendi og bjórdós í hinni, rétt eins og að aðra hverja helgi skylli á 17. júní. Því þótt enn hafi ég ekki gaman af fótbolta er ég farin að kunna að meta andrúmsloftið sem fylgir honum, eftirvæntinguna, hátíðarstemninguna, samkundurnar og samtölin við ókunnuga úti á götu um gengi liðsins.
En hvað geri ég til að komast heilvita í gegnum níutíu mínúturnar sem fótboltaleikur varir? Ég fylgi einu af heilsubótarráðum Mosley.
Samkvæmt rannsóknum minnkar lestur stress og er kvíðastillandi. „Þegar við erum kvíðin beinist athyglin inn á við,“ hefur Mosely eftir sérfræðingi í taugavísindum við Háskólann í York í útvarpsþætti sínum. „Við lestur neyðumst við til að einbeita okkur að orðunum og sögunni sem veldur því að við slökum á.“
„ Með bók í hönd er ég með í partíinu, líkamlega á staðnum en hugurinn er annars staðar, frjáls undan þjáningunni sem fylgir því að horfa á fullorðna menn sparka bolta.“
Lestur er talinn draga úr þunglyndi og minnka líkamlegan sársauka. Rannsókn, sem gerð var í Brasilíu meðal alvarlega veikra barna, sýndi að ef skemmtikraftur læsi fyrir börnin sögu fyndu þau síður til en ef skemmtikrafturinn hefði ofan af fyrir þeim með öðrum hætti.
Á meðan eiginmaðurinn og börnin horfa á fótbolta held ég mig á hliðarlínunni. Með bók í hönd er ég með í partíinu, líkamlega á staðnum en hugurinn er annars staðar, frjáls undan þjáningunni sem fylgir því að horfa á fullorðna menn sparka bolta.
En samkvæmt Mosley er lestur meira en stundargrið. Vísindamenn við Stanford-háskóla skoðuðu í heilaskanna heilastarfsemi fólks sem las Jane Austen og komust óvænt að því að lestur eykur blóðflæði um heilann allan. Þegar við lesum og ímyndum okkur sögusvið, lykt og bragð – lesum orð eins og „kanill“ eða „sápa“ – virkjast ekki aðeins þær heilastöðvar sem tengjast tungumálinu heldur einnig þær sem valda því að við finnum lykt og bragð. Lestur getur haldið aftur af hrörnun heilans og heilabilun og hægt á elliglöpum.
Vegna „ofríkis íþróttaheimsins“ verður ekkert í Sjónvarpinu næstu vikurnar. Meira að segja kvöldfréttirnar verða færðar frá klukkan sjö til klukkan níu á meðan EM stendur. Það er því tilvalið fyrir þau sem ekki hyggjast horfa að mæta í partíið en skýla sér á bak við bók á meðan boltasparkinu stendur. Ekki aðeins er það góð leið til að drepa tímann heldur getur hlotist af því heilsufarslegur ávinningur. Rannsókn við Yale-háskóla sýnir að þeir sem lesa skáldskap hálftíma á dag lifa að meðaltali tveimur árum lengur en aðrir.
Góða skemmtun.
Athugasemdir (1)