Bjarni Benediktsson forsætisráðherra segir að ákvörðun Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur um að gefa heimild fyrir hvalveiði ekki hafa komið sér á óvart. Skömmu fyrir hádegi í dag tilkynnti matvælaráðuneytið um þá ákvörðun um veita Hval hf. veiðileyfi til veiða á langreyðum. Leyfilegt veiðimagn verður 128 dýr og gildir leyfið út veiðitímabilið 2024.
„Ég hins vegar tek eftir því að ráðherrann segir rétt að veita leyfið núna til eins árs og færir fyrir því rök sem mér finnst alveg vera skiljanleg,“ sagði Bjarni og bætti við að stjórnvöld þurfi að öllum líkindum að skoða hvað hefði betur mátt fara í málinu hefur dregist á langinn.
„Það sem við þurfum kannski að spyrja okkur er hvort að stjórnsýslan í þessum málum sé nægilega skilvirk og veit þann fyrirsjáanleika sem nauðsynlegur er fyrir þessa starfsemi.“
Aðspurður hvernig andrúmsloftið hafi verið á ríkisstjórnarfundinum þar sem matvælaráðherra tilkynnti ráðherrum um ákvörðun sína segir Bjarni andrúmsloftið hafi verið ágætt. „Það var bara ágætis stemming með þessa niðurstöðu.“
Leggur áherslu á að lögum og reglum sé fylgt
Spurður hvort hann væri ánægður með niðurstöðuna sagði Bjarni að hann vilji að lögum og reglum sé fylgt og stjórnsýslan sé skilvirk.
„Það er það sem skiptir mestu máli. Þegar við erum að framkvæma lög og fylgja reglum um þessi efni, þar með talið stjórnsýslureglum, að þá séum við að vanda okkur og séum skilvirk í því og það var svona eitt af þeim atriðum sem hafa verið í umræðunni að undanförnu.“
Þá sagðist Bjarni skilja vel gagnrýnina sem beinst hefur að stjórnvöldum, sérstaklega því hversu langan tíma hefur tekið að komast að þessari niðurstöðu.
„Ég skil alveg að það hafi komið fram athugasemdir um tímann og til dæmis eiga mjög margir hagsmuna að gæta, fjöldi fólks sem var að vonast til þess að hafa af þessari starfsemi góðar tekjur og atvinnu í sumar. Þannig það er ekki léttvægt mál þegar slíkar athugasemdir berast, en nú er komin niðurstaða,“ segir Bjarni.
Formaður VG virðir ákvörðun matvælaráðherra
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra og formaður VG, segist virða ákvörðun ráðherra þrátt fyrir að hvalveiðar gangi gegn pólitískum skoðunum hans.
„Þetta er bara það sem hún verður að gera. Hún verður að gefa út leyfið og gefur það samkvæmt stjórnarskrá. Hún gefur leyfið til skamms tíma, með eins fáum dýrum og hægt er. Auðvitað er mín pólitíska skoðun sú að við eigum að hætta hvalveiðum á Íslandi. Bæði er mikill stuðningur fyrir því hjá almenningi, eins og skoðanakannanir hafa sýnt, þróunin hjá alþjóðlega sviðinu er öll með þessum hætti,“ sagði Guðmundur Ingi.
Sigurður Ingi segir sátt ríkja innan ríkisstjórnar
Þegar Sigurður Ingi Jóhannsson steig út af fundi ríkisstjórnar var hann spurður hvort hann hefði áhyggjur af eftirmálum af því hversu langan tíma tók að afgreiða málið. „Það er bara liðin tíð. Nú liggur ákvörðun fyrir og ég er ánægður með það,“ sagði Sigurður Ingi.
Spurður hvort hann væri sammála því að breyta þurfi lögum um hvalveiðar eins sagði Sigurður Ingi að vinna væri nú þegar hafin við að leggja mat á núverandi löggjöf. „Það var sett ákveðin vinna í gang og það eru öflugir aðilar að því sem hyggjast skila áliti í haust eða vetur.“
Þá taldi Sigurður Ingi að ríkisstjórnarsamstarfinu hafi ekki verið stefnt í hættu vegna málsins, ákvörðun matvælaráðherra muni ekki koma til með að kljúfa stjórnarsamstarfið.
„Þessi ákvörðun er bara eðlileg í ljósi þess sem við höfum verið með á stefnuskrá þessarar ríkisstjórnar. Það var ekki á stefnuskrá hennar að breyta stefnu Íslands í hvalveiðum.“
Athugasemdir