Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, leiðir í kosningaspá Heimildarinnar nú þegar einn dagur er til kosninga. Hún mælist með 24,1 prósent fylgi sem er mjög svipað fylgi og hún hefur haft allan maímánuð. Katrín hefur þó dalað um eitt prósentustig síðastliðna viku.
Sá frambjóðandi sem er líklegastur til að veita henni mesta samkeppni á morgun er Halla Tómasdóttir, forstjóri B Team. Hún mælist nú með 22,4 prósent stuðning, hefur bætt við sig um fimm prósentustigum á viku og nær nú í fyrsta sinn að kljúfa 20 prósentustiga-múrinn í þessari kosningabaráttu. Ekki er marktækur munur á þeim tveim.
Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri hefur líka verið að bæta við sig á síðustu metrunum í kosningabaráttunni eftir að hafa dalað hratt um miðjan mánuðinn. Nú segjast 19,5 prósent kjósenda ætla að kjósa hana, sem er einu prósentustigi meira en fyrir viku síðan.
Tvær með langmestar líkur
Samkvæmt þessum niðurstöðum eru þrjár konur líklegastar til að verða næsti forseti Íslands. Líkur Katrínar á sigri hafa dala í vikunni og mælast nú 41 prósent. Líkur Höllu Tómasdóttur hafa hins vegar tekið stökk upp á við allra síðustu daga og eru nú 31 prósent. Halla Hrund á svo 17 prósent líkur á sigri.
Þetta sýna útreikningar dr. Baldurs Héðinssonar á líkum hvers frambjóðanda á sigri. Hana fær Baldur út með því að miða við stöðu mála í kosningaspá sem hann vinnur í samstarfi við Heimildina og hversu mikið frávik hefur verið í fyrri skoðanakönnunum tveimur vikum fyrir kosningar. Í kjölfarið keyrði hann 100 þúsund sýndarkosningar til að reikna út hversu líklegt er að hver og einn frambjóðandi sigri. Þegar nær dregur kosningum minnkar frávikið sem fer inn í sýndarkosningarnar sem mun leiða til þess að þeir frambjóðendur sem eru að mælast með mest fylgi fá hærri líkur á sigri en aðrir minni.
Vinni einhver ofangreindra þriggja kvenna þá verður viðkomandi önnur konan í lýðveldissögunni til að fá lyklana að Bessastöðum á eftir Vigdísi Finnbogadóttur, sem sigraði naumlega í forsetakosningum 1980 og sat í 16 ár.
Baldur dalar og Jón undir tíu prósent
Síðustu daga og vikur hefur baráttan virst vera á milli fjögurra frambjóðenda. Sá sem hefur fallið lengst frá á lokasprettinum er Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði. Hann mælist nú með 15,3 prósent fylgi sem er það lægsta sem hann hefur mælst með frá því að fyrsta kosningaspáin var keyrð 13. apríl. Hann hefur tapað 2,4 prósentustigum í þessari viku og það er nú marktækur munur á honum og þeim tveimur frambjóðendum sem leiða. Líkur hans á sigri mælast nú einungis átta prósent.
Framan af kosningabaráttunni leit út fyrir að Jón Gnarr, leikari og fyrrverandi borgarstjóri í Reykjavík, gæti blandað sér í baráttuna. Hann var um tíma sá frambjóðandi sem mældist með þriðja mesta fylgið en frá síðustu mánaðamótum hefur fjarað skarpt undan stuðningi við Jón. Nú mælist hann, í fyrsta sinn, með undir tíu prósent fylgi og það hefur helmingast frá því sem það var um miðbik aprílmánaðar. Jón á sem stendur tveggja prósenta líkur á því að verða næsti forseti landsins,
Arnar Þór Jónsson, varaþingmaður og fyrrverandi dómari, er með 5,9 prósent fylgi og hefur tapað lítillega af fylgi í liðinni viku. Líkurnar á því að hann flytji á Bessastaði eru eitt prósent.
Hinir sex frambjóðendurnir sem hafa ekki verið taldir upp hér skipta svo á milli sín 3,2 prósentustigum og þeir eiga nær engar líkur á því að sigra kosningarnar.
Hvað er kosningaspáin?
Kosningaspáin er unnin í samstarfi við dr. Baldur Héðinsson. Hann hefur keyrt kosningaspálíkan sem hann smíðaði fyrir fyrirrennara Heimildarinnar í öllum kosningum sem fram hafa farið á Íslandi síðastliðinn áratug, og mun gera það í aðdraganda forsetakosninganna einnig. Líkanið miðar að því að setja upplýsingar sem skoðanakannanir veita í samhengi. Fyrirliggjandi skoðanakannanir eru teknar saman og þeim gefið vægi til þess að spá fyrir um úrslit kosninga. Niðurstöður spálíkansins eru svo birtar reglulega í Heimildinni, jafnt á prenti og vef, í aðdraganda kosninga.
Þær kannanir sem teknar eru gildar í kosningaspánni verða að uppfylla lágmarksskilyrði tölfræðilegrar aðferðafræði. Þar er litið til stærðar úrtaksins, fjölda svarenda, könnunartímabils og þess hvort úrtakið standist kröfur til að reynast marktækt, svo fátt eitt sé nefnt.
https://www.mannlif.is/frettir/innlent/lesendur-mannlifs-hafa-valid-ser-forseta/?fbclid=IwZXh0bgNhZW0CMTEAAR1py2gQhQXtHnL_JH9cyUbLE-FZ1RedSvwIY9_IBjKKzqBHxhoAsmPz9QE_aem_AT6HS6AdLuqIWUe8YHOGNnQQvH3YoiIfeskfjol4dBj9M4XYFI6Vqv64Q98Y-qFOXOm0Vi7pDpj0V817Ylvk18RC