Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 17,5 prósent fylgi í nýjustu könnun Maskínu á fylgi flokka, sem birt var í dag. Það er 6,9 prósentustigum minna en flokkurinn fékk í síðustu kosningum. Vinstri græn hafa tapað enn meira fylgi á þeim tíma sem liðinn er frá því að síðasta var kosið, eða 7,5 prósentustigum, og fylgi flokksins mælist nú einungis 5,1 prósent. Litlu þyrfti að skeika til að flokkurinn næði ekki yfir þann þröskuld sem er nauðsynlegt að klífa til að fá uppbótarþingmenn og sá möguleiki er raunverulegur að flokkurinn nái ekki inn manni á þing. Þriðji stjórnarflokkurinn, Framsóknarflokkur, mælist með 10,4 prósent fylgi sem er 6,9 prósentustigum minna en flokkurinn fékk í kosningunum haustið 2021.
Samanlagt mælast stjórnarflokkarnir þrír með 33 prósent fylgi sem er það minnst sem þeir hafa mælst með í könnunum Maskínu, og tafa tapað 21,4 prósentustigum frá síðustu kosningum. Þeir hafa ekki náð að mælast með yfir 40 prósent sameiginlegt fylgi síðan á fjórða ársfjórðungi 2022, eða fyrir einu og hálfu ári síðan.
Þegar skipt var um forsætisráðherra í ríkisstjórninni í síðasta mánuði, þar sem Bjarni Benediktsson tók við af Katrínu Jakobsdóttur, var gefið sterkt til kynna að stjórnin ætlaði sér að sitja út kjörtímabilið, sem tekur enda haustið 2025 að óbreyttu. Ljóst má vera að breytingarnar hafa engu breytt um fylgi stjórnarflokkanna. Sameiginlegt fylgi þeirra hefur meira og minna verið á þeim slóðum sem það er nú frá síðasta hausti.
Samfylkingin marktækt stærst fimmtánda mánuðinn í röð
Samfylkingin mælist stærsti flokkur landsins líkt og hún hefur gert linnulaust frá því í lok árs 2022. Nú mælist fylgi 27,3 prósent og stendur í stað milli mánaða. Flokkurinn hefur bætt við sig 17,4 prósentustigum það sem af er kjörtímabili og er það stjórnmálaafl sem hefur bætt við sig langmestu fylgi frá síðustu kosningum.
Í könnun Maskínu kemur fram að maí sé fimmtándi mánuðurinn í röð þar sem marktækur munur mælist á fylgi Samfylkingarinnar og næst stærsta stjórnmálaflokks landsins, Sjálfstæðisflokksins. Í nýjustu könnuninni mælist sá munur um tíu prósentustig.
Leiða má að því líkur að fylgistap Sjálfstæðisflokksins haldist að einhverju leyti í hendur við umtalsverða fylgisaukningu Miðflokksins, sem mælist nú með 12,6 prósent fylgi og hefur þar með bætt við sig 7,2 prósentustigum frá því að kosið var síðast.
Viðreisn hefur líka bætt aðeins við sig og er nú að mælast með 9,4 prósent fylgi, eða 1,1 prósentustigi yfir kjörfylgi. Píratar eru nánast á sama stað og haustið 2021 með 8,4 prósent en Flokkur fólksins hefur tapað marktæku fylgi, farið úr 8,8 í 5,6 prósent það sem af er kjörtímabili. Sósíalistaflokkur Íslands myndi ekki ná inn á þing eins og er þar sem fylgi hans mælist 3,9 prósent.
Dreifing atkvæða svipuð en nýir flokkar í efstu sætum
Athyglisvert er að dreifing atkvæða er alls ekki ólík því sem hún var í kosningunum 2021, flokkarnir hafa bara skipt um sæti á þeim dreifingarlista. Samfylkingin hefur tekið við hlutverki Sjálfstæðisflokks sem stærsti flokkur landsins með 27,3 prósent, en flokkur núverandi forsætisráðherra fékk 24,4 prósent í síðustu kosningum. Sá flokkur er svo nýi Framsóknarflokkurinn enda fylgi hans nú nánast það sama og flokkur Sigurðar Inga Jóhannssonar fékk haustið 2021. Miðflokkurinn tekur við hlutverki Vinstri grænna sem þriðji stærsti flokkur landsins með nákvæmlega sama fylgi og sá síðarnefndi fékk í síðustu kosningum, 12,6 prósent. Vinstri græn setjast að saka skapi á botn listans með fylgi sem rétt dugar inn á þing og dugar, í besta falli, til að ná þremur þingmönnum.
Helsti munurinn er sá að miðjumoðsflokkunum, sem mælast með átta til tíu prósent fylgi, fækkar úr fjórum í þrjá. Framsókn er mætt á þær slóðir í stað Samfylkingar og þar eru áfram á fleti Viðreisn og Píratar. Flokkur fólksins fellur hins vegar niður úr þeim fylgisramma og er nú mun nær því að falla af þingi en að hífa fylgið sitt upp í tveggja stafa tölu.
Könnunin var gerð daganna 30. apríl til 23. maí 2024 og svarendur voru 3.349 talsins.
VG er víti til varnaðar