Benedikt G. Ófeigsson, jarðeðlisfræðingur og fagstjóri aflögunarmælinga hjá Veðurstofu Íslands, segir hraunflæðið úr gossprungunni, sem opnaðist laust fyrir hádegi í dag, mjög mikið.
„Það er gríðarlega mikið flæði í gangi og líklega meira en við höfum séð áður. Sem skýrir mögulega þetta ofboðslega hraða hraunflæði sem hefur farið hratt yfir veginn á tveim stöðum,“ skýrir hann.
Benedikt segir að hraunflaumurinn ógni nokkrum mannvirkjum til viðbótar. „Megin hraunflaumurinn er sunnan við núna, sem sagt við Þorbjörn og vestan við Grindavík nærri NATO möstrunum,“ segir Benedikt og þar við fjarskiptamöstur í eigu bandaríska sjóhersins.
Þá nefnir Benedikt einnig að hraunið gæti flætt yfir Njarðvíkuræðina. Nýverið tilkynntu HS Veitur íbúum á Suðurnesjum að draga ekki úr notkun heita vatnsins, heldur þvert á móti var þeim ráðlagt að auka hana.
Benedikt segist ekki hafa skýra tímalínu á því hvenær hraun gæti flætt inn á Svartsengi. Flæðið sé enn sem komið er mikið og óljóst er hversu lengi það muni viðhalda sér.
„Það er svona kannski aðal áhyggjuefnið, ef þetta viðheldur sér lengi svona, þá fer að verða lítið eftir af varnarmannvirkjunum. En eins og er þá eru þau bara að halda. Ef við bara horfum á hvernig þetta hefur hagað sér síðustu skipti, þá dregur mjög hratt úr kvikuflæðinu eftir fyrstu klukkutímana,“ segir Benedikt sem tekur þó fram að of snemmt sé að segja til um þróun flæðisins á þessari stundu.
Það eru sem sagt engar vísbendingar um að það sé farið að draga úr hraunflæðinu?
„Það eru vísbendingar um það sé hætt að aukast. Sem sagt kvikugangurinn er ekki lengur að víkka. Virðist að verða stöðugur, það er ekki alveg orðið. En það hefur dregið verulega úr öllum aflögunarmælingum í kringum ganginn. Það eru svona fyrstu vísbendingar um að flæðið sé komið í jafnvægi og svo á eftir að koma í ljós hvort það dregur úr flæðinu eða hvort það viðheldur sér í einhvern tíma, við sjáum það ekkert fyrir.“
Athugasemdir (2)