Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, leikkona og forsetaframbjóðandi, segir Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði sem sækist líka eftir því að verða næsti forseti Íslands, hafi sagt sér í marslok frá „yfirgangi samstarfsfólks KJ sem hann deilir nú með okkur öllum. Baldur var forviða og skekinn.“ Þetta kemur fram í færslu sem hún birti á Facebook í morgun.
KJ er skammstöfun Katrínar Jakobsdóttur, fyrrverandi forsætisráðherra og þess frambjóðanda í forsetakosningunum sem mælist nú með mest fylgi í kosningaspá Heimildarinnar.
Með færslunni er Steinunn Ólína að bregðast við orðum Baldurs í forsetakappræðum Heimildarinnar, sem fóru fram fyrir fullu húsi í Tjarnarbíói í gærkvöldi. Þar sagði Baldur að á þeim tíma sem hann var við það að bjóða sig fram til forseta hafi hann orðið fyrir þrýstingi að draga sig í hlé vegna mögulegs framboðs Katrínar, sem þá var enn forsætisráðherra og hafði ekki tilkynnt um forsetaframboð. „Nokkrum dögum áður en ég tilkynnti framboð [...] þá voru nokkuð skýr skilaboð úr herbúðum fyrrverandi forsætisráðherra hvort ég ætlaði virkilega að fara fram. Hvort ég vildi ekki láta þar við sitja því hún væri jafnvel að fara að bjóða sig fram.
Og ef ég ætlaði virkilega að vera svo vitlaus að bjóða mig fram núna – þarna fyrir páskana – þá hlyti ég að hafa vit á því að draga framboðið til baka því hún kæmi fram eftir páska,“ sagði Baldur.
Katrín brást við og sagðist gjarnan vilja fá að vita hvaða samstarfsfólk hennar hafi átt að hafa haldið þessum boðskap að Baldri. „Ég er að heyra þetta í fyrsta sinn hér.“ Baldur vildi hins vegar ekki svara hverjir hefðu rætt við hann úr herbúðum Katrínar.
Katrín tók þá fram að ekkert slíkt hefði verið gert með hennar vitund eða vilja. „Ég hef ekki reynt að beita mér gegn neinum frambjóðendum hér.“
Baldur tilkynnti um forsetaframboð sitt 20. mars en Katrín gerði slíkt hið sama 5. apríl.
Í færslu Steinunnar Ólínu segir hún að hún hafi átti samtal við Baldur í síma í marslok, nokkrum dögum áður en hún ákvað sjálf að gefa kost á sér. „Baldur var þá nokkru áður farinn af stað í kosningabaráttu með glæsibrag. Þá hafði verið um nokkurt skeið í hámæli sá orðrómur að KJ ætlaði sér að að rölta yfir í forsetaembættið. Ég hafði einnig fengið veður af því að það ætti að reyna að sverta mannorð Baldurs sökum kynhneigðar hans! Það kom á daginn! Ég hafði einnig vissu fyrir því að planið væri að BB færi í forsætisráðherrastólinn til að keyra í gegn þau þjófræðisfrumvörp sem biðu í launsátri þjóðinni til handa. Það kom á daginn! Baldur sagði mér þá af yfirgangi samstarfsfólks KJ sem hann nú deilir með okkur öllum. Baldur var forviða og skekinn.“
Hún segir að yfirgangi íslenskrar sjálftökustéttar og erindrekum hennar séu nefnilega engin takmörk sett. „Takk fyrir að segja frá þessu opinberlega Baldur. Þjóðin heimtar sannleikann upp á borðið, ekki af öfundsýki eða hefnigirnd, heldur til þess að við getum einhverntímann sameinast um að uppræta þann ófögnuð sem Íslendingar búa við af þeim, okkar eigin löndum, sem eiga og ráða í okkar landi.“
Ég sé enga ástæðu til að trúa þessu ekki. Hins vegar getur vel verið að þetta hafi gerst án vitundar Katrínar.
Hjá mafíunni verða engar fyrirskipanir raktar til Guðföðursins.