Íkvöld, þriðjudaginn 28. maí, mun Heimildin standa fyrir kappræðum milli þeirra sex forsetaframbjóðenda sem mælast með meira en tveggja prósenta fylgi samkvæmt kosningaspá miðilsins.
Kappræðurnar fara fram í Tjarnarbíói og verða þær einu sem fram fara í aðdraganda komandi kosninga þar sem áhorfendur verða í sal. Áskrifendum Heimildarinnar var boðið að koma og vera viðstaddir án greiðslu en aðrir þurftu að greiða hóflegt gjald fyrir aðgang. Það seldist nær samstundis upp á kappræðurnar og því verður húsfyllir.
Kappræðunum verður stýrt af Aðalsteini Kjartanssyni og Margréti Marteinsdóttur. Húsið verður opnað klukkan 18 og skömmu síðar hefjast lifandi umræður, undir stjórn Ragnhildar Þrastardóttur, á sviði með sérfræðingum þar sem fjallað verður um ýmsa anga forsetakosninganna.
Kappræðurnar sjálfar hefjast svo klukkan 20. Gert er ráð fyrir að þær standi til 21.30. Þeim verður streymt beint á vef Heimildarinnar.
Þeir frambjóðendur sem hafa staðfest komu sína eru Arnar Þór Jónsson, Baldur Þórhallsson, Halla Hrund Logadóttir, Halla Tómasdóttir, Jón Gnarr og Katrín Jakobsdóttir. Samkvæmt nýjustu kosningaspá mælist fylgi þeirra á bilinu 6,3 til 24,3 prósent en aðrir frambjóðendur mælast samanlagt með um fjögurra prósent fylgi.
Hér má fylgjast með kappræðunum:
Maður vill fá að heyra í öllum frambjoðendum, sérstaklega þeim sem fá litla sem enga umfjöllun…
Að vera efstur í skoðanakönnunum á ekki að gefa frambjóðanda forréttindi umfram aðra frambjóðendur.