Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp sem færir jarðefnaauðlindir í þjóðlendum frá landsmönnum. Þetta frumvarp kemur í kjölfar lagabreytinga sem færðu tekjur af orkuauðlindum frá þjóðlendunum sjálfum.
Þjóðlendur
Stórt skref var stigið fyrir síðustu aldamót þegar lög voru sett um það hvernig ákvarða skyldi mörk milli einkalanda og lands í eigu þjóðarinnar. Deilt hafði verið um eignarétt að hinum víðfeðmu afréttum og almenningum innan og utan miðhálendisins í 100 ár en tilefnið var líka sagt vera fyrirsjáanleg ásókn ferðamennsku og sókn í sjálfar náttúruauðlindirnar; vatnið og jarðefnin; fallorkuna og jarðhitann.
Þjóðlendulögin tóku gildi 1998 eftir 14 ára undirbúning og voru málamiðlun ólíkra sjónarmiða um eignaréttalega stöðu. Óbyggðanefnd var komið á fót og skyldi skera úr um réttmæti krafna fjármálaráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins. Mörg málanna rötuðu fyrir dómstóla en nú hafa 40% landsins verið úrskurðuð þjóðlenda.
Sérstakt eignarform
Til þess að leggja áherslu á sérstöðu þeirra landsvæða sem úrskurðað yrði að væru utan eignarlanda, var þjóðlendum með lögunum mörkuð tvenns konar sérstaða með eignarformi.
Í fyrsta lagi yrði það ekki fjármálaráðherra sem færi með umsýslu þeirra líkt og annarra eigna ríkisins, heldur yrði það forsætisráðherra. Í annan stað yrði nýting náttúruauðlinda í þjóðlendu ekki aðeins háð leyfi forsætisráðherra heldur rynni gjald fyrir auðlindanýtingu hvorki í ríkissjóð né einstaka sveitarsjóð. Skyldi gjaldi fyrir afnot auðlinda varið til viðgangs þjóðlendanna sjálfra. Urðu þjóðlendur nokkurs konar sjálfseignarstofnun með þessu sérstaka eignarformi.
Tekjur af auðlindum og skýrslugjöf
Forsætisráðherra skyldi gefa Alþingi árlega skýrslu um innheimtu og ráðstöfun gjalds fyrir auðlindir og ríkisendurskoðandi átti að endurskoða reikningana. Skýrslur voru lagðar fram af forsætisráðherrum framan af þar sem lítið að frétta af tekjum og ráðstöfun. Þó samdi forsætisráðherra 2012 við Landsvirkjun um 900 milljóna króna eingreiðslu á verðlagi þess tíma, vegna nýtingar vatnsorku í þjóðlendu fyrir Kárahnjúkavirkjun, sem þá hafði starfað í allmörg ár. Ekkert hefur frést af ráðstöfun þess fjár.
Viðsnúningur 2020
Eignaform þjóðlenda breyttist síðan í grundvallaratriðum árið 2020 þegar Alþingi samþykkti breytingarfrumvarp forsætisráðherra. Eftir lagabreytinguna skyldu tekjur af auðlindanýtingu ekki lengur renna til þjóðlendanna sjálfra, heldur í ríkissjóð. Frumkvæði þessa kom úr fjármálaráðuneytinu. Fræðimaður reyndi án árangurs að benda þingnefnd á þann viðsnúning eignarforms þjóðlenda sem af þessu leiddi. Átakapunktarnir lutu sem fyrr að ákvörðun um mörk landsvæðanna, á meðan áherslan á innheimtu og ráðstöfun sjálfrar auðlindarentunnar var engin.
Með sömu breytingarlögum var leyfi til nýtingar jarðefna í þjóðlendu fært frá forsætisráðherra til sveitarstjórna, sem hefðu þá tekjur af þeirri auðlindanýtingu þó þeim bæri eftir sem áður að verja þeim til þjóðlendanna og þær nýttust þá landsmönnum öllum, m.a. ferðaþjónustu.
Auðlindasamningar ríkisins 2021
Árið eftir samdi forsætisráðherra við Landsvirkjun um eingreiðslu fyrir nýtingu vatnsafls í Þjórsá fram til þess tíma, auk árlegra greiðslna í framtíðinni. Eingreiðslan var um hálfur annar milljarður króna og árgjaldið er um 100 milljónir. Aðrir aðilar sem nýta land undir raforkumannvirki í þjóðlendum hafa ekki greitt auðlindagjald og enginn greiðir fyrir jarðvarmanýtingu þar.
Jarðefnasala sveitarfélaga
Eftir lagabreytinguna 2020 hafa tvö sveitarfélög haft árlegar tekjur af því að selja jarðefni úr þjóðlendum, sem samtals voru á annað hundrað milljóna króna á árinu 2023. Ganga þær tekjur í raun að miklu leyti til þess að greiða laun starfsfólks sveitarfélaganna og sérfræðiaðstoð.
Verklok Óbyggðanefndar og óafgreitt frumvarp
Óbyggðanefnd er að ljúka hlutverki sínu. Af því tilefni liggur enn á ný fyrir Alþingi frumvarp til breytinga á þjóðlendulögum. Verði það frumvarp óbreytt að lögum, mun sérstaða auðlindanýtingar þjóðlenda hinsvegar hverfa, þó það sé alls ekki auðsætt af lestri frumvarpsins.
Yrði frumvarpið óbreytt að lögum, fengju sveitarfélög frjálsar hendur um að láta allar tekjur sem þau hafa af þjóðlendum renna rakleiðis í sveitarsjóð. Þær ætti með öðrum orðum ekki lengur að nota til viðgangs þjóðlenda. Með því hyrfi endanlega sú sérstaða þjóðlenda sem lagt var upp með þegar þjóðlendulögin voru sett, þó enn væri það forsætisráðherra sem veitti leyfi til nýtingar náttúruauðlinda, annarra en jarðefna.
Þjóðlendur til framtíðar
Í þeim kafla stjórnarskrárinnar sem fjallar um Alþingi segir í 40. gr.: „Ekki má […] selja eða með öðru móti láta af hendi neina af fasteignum landsins né afnotarétt þeirra nema samkvæmt lagaheimild.”
Vilji löggjafinn taka þá U-beygju með auðlindirnar í þjóðlendum sem hér var lýst, væri æskilegt að samfélagsleg umræða færi fram. Um leið væri hægt að huga að því hvar væri best að koma umsýslu þjóðlendanna fyrir til framtíðar. Bent hefur verið á að henni sé e.t.v. ekki best fyrir komið í forsætisráðuneytinu, nú þegar hlutverki Óbyggðanefndar lýkur.
Athugasemdir (1)