Líkurnar á því að Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, sigri í komandi forsetakosningum, sem fram fara eftir átta daga, eru nú 45 prósent. Þær voru 36 prósent fyrir fimm dögum síðan.
Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri á nú 18 prósent líkur á sigri en mældist með 32 prósent möguleika á að verða næsti forseti fyrir fimm dögum síðan. Líkur Baldurs Þórhallssonar, prófessors í stjórnmálafræði, og Höllu Tómasdóttur, forstjóra B Team, á sigri eru svipaðar og Baldurs sem stendur, eða 17 og 16 prósent. Líkur þeirra beggja hafa aukist lítillega á síðustu dögum.
Líkurnar á því að Jón Gnarr, leikari og fyrrverandi borgarstjóri Reykjavíkur, verði næsti forseti hafa helmingast á nokkrum dögum og eru nú fimm prósent. Arnar Þór Jónsson, varaþingmaður og fyrrverandi dómari, á eins prósents líkur á því að sigra í kosningunum og hinir sex frambjóðendurnir minna en það.
Þetta er niðurstaða útreikninga Dr. Baldurs Héðinssonar á líkum hvers frambjóðanda á sigri. Hana fær Baldur út með því að miða við stöðu mála í kosningaspá sem hann vinnur í samstarfi við Heimildina og hversu mikið frávik hefur verið í fyrri skoðanakönnunum tveimur vikum fyrir kosningar. Í kjölfarið keyrði hann 100 þúsund sýndarkosningar til að reikna út hversu líklegt er að hver og einn frambjóðandi sigri. Þegar bæri dregur kosningum minnkar frávikið sem fer inn í sýndarkosningarnar sem mun leiða til þess að þeir frambjóðendur sem eru að mælast með mest fylgi fá hærri líkur á sigri en aðrir minni.
Fjögur í séns
Nýjasta kosningaspáin var birt í morgun. Þar kom fram að alls ætla 24,2 prósent kjósenda að kjósa Katrínu Jakobsdóttur sem næsta forseta Íslands eftir átta daga. Það er mesta fylgi sem hún hefur mælst með í tvær vikur en þó ekki mikil breyting frá þeirri stöðu sem hún hefur verið í meira og minna allan maímánuð. Þá hefur fylgi hennar verið í kringum 24 prósent.
Halla Hrund er komin niður í 18,5 prósent fylgi sem er í fyrsta sinn sem hún fer niður fyrir 20 prósent í kosningaspánni síðan 23. apríl. Alls hefur Halla Hrund tapað um 40 prósent af fylgi sínu. Baldur mælist nánast með sama fylgi og hún, eða 18,4 prósent, og hefur verið afar stöðugur síðustu vikur.
Halla Tómasdóttir er svo sá frambjóðandi sem er í mesti sókn en fylgi hennar er komið upp í 17,2 prósent eftir að hafa mælst rúmlega níu prósent fyrir tíu dögum síðan og um fjögur prósent í byrjun mánaðar. Jón Gnarr hefur aðeins hellst úr lestinni síðastliðnar vikur og er nú með fimmta mesta fylgið, eða 12,4 prósent, og Arnar Þór mælist með 5,7 prósent. Hinir sex frambjóðendurnir mælast svo með 3,6 prósent stuðning.
Hvað er kosningaspáin?
Kosningaspá Heimildarinnar er unnin í samstarfi við dr. Baldur Héðinsson. Hann hefur keyrt kosningaspálíkan sem hann smíðaði fyrir fyrirrennara Heimildarinnar í öllum kosningum sem fram hafa farið á Íslandi síðastliðinn áratug, og mun gera það í aðdraganda forsetakosninganna einnig.
Líkanið miðar að því að setja upplýsingar sem skoðanakannanir veita í samhengi. Fyrirliggjandi skoðanakannanir eru teknar saman og þeim gefið vægi til þess að spá fyrir um úrslit kosninga. Niðurstöður spálíkansins eru svo birtar reglulega í Heimildinni, jafnt á prenti og vef, í aðdraganda kosninga.
Athugasemdir (3)