Þú gerir þetta svona:
Þú finnur þér verðmæta auðlind í fátæku landi. Þú kemur þér í tengsl við þarlenda menn nátengda yfirvöldum. Tengdasyni, fyrrverandi ráðherra – því tengdari, þeim mun betra. Köllum þá ráðgjafa. Þú lofar að koma með peningana þína og tækin þín til að byggja upp atvinnurekstur í tengslum við auðlindina, gegn því að þú fáir að nýta hana, helst ókeypis. Allir eiga að græða: Þú, ráðgjafarnir og almenningur sem býr að nýjum störfum og skattgreiðslum af hagnaðinum.
Þú greiðir ráðgjöfunum inn á reikninga í Dúbaí, þaðan eru gefin út kreditkort sem nota má um allan heim. Þú kaupir ráðgjafarþjónustu fyrir milljarð. Og þú nýtir auðlindina, nýtir og nýtir. En þú skapar engin störf, byggir ekki upp atvinnurekstur, margir munu raunar missa vinnuna, þeir munu þjást, fjölskyldur munu sundrast og þú greiðir enga skatta því það er tap af rekstrinum. Bullandi tap. Þú býrð til tapið með því að leigja og lána sjálfum þér allan reksturinn í gegnum skúffufyrirtæki í skattaparadís. Því meira sem þú tapar, þeim mun meira græðir þú. Og þig langar í meira.
Þú kaupir meiri ráðgjöf og lög breytast, gerður er tvíhliða samningur við fátækt nágrannaríki um nýtingu auðlinda. Og þú nýtir og þú tapar og þú græðir og þú græðir og þegar öllum skjölum um reksturinn er lekið í fjölmiðla – þegar mýsnar naga gat í bókhaldið þitt – þá ertu furðurólegur, því þú hefur keypt svo margt í gegnum tíðina, þú hefur keypt fjölmiðil og stjórnmálamenn og heilu stjórnmálaflokkana, kannski keyptirðu einhvern tíma sjálfan vindinn, kannski gerðirðu norðanáttina að ráðgjafa þínum, þú bara manst það ekki en þegar einhver spyr segirðu eins og Mikki refur: Það var ekki ég sem ætlaði að éta músina heldur músin sem ætlaði að éta mig – og þú veist að við, þjóð þín, við erum tilbúin að trúa því, kæri refur, og þegar lögreglan bankar upp á segjum við bara gangi henni vel að rekja slóð þína því þú átt ekki heima á Íslandi, nei, þú átt heima í peningalandi, peningalandinu góða.
Athugasemdir (2)