Við Íslendingar höfum skapað samfélag þar sem mannréttindi eru í hávegum höfð. Þar sem kappkostað er að hver og einn fái að njóta sín á eigin forsendum. Í stjórnarskránni okkar er þetta orðað svona: „Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.“
Mannréttindi nást sjaldnast baráttulaust og sem dæmi má nefna að í raun er ótrúlega stutt síðan konur voru settar skör lægra í samfélaginu en karlar og enn styttra síðan loks fór að nást árangur í baráttu hinsegin fólks fyrir réttindum sem flestum þykja nú eðlileg.
Baldur Þórhallsson barðist fyrir eigin réttindum og annarra þegar hann stofnaði Félag samkynhneigðra stúdenta, sem nú heitir Q félag hinsegin stúdenta. Árið 1998, heilum 20 árum eftir stofnun Samtakanna 78, var enn ekki auðvelt að stíga fram fyrir skjöldu og taka þann slag. Það gerði hinn rökfasti Baldur svo eftir var tekið. Hann lét ekki gamlar upphrópanir á sig fá heldur lagði fram staðreyndir og barðist fyrir því sem hann vissi réttast og sannast.
Barátta fyrir réttindum eins minnihlutahóps gagnast öllu samfélaginu. Við viljum öll búa í samfélagi þar sem við tökum höndum saman „án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.“
Baldur Þórhallsson hefur reynslu af að byggja upp betra samfélag. Þess vegna kýs ég hann sem forseta.
Athugasemdir (2)