Hvort sem glasið er hálffullt eða hálftómt er árið senn hálfnað. Tíminn fjarar út og í flæðarmálinu liggur eftir óhreyfður ásetningur, áætlanir sem ekki hafa komist í framkvæmd. En ekki örvænta. Eftirfarandi eru fimm ráð til að rífa sig upp á rassinum.
1„Hverja mínútu, hverja stund, hvern dag búum við heiminn til, rétt eins og við búum okkur sjálf til, og við getum alveg eins gert það af örlæti, gæsku og reisn.“ – Rebecca Solnit rithöfundur
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, varð 36 ára á dögunum. Af því tilefni afhentu Ungir jafnaðarmenn Kristrúnu útskriftarskírteini en félagsaðild er aðeins opin þeim sem eru 35 og yngri.
Fyrir 150 árum voru lífslíkur fjörutíu ár, rúmur ungliðaferill. Nú eru þær áttatíu. „Það er eins og við hafi bæst heil aukaævi,“ segir sameindalíffræðingurinn og Nóbelsverðlaunahafinn Venkatraman Ramakrishnan, sem gaf nýverið út bókina Hvers vegna deyjum við? – Hin nýju öldrunarvísindi og leitin að eilífu lífi.
2„Ég þarf ekki tíma heldur skilafrest.“ – Duke Ellington, djasspíanisti og tónskáld
Ég uppgötvaði nýverið færslu um sjálfa mig á alfræðiritinu Wikipedia. Fyrstu viðbrögð mín voru þakklæti í garð ónafngreinds sjálfboðaliða sem hafði af ósérhlífni fangað tilkomulitla tilvist mína í átta efnisgreinum með heimildaskrá. En skyndilega runnu á mig tvær grímur. Svo hljóðaði samantekt um líf mitt: Starf/staða: Rithöfundur, pistlahöfundur. Virk: 2006-
Tómið eftir bandstrikið vakti með mér skelfingu. Klukkan tifaði. Það var svo margt sem ég átti eftir ógert.
„Við erum sennilega eina dýrategundin sem er meðvituð um eigin dauðleika,“ segir Ramakrishnan. Hann segir vitneskjuna um endanleikann helstu driffjöður mannkyns. En þrátt fyrir að hafa á 150 árum grætt heila ævi viljum við meira.
3„Dauðinn er dökka undirlagið sem spegill þarf að hafa til að maður sjái eitthvað í honum.“ – Saul Bellow rithöfundur
Á síðustu tíu árum voru birtar 300.000 fræðigreinar um langlífi. Sjö hundruð ný sprotafyrirtæki vörðu tugum milljarða dollara í baráttuna gegn elli.
Ramakrishnan segir leitina að ódauðleikanum aðeins hillingu. „Ef við lifðum til 150 ára aldurs færum við að ergja okkur yfir að lifa ekki til 200 eða 300 ára aldurs.“ Hann telur frekara langlífi aðeins munu leiða af sér stöðnun samfélagsins þar sem hinir eldri ríghaldi í auðinn og áhrif.
„Á meðan við bíðum eftir að öldrunarfræðin leysi vandann sem er dauðinn ættum við að njóta lífsins í allri sinni fegurð,“ segir Ramakrishnan. „Aðeins þannig er okkur fært að hverfa inn í sólarlagið með reisn þegar tími okkar er uppurinn, meðvituð um það lán að hafa verið boðið til veislunnar.“
4„Við munum öll deyja og það er mesta lán okkar.“ – Richard Dawkins líffræðingur
Ramakrishnan er ekki eini líffræðingurinn sem telur lánið sem lífið er trompa tragedíuna í dauðanum.
„Flest fólk mun aldrei deyja því það mun aldrei fæðast,“ segir í bókinni Að rekja upp regnbogann, eftir Richard Dawkins. „Fjöldi þeirra einstaklinga sem hefðu getað verið hér í stað mín en mun aldrei verða til er meiri en fjöldi sandkorna á Arabíuskaga ... Mögulegar samsetningar á DNA okkar eru miklu fleiri en fólkið sem mun nokkurn tímann verða til.“
5„Breyting í veðrinu er nóg til að skapa heiminn og okkur upp á nýtt.“ – Marcel Proust rithöfundur
Í ljóðinu „Dagblaðið“ frá árinu 1785 líkir enska skáldið George Crabbe fréttum við örstutta ævi dægurflugunnar sem lifir aðeins einn dag.
Þessi pistill er fluga.
Mannanna verk eru skammvinn. Við fæðumst, lifum, fölnum og þegar við erum aftur að jörðu orðin finnast lítil önnur ummerki um jarðvist okkar en silfurtannfyllingar í grafreit í úthverfakirkjugarði.
Dægurflugan lifir stutt. Augnablikið sem henni er gefið einkennist hins vegar af ákafa; hún ver bróðurparti ævi sinnar dansandi.
Athugasemdir