Við erum heppin að eiga jafn marga efnilega frambjóðendur til forseta eins og raun ber vitni. Embætti sem krefst þess að kjörinn forseti fórni einkalífi og setji hag þjóðarinnar framar sínum. Að vera fulltrúi heillar þjóðar er ekki létt verk en við höfum verið svo lánsöm að forsetar lýðveldisins hafa verið vel valdir og þjónað þjóðinni með sínum áherslum á réttum tíma. Nú horfum við til framtíðar og spyrjum hvaða forsetaefni kunni að henta þjóðinni best á næstu árum. Og það eru margir góðir kostir í stöðunni.
Það kom til mín ungur Íslendingur og spurði mig hvað forsetinn gerði. Ég reyndi að lýsa því þannig að forsetinn hefði ekki mikið vald en væri nokkurs konar sálfræðingur fyrir þjóðina sem hjálpaði okkur í gegnum erfiða tíma og fagnaði með okkur þegar vel gengur. Forsetinn er okkar helsti erindreki á erlendri grundu og talar máli lands og þjóðar við aðrar þjóðir. Þar kynnir forseti menningu okkar, tungumál, tækifæri og margt það sem okkur kann að gagnast. Auk þess hlustar hann á það sem aðrir hafa að segja bæði innanlands og utanlands og nýtir þær upplýsingar til að gera enn betur. Á þann hátt hefur hann jákvæð áhrif á Ísland og Íslendinga. Við þessi orð var gripið frammi í fyrir mér og spurt „er hann svona áhrifavaldur?“ Ég þagnaði og varð hugsi í örlitla stund en svaraði svo „já, hann er einhvers konar áhrifavaldur, en að auki er hann með neyðarhemil sem hann getur notað til að stoppa eitthvað sem gæti ógnað þjóðinni.“ Þá stóð ekki á svari „er hann svona aftursætisbílstjóri með höndina á handbremsunni?“ Ég svaraði játandi. Ég var kominn með mynd af einstaklingi í aftursæti bíls að setja inn færslur á samfélagsmiða ásamt því að vera með spotta í handbremsuna. Svona geta hugmyndir okkar um hlutverk forseta farið á flug.
Við erum rík þjóð. Við eigum ógrynni auðlindum sem við eigum að nýta í hag okkar allra. Meðal auðlinda okkar er sköpunarkrafturinn. Hæfileikinn til nýsköpunar og að búa til verðmæti úr hugmyndunum einum. Margar þjóðir öfunda okkur af auðlindum okkar og hafa þurft að reiða sig á hugvitið eitt. Það hefur margoft sannast að verðmætasta auðlind þjóða er einstaklingur með hugmynd. Þess vegna legg ég áherslu á að næsti forseti hafi þekkingu og hæfileika til að virkja allar auðlindir okkar. Þess vegna kýs ég Höllu Hrund, minn áhrifavald fyrir framtíðina.
Athugasemdir