Viktor Traustason sagði í seinasta þætti Pressu taka lítið mark á skoðanakönnunum sem benda til þess að hann eigi langt í land við að ná kjöri sem næsti forseti Íslands. Samkvæmt skoðanakönnunum mælast Viktor, Ásdís Rán Gunnarsdóttir, Ástþór Magnússon og Eiríkur Ingi Jóhannsson samanlagt með innan við þrjú prósent fylgi.
Spurður hvort hann trúi því einlæglega að honum takist að brúa bilið sem mælist í könnunum og ná kjöri sem næsti forseti lýðveldisins segist Viktor ekki munu leggja sig fram við brúa neitt bil, það sé í höndum kjósenda.
„Í fyrsta lagi þá ég ætla ekkert að reyna að brúa neitt bil. Möguleikinn er til staðar ef fólk vill hann,“ sagði Viktor og bætti að landsmenn ættu eftir að kynnast honum og stefnumálum hans betur.
„Ég held það hafi ekki verið nein skoðanakönnun framkvæmd frá því eftir að ég tók þátt í kappræðum. Svartímabilið byrjar áður en langflestir landsmenn vissu hver ég væri eða hvaða stefnumál ég er að berjast fyrir. Það á eftir að koma í ljós hvernig þetta lítur út í öðrum skoðanakönnunum.“
Hafið þið heyrt um bangsana?
Í svari sínu varpaði Viktor fram áhugaverðri samlíkingu til þess að sýna fram á það hversu misvísandi skoðanakönnunum hættir til að vera.
„Svo er ég að velta fyrir mér hvort þið séuð búin að heyra um bangsana. Ef konur eru spurðar í skoðanakönnunum „þú ert ein úti í skógi. Hinum megin við runnann - hvort viltu að það sé björn eða ókunnugur maður. Yfir 90% kvenna segja „að sjálfsögðu björn.““
Umræðan sem Viktor vitnar hér hefur undanfarið verið háð samfélagsmiðlunum X og TikTok og hefur vakið mikla athygli. Sérstaklega fyrir þær sakir að flestar konur virðast kjósa að rekast á björn á förnum vegi í stað ókunnugra karlmanna.
Hefur netfyrirbærið í kjölfarið hrundið af stað umræðu um kynbundið ofbeldi. Viktor telur hins vegar þessa óformlegu skoðanakönnun vera misvísandi.
„Ég hugsa að þetta segi okkur ekkert um karlmenn, segir okkur mjög lítið um kvenmenn og segir okkur dálítið mikið um það hve mikið mark við eigum að taka á skoðanakönnunum.“
Ungir sem aldnir stoppað Viktor út á götu
Svo virðist sem að Viktor hafi verið að einhverju leyti sannspár. Samkvæmt könnun sem Prósent vann fyrir Morgunblaðið, þar sem gögnum var safnað milli 7. til 12. maí, hefur Viktor aukið fylgið sitt og mælist 1,5 prósent fylgi.
Framboð Viktors var upphaflega úrskurðað ógilt af Landskjörstjórn vegna ágalla á meðmælendalistanum sem Viktor skilaði inn. Ákvörðuninni var áfrýjað og kjölfarið voru meðmælin könnuð á ný og Viktori gefinn frestur til þess að gera lagfæringar á meðmælasöfnunni. Eftir þá yfirferð úrskurðaði landskjörstjórn framboðið gilt.
Rétt áður en að Viktor mætti í viðtalsþátt Pressu var hann umkringdur menntaskólanemum að dimmitera.
þegar þú varst að koma hérna þá varstu umkringdur, mér sýndist þetta vera álfar eða voru þetta bananar?
„Ég sá banana en þeir gátu talað.“
Er verið að stoppa þig úti á götu?
„Já svona síðastliðna viku, en ungir og aldnir,“ segir Viktor sem hefur vakið athygli og hrifningu meðal margra með hreinskiptnum og hnitmiðuðum tilsvörum í viðtölum og kappræðum.
Athugasemdir (1)