Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri nýtur mest fylgis til embættis forseta Íslands eða 27,8% í nýjustu kosningaspá Heimildarinnar og dr. Baldurs Héðinssonar. Fylgi hennar hefur minnkað um 3 prósent frá síðustu spá sem birt var sl. fimmtudag. Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, er með næstmest fylgi, 24,4 prósent, en hafði 25,1% í síðustu spá.
Baldur Þórhallsson stjórnmálafræðiprófessor fylgir þar á eftir með 19,5% en var með 20,2 prósent á fimmtudag. Jón Gnarr, fyrrverandi borgarstjóri og leikari, er samkvæmt spánni með 11,8 prósenta fylgi og hefur því bætt lítillega við sig frá síðustu spá, sá eini af þeim fjórum frambjóðendum sem leitt hafa í spánni síðustu daga.
Töluverða breytingu má sjá á fylgi Höllu Tómasdóttur athafnakonu sem bætir við sig 2,3 prósentum frá síðustu spá, er nú með 7,1% en var með 4,9% í spánni sem birt var á fimmtudag. Arnar Þór Jónsson lögfræðingur bætir við sig heilu prósenti, fer úr 3,9 prósentum í 4,9.
Í dag eru þrjár vikur til kosninga til forseta Íslands.
Hvað er kosningaspáin?
Kosningaspá Heimildarinnar er unnin í samstarfi við dr. Baldur Héðinsson. Hann hefur keyrt kosningaspálíkan sem hann smíðaði fyrir fyrirrennara Heimildarinnar í öllum kosningum sem fram hafa farið á Íslandi síðastliðinn áratug, og mun gera það í aðdraganda forsetakosninganna einnig.
Líkanið miðar að því að setja upplýsingar sem skoðanakannanir veita í samhengi. Fyrirliggjandi skoðanakannanir eru teknar saman og þeim gefið vægi til þess að spá fyrir um úrslit kosninga. Niðurstöður spálíkansins eru svo birtar reglulega í Heimildinni, jafnt á prenti og vef, í aðdraganda kosninga.
Athugasemdir