Íslenskir forsetar hafa um árabil lagt áherslu á íslenska „úrvalshyggju“ ( e. exceptionalism), sem felur í sér að Íslendingar séu einstakir. Þetta er þekkt í öðrum ríkjum. Ólafur Ragnar Grímsson taldi okkur hafa „útrásareðli“ og vísaði til víkingatímans, frekar en langdvala „okkar“ í moldarkofum. Það sem fær Íslendinga til að skara fram úr er hins vegar ekki fegurð, vöðvamassi eða ævafornar innrásir, gripdeildir og árásir á almenna borgara. Sérstaða okkar er friðurinn, herleysið, jafnrétti og mannréttindi. Þessari sérstöðu hafa íslenskir stjórnmálamenn almennt sóað og mistúlkað sem veikleika.
Inn kemur Ástþór
Í sex skipti á 28 árum hefur Ástþór Magnússon reynt að bjóða sig fram til forseta til að berjast fyrir því að Ísland verði leiðandi í baráttu fyrir friði í heiminum. Þrátt fyrir að hafa mest fengið 2,7% atkvæða er Ástþór búinn þeim gæðum umfram alla aðra frambjóðendur að hafa rétt fyrir sér um meginstefnuna: Ísland er í einstakri stöðu til að tala máli mannréttinda og friðar í heiminum. Og tilefnið til þess tengist ekki bara hugsjónum.
Þetta snýst ekki eingöngu um að Ísland hafi þá sérstöðu og að einhverju leyti, siðferðislegu yfirburðastöðu, að halda ekki úti her. Þetta snýst um okkar eigin hagsmuni sem smáríkis í hverfulli veröld.
Röksemdafærslan er þessi:
1. Afl og vald á ekki að ráða í samskiptum ríkja, heldur sameiginlegar reglur sem gæta hagsmuna allra.
2. Leiðin til að framfylgja þessu er að ríki halli sér ekki einfaldlega upp að öðrum valdameiri, heldur leggi áherslu á grundvallarreglur, eða prinsipp, óháð liðaskiptingu.
3. Af því leiðir að skylt er að bregðast við þegar brotið er gegn grundvallarreglum, sama hver er gerandinn.
Vladimir Pútín vill geta ráðist inn í Úkraínu og innlimað hana í stærsta ríki heims. Benjamín Netanjahú vill geta valtað yfir Gaza, bókstaflega, með jarðýtum, fyrir hina „Guðs útvöldu þjóð“ og Xi Jinping vill geta yfirtekið eyjar á Suður-Kínahafi og ráðist inn í Taívan, „í friði“ fyrir öðrum, í þágu „ríkisins í miðjunni“. En hvernig geta þeir réttlætt það?
Máttur fordæmanna
Vegna mistaka og misbrests í lýðræði hjálpuðu Íslendingar Vladimir Pútín að ráðast inn í Úkraínu.
Þó svo að Pútín sé nú því sem næst einráður í Rússlandi þurfti hann að réttlæta innrás sína í Úkraínu. Það gerði hann meðal annars með svokölluðum whataboutisma – að benda á annað verra, sem svo vill til að Íslendingar áttu aðild að.
Í ræðu sinni að morgni innrásarinnar í Úkraínu, sem beint var til landsmanna í Rússlandi og Úkraínu, en líka heimsbyggðarinnar, rakti Pútín nokkrar innrásir og árásir sem Bandaríkin hafa staðið að víða um heim: „En dæmið sem sker sig úr hinum atburðunum er auðvitað innrás í Írak, án nokkurs lagalegs grundvallar,“ sagði Pútín. „Þeir skýldu sér á bak við meintar, áreiðanlegar upplýsingar, aðgengilegar í Bandaríkjunum, um tilvist gjöreyðingavopna í Írak ... Það kom síðar í ljós að þetta var fals og blekking, að Írak bjó ekki yfir neinum efnavopnum. Ótrúlegt og sláandi, en satt. Við urðum vitni að lygunum sem færðar voru fram úr efstu stöðum ríkisins og fullyrtar á háborði Sameinuðu þjóðanna. Afleiðingin var gríðarlegt mannfall, skemmdir, eyðilegging og risavaxin upprisa hryðjuverka,“ sagði Pútín. Hann sagði dæmin sýna að Bandaríkin virtu alþjóðalög að vettugi og það sem meira væri um vert, að „allir fylgihnettir þeirra segja já og apa upp fyrirsláttinn, af auðmýkt og hlýðni, herma eftir hegðuninni og samþykkja reglurnar sem fyrir þá eru lagðar. Þess vegna getur maður sagt með góðum rökum og sjálfsöryggi að hin svokölluðu Vesturlönd, sem Bandaríkin mynduðu, eru í heild sinni, „heimsveldi lyga“.“
Þetta var á þeim tímum sem George W. Bush Bandaríkjaforseti innleiddi nýjungar í tungumálið og alþjóðasamskipti, svo sem „fyrirbyggjandi stríð“, til að verja sig fyrir hryðjuverkum, sem spruttu ekki síst upp úr hatri vegna stríðsreksturs Bandaríkjanna. Ólíkt Rússum ætluðu Bandaríkin sér þó enga landvinninga.
Mistök íslenskra stjórnmálamanna
Fyrir innrásina í Írak skipaði Ísland sér í flokk „viljugra ríkja“, án þess að Alþingi fengi tækifæri til þess að taka afstöðu til þess. Það voru leiðtogar ríkisstjórnarflokkanna tveggja, Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson heitinn, sem tóku ákvörðunina, í tilraun til að halda Bandaríkjunum góðum svo meiri líkur væru á áframhaldandi setu herliðs þeirra á Íslandi, sem gerðist þó ekki.
Pútín er ofbeldismaður og beitir markvisst kúgun og ósannindum til að ná fram markmiðum sínum. Því er ekki hægt að kenna öðrum um framferði hans. En út frá praktískum sjónarmiðum er augljóst að framferði annarra hefur nýst honum sem fordæmi og að fólkið í Kína, Indlandi og annars staðar utan Vesturlanda á erfitt með að trúa á algildar reglur og mannréttindi, en þess auðveldara með að líta á framfylgd þeirra sem hræsni Vesturlanda. Árangursríkur áróður krefst þess að sannleikskornum sé sáð inn í áburð jarðvegsins sem ræktar samþykki.
Í hvert skipti sem við þegjum eða spilum með því sem er rangt, veitum við samþykki og sáum fræjum hræsninnar. Í hvert skipti sem fulltrúi okkar á erlendri grundu spyr hneykslaður: „Sagðir þú árás?“ þegar spurt er út í afstöðu til drápa á almennum borgurum á flótta, sköpum við þeim olnbogarými sem vilja myrða eftir hentisemi. Sama gildir þegar við, vegna orðhengilsháttar, sitjum hjá í atkvæðagreiðslu um hvort hætta eigi mannskæðum árásum eða ekki.
Auðvitað stenst áróðursbragðið og hugsanavillan whataboutismi ekki skoðun, en engu að síður eru það fordæmi og gagnkvæmni sem móta mannlegt atferli og siðferðislegar reglur.
Í fyrra kaus allsherjarráð Sameinuðu þjóðanna um hvort Rússar ættu að láta af hernaði sínum í Úkraínu og yfirgefa landið. Þar teiknaðist upp mynd af klofnum heimi. Fjölmennustu ríki heims, Indland og Kína, sátu hjá, ásamt þrjátíu öðrum ríkjum. Helmingur mannkyns vildi ekki grípa inn í augljósa innrás og innlimun.
Mjúkt vald
Í þættinum HARDtalk á BBC á þriðjudag – sama þætti og Geir Haarde forsætisráðherra sagði frægu setninguna „maybe I should have“ – svaraði utanríkisráðherra Litáens, Gabrielius Landsbergis, hvers vegna Litáen hefði leyft sér að sýna lýðræðisríkinu Taívan meiri viðurkenningu en kínversk stjórnvöld þola, vegna stefnu sinnar um Eitt Kína.
„Svona styðja lýðræðisríki hvert annað,“ svaraði Landsbergis, sonarsonur Vytautas Landsbergis, forseta þings Litáens, við sjálfstæði 1992. „Litáen var stutt á 10. áratugnum af litlu eyjunni Íslandi, þegar það varð fyrsta ríkið til að styðja sjálfstæði okkar. Ísland leið fyrir þetta. Það varð fyrir viðskiptaþvingunum frá Sovétríkjunum á þeim tíma. En samt varð það fyrsta landið til að viðurkenna sjálfstæði Litáens. Þannig að án nokkurs vafa er mikils vert fyrir lýðræðisríki að styðja hvert annað.“
„Svona styðja lýðræðisríki hvert annað“
Þrátt fyrir að vera algert smáríki býr Ísland yfir valdi. Það er, mjúku valdi. Oft er mjúkt vald mælt út frá styrk vörumerkis landa. Á slíkum listum mælist Ísland gjarnan í 20. til 30. sæti í heiminum, þrátt fyrir að vera aðeins 172. fjölmennasta land heims. Hluti af mælingunni byggir á ætluðu framlagi ríkja til sjálfbærni, mannréttinda, menningar og efnahagsmála. Björk er hluti af mjúku valdi.
Á síðustu áratugum höfum við lagt mikla áherslu á orkumál og til dæmis almennt um kvenréttindi, en látið fara lítið fyrir okkur í einstökum málum.
Önnur tímabil höfum við gert út á hlutleysi, upp að einhverju marki. Ísland var nógu hlutlaust til þess að hýsa leiðtogafund Ronalds Reagan Bandaríkjaforseta og Mikhaíls Gorbatsjov, leiðtoga Sovétríkjanna, sem var lykilatburður í því að ljúka kalda stríðinu.
En við höfum sjaldan haft nokkuð fram að færa til alþjóðamála umfram almenn orð og á köflum heimóttarlegan þjóðrembing.
Fatalismi, alarmismi og aktífismi
Það mætti skipta nálgun í utanríkismálum í tvennt: Hagsmunadrifina og gildisbyggða. Litáar vísuðu til gildisbyggðrar nálgunar gagnvart Taívan, hvort sem það var rétt eða aðrir hagsmunir lágu að baki. Við tókum hagsmunabundna afstöðu fyrir Íraksstríðið, í veikri tilraun til að halda í störf hjá Kananum á Vellinum.
Annað skapalón til að greina afstöðu í alþjóðamálum varðar getu okkar sjálfra. Líklega hafa Íslendingar ekki metið sem svo að þeir geti haft áhrif á heimsmálin. Fatalismi, eða uppgjafarhyggja, er sú hugmyndafræðilega stefna. Við reynum að halda okkur til hlés, fylgja straumnum og vona það besta. Þannig fylgum við línu Bandaríkjanna og annarra Vesturlanda, en sættum okkur við allt hitt sem við getum ekki breytt. Alarmismi, eða óttahyggja, snýr að því að ala á ótta við allt það slæma sem getur gerst. Honum er ætlað að hvetja til afgerandi aðgerða, en líklega leiðir hann frekar til lömunar og uppgjafar. Aktífismi, eða aðgerðastefna, snýr að því að grípa til athafna, oftast táknrænna, til þess að vinna að framgangi grundvallaratriða samkvæmt gildismati.
Hatari: Íslensk aðgerðastefna
Það sýndi til dæmis mjúkt vald Íslands þegar þjóðin kaus að senda framlag Hatara í Eurovision-keppnina í Ísrael 2019 og leggja þar fram lágstemmda ádeilu á framferði Ísraelsríkis með einfaldri auðkenningu á tilvist Palestínu, sem uppskar reiði ísraelskra áhorfenda en vakti athygli úti um allan heim. Sömuleiðis hefðu Íslendingar, án aðkomu stjórnvalda, sýnt náttúrulega fylgni við gildismat inngildingar og manngæsku, með því að senda palestínskan söngvara á svið Eurovision í ár, með því að lyfta táknrænt fulltrúa þeirra sem verið er að skjóta niður.
Þetta hefur það afmarkaða gildi í sjálfu sér að áróður pútínista og annarra um valdahyggjuna, hreina fylgispekt við Bandaríkin og skeytingarleysi gagnvart drápum á almennum borgurum, ef gerandi er í réttu liði, fær holari hljóm.
Framlagið er táknrænt: Við viðurkennum tilvist þeirra með orðum og athöfnum.
En mjúkt vald birtist ekki eingöngu úr grasrótinni eða menningunni. Einn af lykilmælikvörðunum í mati á mjúku valdi er hvort land búi yfir áberandi og áhrifamiklum leiðtoga, sem hefur einhvern boðskap að færa.
Áhrif Ástþórs
Þrátt fyrir að halda á lofti hlutverki forseta Íslands í friðarmálum er ekki víst að Ástþór Magnússon hafi náð að hjálpa til í framgangi þeirra mála, með sinni einstöku seiglu, staðfestu, ágengni og beinskeyttu nálgun. Þegar Ástþór var spurður um skilaboð sín til íslenskra barna í kappræðum á Stöð 2, beindi hann þeim boðskap til þeirra að við myndum „fá á okkur kjarnorkusprengju“ og að það muni „fimm milljarðar manns deyja“ og svo myndi „kjarnorkuvetur umlykja alla jörðina“. Nema hann verði kosinn.
Hættan við alarmisma Ástþórs er að gera friðarmálin „geislavirk“, þannig að aðrir forðist að setja þau á dagskrá, þótt það væri mögulega verðmætasta framlag íslensks forseta til heimsins.
Ástþór vill fara til Moskvu og „hitta Pútín“ til að „semja við hann um frið“, sem Macron Frakklandsforseta tókst til dæmis ekki. Tengsl Ástþórs við Rússland eru helst þau að hann á eiginkonu sem er af rússneskum uppruna. Hins vegar er ljóst að fundur íslensks þjóðarleiðtoga með Vladimir Pútín væri eingöngu til þess að veita honum lögmæti og fóður í áróður. Hvað þá ef leiðtoginn væri sömu skoðunar og Ástþór, að Vesturlönd beri ábyrgð á innrás Rússa í Úkraínu.
Áhrif forseta
Embætti forseta Íslands er, eins og Ísland sjálft, formlega nánast valdalaust, en með mikið mjúkt vald.
Sömuleiðis hefur það takmarkaða bandvídd og getu til þess að greina heimsmálin. Engu að síður er fjölmargt hægt að gera. Í OECD-skýrslu vinnustofu um framsýni árið 2017 kemur fram að Íslendingar geti notað sjálfsmynd sína og ímynd til þess að hafa áhrif langt út fyrir stærð, með því að nota „mjúkt vald“ sem sprettur meðal annars úr óspilltri náttúru.
Til þess að innleiða utanríkisstefnu sem byggð er á gildum, en ekki eingöngu hagsmunum, þarf að nást samhljómur með ríkisstjórn, þingi og forseta. Erfitt er að greina athafnasemi í friðarmálum hjá þeim forsetaframbjóðendum sem mælast með mestan stuðning í könnunum.
Fjórir forsetar
Katrín Jakobsdóttir hefur sýnt í verki utanríkisstefnu sem er að mestu leyti hefðbundin og mun varfærnari en skráð stefna Vinstri grænna. Erfitt er að segja hvort það breytist þegar hún verður laus undan verkstjórahlutverki ríkisstjórnarinnar, en hún segir á framboðssíðu sinni: „Það hefur aldrei verið mikilvægara að tala fyrir þeim grunngildum sem skipta mestu máli fyrir land og þjóð: lýðræði, jafnrétti, mannréttindum og friðsamlegum lausnum.“
Baldur Þórhallsson er skuldbundinn realpólitískri smáríkjakenningunni, sem hann hefur kennt, um að minni ríki þurfi að leita skjóls hjá voldugri ríkjum. Hann hefur þó sterkari fræðilegan bakgrunn en nokkur annar frambjóðandi til að taka afstöðu í alþjóða-, öryggis- og mannréttindamálum. Hann segist sjá „tækifæri í smæðinni“ og að „forseti á undantekningarlaust að tala fyrir friðsamlegri lausn deilumála og grunnstefið í málflutningi hans á ætíð að vera að tala fyrir friði“.
Jón Gnarr virðist ekki hafa rík tök á utanríkismálum til þess að taka áhættu á afstöðu, með fáliðað starfslið, en þess meiri áherslu á að forðast „leiðindi“. Þó hefur hann gengið lengra en aðrir stjórnmálamenn þessarar aldar sem borgarstjóri árið 2010 þegar hann afhenti kínverskri sendinefnd um jarðvarma og náttúruvernd mótmælabréf vegna fangelsunar skáldsins Liu Xiaobo. Í viðtali við Heimildina sagði hann: „Mér finnst mörg sóknartækifæri í þeim fyrir Ísland í heiminum þar sem saga okkar og menning byggir mjög mikið á friðargildum. Að leysa ágreining með samtali, mannvirðingu og einstaklingsfrelsi.“
Halla Hrund Logadóttir hefur alþjóðlega reynslu, en gefið til kynna hefðbundnar, forsetalegar áherslur á íhaldssamar táknmyndir íslenskrar menningar fyrri alda, eins og sauðfé og hesta, en líka áherslu á að breiða út boðskap sjálfbærrar orku. Hún segist vilja „hlúa að sjálfbærri og friðsælli framtíð – með hagsmuni almennings að leiðarljósi“.
„Engin er meira veikburða ...“
Ísland er ekki ógn fyrir neinum og því hefur það aðra merkingu ef Ísland færir fram sjónarmið, heldur en aðrir. Eins og litli strákurinn sem sá og tjáði að keisarinn væri ekki í neinum fötum. Framlagið getur verið að gefa öðrum svigrúm til afstöðu sem byggir á gildum fremur en hagsmunum og liðum. Það er vandasamt og kannski er þægilegast að halda sig frá því, en ef alþjóðamál þróast áfram í ranga átt er ekki víst að við eigum kost á því.
Bjarni Benediktsson eldri hélt ræðu í tilefni af stofnun varnar- eða hernaðarbandalagsins Nató árið 1949, sem við gengum í án þjóðaratkvæðagreiðslu, þar sem hann virtist í varnarstöðu fyrir hönd Íslendinga. „Þjóðirnar sem mynda nú þetta nýja bræðralag eru ólíkar hver annarri á margan hátt: Sumar eru þær mestu og öflugustu í heiminum – aðrar eru litlar og veikburða. Engin er minni eða meira veikburða en mín eigin – íslenska þjóðin ... Landið mitt hefur aldrei háð stríð við aðra þjóð og sem óvopnuð þjóð munum við hvorki né getum lýst yfir stríði gegn annarri þjóð.“
Í orðum Bjarna liggur svarið, en á annan hátt en hann sá. Smæðin og herleysið eru styrkur Íslands. Aflið liggur í fordæminu og gagnkvæmninni. Það er út frá þeirri stöðu sem við getum talað, með hjálp forseta, stolt og staðföst í liði með grundvallaratriðunum. Til lengri tíma eru bæði hagsmunir okkar og siðferðisleg skylda að vinna að framgangi grundvallarréttinda og friðar í heiminum, með þeim aðferðum sem eru okkur færar.
"...svaraði utanríkisráðherra Litáens, Gabrielius Landsbergis, hvers vegna Litáen hefði leyft sér að sýna lýðræðisríkinu Taívan meiri viðurkenningu en kínversk stjórnvöld þola, vegna stefnu sinnar um Eitt Kína. „Svona styðja lýðræðisríki hvert annað,“ svaraði Landsbergis, sonarsonur Vytautas Landsbergis, forseta þings Litáens, við sjálfstæði 1992. „Litáen var stutt á 10. áratugnum af litlu eyjunni Íslandi, þegar það varð fyrsta ríkið til að styðja sjálfstæði okkar. Ísland leið fyrir þetta. Það varð fyrir viðskiptaþvingunum frá Sovétríkjunum á þeim tíma. En samt varð það fyrsta landið til að viðurkenna sjálfstæði Litáens. Þannig að án nokkurs vafa er mikils vert fyrir lýðræðisríki að styðja hvert annað.“
Taívan tilheyrir Kína. Hvers vegna vilt þú skipta þér af innanríkismálum Kína og styðja aðskilnaðarsinna í Taívan, Jón Trausti Reynisson? Ert þú með Landsbergis í þessari and-kommúnísku krossferð hans og hægri-íhaldsmanna gegn Kína? Þetta er allavega sama stefnan og hjá neocons og harðlínumönnum í Bandaríkjunum (og öðrum and-kommúnískum kalda stríðs krossförum). Líttu á félagsskapinn sem þú ert með í þessari furðulegu stefnu þinni og farðu svona einusinni að hugsa þinn gang.