Engin marktæk breyting hefur orðið á fylgi frambjóðenda til forseta síðustu sólarhringa samkvæmt Kosningaspá Heimildarinnar. Flestir eða um 30 prósent ætla að kjósa Höllu Hrund Logadóttur orkumálastjóra sem næsta forseta lýðveldisins.
Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, fylgir þar á eftir með 25,1% og Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði, heldur sömuleiðis þriðja sætinu milli uppfærslna Kosningaspárinnar með rúmlega 20% fylgi. Jón Gnarr, fyrrverandi borgarstjóri og skemmtikraftur, nýtur samkvæmt spánni rúmlega 11% fylgis.
Fylgi frambjóðenda hefur lítið haggast frá því í byrjun maí og nær engin breyting er augljós á vinsældum frambjóðenda eftir fyrstu kappræðurnar á RÚV sem þeir tóku allir þátt í og fram fóru 3. maí.
Hvað er kosningaspáin?
Kosningaspá Heimildarinnar er unnin í samstarfi við dr. Baldur Héðinsson. Hann hefur keyrt kosningaspálíkan sem hann smíðaði fyrir fyrirrennara Heimildarinnar í öllum kosningum sem fram hafa farið á Íslandi síðastliðinn áratug, og mun gera það í aðdraganda forsetakosninganna einnig. Líkanið miðar að því að setja upplýsingar sem skoðanakannanir veita í samhengi. Fyrirliggjandi skoðanakannanir eru teknar saman og þeim gefið vægi til þess að spá fyrir um úrslit kosninga. Niðurstöður spálíkansins eru svo birtar reglulega í Heimildinni, jafnt á prenti og vef, í aðdraganda kosninga.
Þær kannanir sem teknar eru gildar í kosningaspánni verða að uppfylla lágmarksskilyrði tölfræðilegrar aðferðafræði. Þar er litið til stærðar úrtaksins, fjölda svarenda, könnunartímabils og þess hvort úrtakið standist kröfur til að reynast marktækt, svo fátt eitt sé nefnt.
Athugasemdir (1)