Fyrirtæki sem kallar sig Algae Capital B.V. áformar uppbyggingu umfangsmikillar þörungaframleiðsla að Vogshóli – Sjónarhóli, við Patterson-svæðið, sunnan Fitja í Reykjanesbæ. Fyrirhuguð er uppbygging á gróðurhúsum, skrifstofum og borholum fyrir jarðsjó.
Í skýrslu vegna matsfyrirspurnar til Skipulagsstofnunar, sem birt er í Skipulagsgátt, segir að uppbyggingin sé áformuð í sex áföngum og verði lokið árið 2031. Gróðurhúsin yrðu í heild 122.688 fermetrar að stærð en auk þess yrði byggð 8.000 fermetra skrifstofuhúsnæði. Þá stendur til að bora fjórar holur fyrir jarðsjó. Í fyrsta áfanga er stefnt er að því að framleiða um 2.000 kíló af þurrkuðum þörungum á dag. Heildarframleiðsla, við byggingu síðari áfanga, yrði um 12.000 kíló á dag.
Tilgangur framkvæmdarinnar er að sögn fyrirtækisins að „byggja upp umhverfisvæn gróðurhús“ sem nýta myndu jarðsjó úr borholum til þörungaræktunar. Húsin yrðu rúmlega 8 metrar á hæð og í þeim yrðu þörungar framleiddir í sérstökum glerrörum. „Þörungana má nota í matvælaiðnaðinn, næringarefni, lyfjavörur og snyrtivörur,“ segir í skýrslunni.
Áætlað er að bora niður á 90 metra dýpi eftir köldum jarðsjó. Borholurnar þyrftu að framleiða 5 l/s til að mæta þörf fyrirhugaðrar framkvæmdar.
Hið áformaða framkvæmdasvæði er austan við Ásbrú og í tæplega kílómetra fjarlægð frá Reykjanesbrautinni. Á svæðinu er í dag að finna hinn svokallaða Patterson-flugvöll sem var byggður af Bandaríkjaher. Á skipulagssvæðinu er ennfremur að finna gagnaver atNorth.
Orkuþörf framleiðslunnar myndi aukast með hverjum áfanga og í heild mun þurfa um 43,5 MW af uppsettu afli til starfseminnar. Samtal er sagt í gangi við HS Orku um afhendingu rafmagns.
Athugasemdir