Auðsýnt er að með umbreytingu lands vestan við Þorlákshöfn, með landeldisstöðvum og mölunarverksmiðju, myndi það hafa í för með sér „margvísleg neikvæð áhrif á umhverfið“. Ásýnd svæðisins, sem er í dag lítt snortið, myndi gjörbreytast með tilkomu alls hins áformaða stóriðnaðar. Öll fyrirtækin myndu nýta grunnvatn á svæðinu, skerða nútímahraun og hafa veruleg sjónræn áhrif.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í áliti Skipulagsstofnunar á áformaðri mölunarverksmiðju þýska sementsrisans Heidelberg í Þorlákshöfn. Í álitinu er áhersla m.a. lögð á samlegðaráhrif alls þess iðnaðar sem áformaður er á sama svæði.
Með áliti Skipulagsstofnunar er umhverfismati hinnar fyrirhuguðu verksmiðju lokið. Sveitarfélögum ber að hafa álitið til hliðsjónar við leyfisveitingar.
Heidelberg ætlar sér að nota móberg úr Litla-Sandfelli við framleiðsluna í verksmiðjunni. Hið malaða efni yrði sent utan með skipi og notað sem íblöndunarefni í sement. Námuvinnslan í Litla-Sandfelli yrði mjög umfangsmikil og á, miðað við áform Heidelbergs, að enda með því að fjallið hverfur.
Athugasemdir (2)