Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, sagðist í nýjasta þætti Pressu, ekki vera bjóða sig fram vegna persónulegrar óvildar í garð Katrínu Jakobsdóttur.
Á meðan Katrín lá undir feldi um væntanlegt forsetaframboð, birti Steinunn Ólína færslu á Facebook-síðu sinni þar sem hún sagðist ekki treysta Katrínu í embætti forseta Íslands, að fenginni reynslu. Í færslunni lofaði Steinunn að hún myndi bjóða sig fram gegn Katrínu, ákveði hún fari hún fram.
„Mér fyndist það bera vott um oflæti og að auki fyndist mér hún með því sýna þingi, þjóð og öðrum frambjóðendum óvirðingu og það get ég ekki sætt mig við.“
4. apríl, degi áður en Katrín Jakobsdóttir tilkynnti um framboð sitt, birti Steinunn Ólína ávarp á Facebook-síðu sinni þar hún tilkynnti um framboð sitt. Athygli vakti að í ávarpinu var hvergi minnst á Katrínu.
Spurð nánar út í forsendurnar að baki framboði sínu og gagnrýni hennar gagnvart Katrínu segist Steinunn Ólína ekki hafa verið gagnrýnin á Katrínu sem einstakling. Hins vegar hafi hún verið gagnrýnin á ríkisstjórn hennar.
„Það er eins og það sé einhver skömm af því að fylgjast með því sem gerist í sínu landi og skrifa um það. Ég hafna því. Það er bara hluti af því að vera þjóðfélagsþegn að fylgjast með því sem fer fram og það vill svo til að hún var forsætisráðherra í þessari ríkisstjórn sem ný, er nú breytt. En þetta er ekki vitund persónulegt,“ sagði Steinunn Ólína.
Vill forseta sem er ekki hluti af stjórnmála- og embættismannakerfinu
Í þættinum sagði Steinunn Ólína að fólk hefði hvatt sig til að fara fram, meðal annars vegna þess að hún stendur fyrir utan stjórnmálin, embættismannakerfið og hafi engra viðskiptalegra hagsmuna að gæta.
Hins vegar hafi hún skoðanir á ýmsum málefnum sem hún sé óhrædd við að tjá opinberlega um. Þá segist hún bjóða sig fram fyrir fólkið í landinu sem upplifir valdaleysi gagnvart stjórnvöldum.
„Nú er á Íslandi, það má bara segja að ráðherrarnir haga sér eins og ríki í ríkinu. Á þinginu fara fram leiksýningar sem enginn skilur um hvað ræðir og svo eru teknar ákvarðanir af ráðherrum og fulltrúar þjóðarinnar í ýmsum flokkum, það er bara gert grín að þeim í stjórnarandstöðunni þegar þau reyna vinna fyrir sína umbjóðendur og koma þeirra áhyggjuefnum á framfæri.“
Segir kosningarnar í ár vera mjög pólitískar
Steinunn Ólína telur hún að frambjóðendur ættu ekki að fara í grafgötur með það að forsetakosningarnar í ár eru pólitískar.
„Það eru mjög stór mál undir og það skiptir verulegu máli að íslenska þjóðin, og þá er ég ekki að tala um sjálfa mig, íslenska þjóðin veljir sér forseta sem getur staðið sjálfstæður og lætur ekki grauta í sér af embættismannakerfinu eða stjórnmálunum og getur staðið fast með hagsmunum þjóðarinnar. Og, hagsmunir þjóðarinnar eru mínir hagsmunir.“
Sjá má þáttinn í heild sinni í spilaranum hér:
Athugasemdir