Sósíalistaflokkur Íslands, sem fékk ekki nægilega mörg atkvæði í kosningunum 2021 til að komast inn á þing, mælist nú með meira fylgi en Vinstri græn. Fyrrnefndi flokkurinn nýtur stuðnings 4,4 prósent kjósenda samkvæmt nýrri könnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands á meðan að 4,3 prósent ætla sér að kjósa þann síðarnefnda, sem situr í ríkisstjórn og hefur gert það samfleytt frá árinu 2017.

Félagsvísindastofnun gerir ekki reglulega kannanir og sú sem birt var í gær mældi einnig fylgi forsetaframbjóðenda. Það sem gerir hana frábrugðna öðrum könnunum sem gerðar hafa verið á fylgi slíkra frambjóðenda og fylgi flokka undanfarnar vikur og mánuði er þar eru fleiri svarendur, eða alls 2.638. Gögnin voru svo vigtuð til að endurspegla þýðið sem best.
Breiðu línurnar í könnuninni eru svipaðar þeim og birtast annarsstaðar. Samfylkingin mælist stærsti flokkur landsins með 25,4 prósent fylgi, sem er aðeins minna en hún hefur verið að mælast með í öðrum könnunum. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 19 prósent fylgi og er á svipuðum slóðum og hann hefur verið undanfarna mánuði. Miðflokkurinn mælist þriðji stærsti flokkurinn með 13,4 prósent og Framsóknarflokkurinn kemur þar á eftir með slétt tíu prósent. Píratar (8,1 prósent), Viðreisn (7,9 prósent) og Flokkur fólksins (7,3 prósent) eru svo öll á svipuðu reki líkt og verið hefur í síðustu könnunum annarra mælingarfyrirtækja.
Tveir bæta við sig, þrír standa í stað en stjórnin tapar stórt
Allar vísbendingar í könnun Félagsvísindastofnunar eru því í takti við það sem hægt er að sjá út úr könnunum annarra síðustu mánuði. Samfylkingin og Miðflokkurinn eru þeir tveir stjórnmálaflokkar sem hafa bætt við sig fylgi á kjörtímabilinu, Píratar, Viðreisn og Flokkur fólksins eru meira og minna á svipuðum slóðum og þeir flokkar voru í kosningunum 2021 en ríkisstjórnarflokkarnir þrír hafa allir tapað umtalsverðu fylgi, samtals um 20 prósentustigum frá því að kosið var síðast, og njóta nú stuðnings rétt um þriðjungs þjóðarinnar.
Það sem er frábrugðið í könnun Félagsvísindastofnunar, og hefur ekki sést í öðrum könnunum, er að eini flokkurinn sem er með mælanlegt fylgi en án fulltrúa á Alþingi, Sósíalistaflokkur Íslands, mælist stærri en Vinstri græn, þótt ekki sé marktækur munur á fylginu ef tekið er tillit til skekkjumarka. Um er að ræða flokka sem sækja í sama kjósendahópinn lengst til vinstri í íslenskum stjórnmálum.
Fylgið dreifist svipað
Miðað við stöðu mála í könnun Félagsvísindastofnunar þá er dreifing atkvæða milli þeirra níu flokka sem mælast með eitthvað fylgi ekki mjög frábrugðin því sem hún var í síðustu kosningum. Flokkarnir hafa hafa einfaldlega skipt um sæti á vinsældalistanum. Þannig er hefur Samfylkingin (25,4 prósent) tekið við forystusætinu af Sjálfstæðisflokknum, sem fékk 24,4 prósent í síðustu kosningum. Sá flokkur, sem mælist nú með 19 prósent, hefur tekið við hlutverki Framsóknarflokks sem fékk 17,3 prósent árið 2021.
Miðflokkurinn, sem rétt náði inn á þing í síðustu kosningum með 5,4 prósent hefur haft sætaskipti við Vinstri græn, sem fékk 12,6 prósent haustið 2021, en mælast nú minnsti flokkurinn á þingi með 4,3 prósent á meðan að Miðflokkurinn er sá þriðji stærsti með 13,4 prósent. Framsóknarflokkurinn, sem mælist með tíu prósent, er svo kominn á þann stað sem Samfylkingin var fyrir tveimur og hálfu ári, þegar hún fékk 9,9 prósent atkvæða þegar talið var upp úr kjörkössunum.
Könnun Félagsvísindastofnunar var gerð var á tímabilinu 22.-30. apríl.
reynslu. En maður verður víst að nota úllin dúllin doff aðferðina eða ugla sat á kvisti.