Framtíðaráform Heidelberg um tröllvaxna mölunarverksmiðju í túnfæti Þorlákshafnar liggja í höndum íbúa sem kjósa um verkefnið samhliða forsetakosningum 1. júní næstkomandi og utankjörfundar frá 18. maí. Þar fá íbúar tækifæri til að hafa mótandi áhrif á framtíð okkar og komandi kynslóða. Íbúafundir hafa verið haldnir á vegum fyrirtækisins þar sem það kynnir einhliða sínar forsendur en lítil umræða hefur farið fram um hagsmuni íbúa Ölfuss.
„Nú er öldin önnur og við íbúarnir getum stolt haft skoðun á því hvernig atvinnuuppbyggingu við viljum sjá í samfélaginu okkar“
Hér viljum við fara yfir nokkur atriði sem snúa að íbúum, eins og þau birtast okkur í þeim gögnum sem liggja fyrir.
Í upphafi er áhugavert að skoða aðferð sem kallast The Door in the Face Technique. Hún vísar til þess þegar fólk er beðið um að samþykkja beiðni sem er svo óraunhæf og stór að flestir myndu hafna henni. Þá er lögð fram önnur beiðni, heldur smærri, sem virðist mun sanngjarnari í samanburði við þá fyrri. Fólk er líklegra til að samþykkja þessa smærri beiðni hafandi hafnað þeirri fyrri, beiðni sem það hefði ekki endilega samþykkt hefði hún verið lögð fram upprunalega.
Því má spyrja sig, ef fyrri kostur Heidelberg hefði aldrei verið borinn á borð, myndi fólk upplifa seinni valmöguleikann á sama hátt?
Nálægðin við Þorlákshöfn
Nálægðin á milli mögulegrar lóðar Heidelberg og að nýju byggðinni vestast í Þorlákshöfn er aðeins um 2,5 km. Nálægðin við Búðahverfi og Bergin er um 3 km. Í umræðunni heyrist að skilningur margra sé að verksmiðjan verði 5 km frá byggð, sem er rangt. Vísað hefur verið til þess að hún sé 5 km frá hafnarsvæðinu en það sem snertir hag íbúa er auðvitað nálægð verksmiðjunnar við íbúabyggð. Hið rétta er að hún er í um það bil 2,5 km frá íbúabyggð í nýja hverfinu sem verið er að byggja upp, þar sem nýr leikskóli mun rísa, meðal annars.
Í greinargerð Heidelberg er sagt frá því að hámarkshæð bygginga sé 52 metrar og í umhverfismatsskýrslu kemur fram að sílóin verði 18 talsins, hvert og eitt 200 fm, en í greinargerð er reiknað með að þau verði 10 talsins. Á meðfylgjandi mynd eru 52 metrar sýndir í hlutföllum við Hallgrímskirkju sem er 74,5 metra há. Hvernig væri ásýnd sveitarfélagsins og í bænum Þorlákshöfn ef tíu tvö hundruð fermetra síló, sem eru 70% af hæð Hallgrímskirkju, standa í tæplega 3 km fjarlægð frá íbúabyggð?
Er verið að gefa afslátt af öryggi?
Umsögn Vegagerðarinnar við fyrirætlanir um stórfellda námuvinnslu í Litla-Sandfelli er afdráttarlaus og segir m.a.: „Ekki er unnt að hefja stórfellda efnisflutninga úr Litla-Sandfelli um núverandi veg til Þorlákshafnar.“ Engu að síður er meirihlutinn í Ölfusi búinn að samþykkja að heimila þessa stórfelldu efnisflutninga úr Litla-Sandfelli með breytingu á deili- og aðalskipulagi.
Fulltrúi Heidelberg svarar umsögn Vegagerðarinnar á þessa leið: „Þegar reynsla kemst á efnisflutninga, verður skoðað með Vegagerðinni og sveitarfélagi hvort huga þurfi að breyttum efnisflutningum.“ Við viljum leggja hér fram sömu spurningar og fulltrúar H og B lista spurðu á bæjarstjórnarfundi: Hvaða reynslu er verið að vísa í að þurfi að eiga sér stað? Á að bíða eftir því að það verði x mörg slys til að átta sig á því að efnisflutningar eiga ekki rétt á sér við núverandi ástand? Og hversu mörg slys er þá verið að miða við? Hver er ásættanlegur fórnarkostnaður þess að moka niður heilu fjalli og keyra það til Þorlákshafnar á vegum sem nú þegar liggur fyrir að munu ekki þola þessa þungaflutninga?
Bæjarstjórn samþykkti fimm skilyrði sem Heidelberg þyrfti að uppfylla, þar sem segir í þriðja lið: „Ekki kemur til greina að efni, allt að 3 milljónum tonna, verði flutt frá námum eftir almenna þjóðvegakerfinu eins og það er núna. Finna þarf aðrar leiðir svo sem blöndu af námuvegum og færiböndum.“
Nú lítur ekki út fyrir að standa eigi við þetta skilyrði. Mögulega vegna þess að hluti af jarðefninu á nú að koma frá hafsbotni, en mikilvægt er að taka það fram hér, að ekki liggur fyrir samþykki um að svo verði. Umhverfismatsskýrslan um þann hluta verkefnisins liggur inni á skipulagsgátt með opið fyrir umsagnir til 16. maí, svo ólíklegt er að niðurstaða um námuvinnslu á hafsbotni liggi fyrir áður en gengið er til kosninga.
Námuvinnsla á hafsbotni mikilvægs hrygningarsvæðis
Í skýrslu Hafrannsóknastofnunar um fisksamfélög á því svæði sem fyrirhuguð námuvinnsla á hafsbotni á að fara fram kemur ýmislegt áhugavert fram. Sem dæmi má nefna að svæðið er innan mikilvægs hrygningarsvæðis margra nytjafiska, þar með talið loðnu og þorsks sem eru verðmætustu nytjastofnar Íslandsmiða. Að auki er þetta mikilvægt uppeldissvæði fyrir fjölmargar fisktegundir, en svæðið er sérstaklega mikilvægt fyrir ýsu og sandkola síðla sumars og fram á haust. Í viðtali við dr. Guðrúnu Marteinsdóttur fiskifræðing frá 2012 segir hún að umrætt svæði, Selvogsbanki, hýsir eiginlega alla fiskistofna okkar: „Þeir koma nær allir þangað inn til hrygningar. Kannski er þetta verðmætasta svæðið á Íslandi,“ sagði dr. Guðrún.
Efnistaka af sjávarbotni hefur aukist mikið á heimsvísu síðastliðna áratugi, með slæmum afleiðingum þar sem hún hefur verið óhófleg, en fyrirhuguð efnistaka Heidelberg er 75 milljónir rúmmetra á 30 árum. Rannsóknir á umhverfisáhrifum eru af skornum skammti og óljóst hvort eða hversu mikil áhrif fyrirhuguð efnistaka myndi hafa á samfélög fiska á svæðinu. Erlendar rannsóknir sem vísað er í í áðurnefndri skýrslu benda á að töluvert rask geti orðið á umhverfi og lífríki. Skýrsluhöfundar benda á að ýmsum spurningum um áhrif efnistöku er ósvarað, bæði til lengri og skemmri tíma, og á mismunandi árstímum, sérstaklega á hrygningartíma margra fisktegunda.
Þá eru einnig líkur á því að námuvinnsla á hafsbotni hafi áhrif á fuglalíf á svæðinu. Margar tegundir fiska hrygna á Selvogsbanka og sumar þeirra beint á sandbotni eins og sandsíli. Sandsíli er lykiltegund í vistkerfi Selvogsbanka og mikilvægasta fæða flestra sjófuglategunda þar.
Jákvæð áhrif á loftslagið eða grænþvottur?
Rökin fyrir því að moka niður heilu fjalli, stunda námuvinnslu á hafsbotni, mala efnið í Þorlákshöfn og flytja til Evrópu með skipum eru þau að verkefnið sé umhverfisvænt. Framkvæmdaaðili hyggst draga úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna notkunar steinsteypu með því að draga úr notkun á sementsklinkers.
Eins og Landvernd bendir á í umsögn sinni um verkefnið er í dag dregið úr notkun á sementsklinkers með því að nota kolaösku frá kolaorkuverum og þrátt fyrir hin gríðarlegu neikvæðu áhrif frá kolaorkuverum er þessi úrgangur frá þeim, þ.e. kolaaska sem íblöndunarefni, langt í frá fullnýttur. Alhæfingin um þennan loftslagsávinning virðist ekki standast skoðun því meira en nóg verður til af kolaösku næstu áratugina.
Staðreyndin er sú að minna en 10% af þeirri kolaösku sem framleidd er í dag er nýtt til íblöndunar sements. Þrátt fyrir að rétt sé að Þýskaland og fleiri lönd í Evrópu stefni á að brenna engum kolum árið 2040 þá skal því haldið til haga að 6 lönd í Evrópu hafa ekki enn sett sér markmið um lokun á kolaverum og þá eru önnur lönd og heimsálfur ótalin. Kolaaska verður því áfram til staðar á markaðnum í miklu magni. Það getur því ekki talist loftslagsvæn aðgerð að ráðast í slíka og stórtæka efnisflutninga yfir hafið með þá staðreynd að íblöndunarefni eru þegar til staðar og það margfalt nær væntanlegum kaupendum á meginlandi Evrópu en hin íslensku fjöll.
Stoltir íbúar Ölfuss hafa val um hvar skal sækja fram
Íbúum hefur fjölgað mikið síðasta áratuginn í Ölfusi og sömuleiðis hefur tækifærum í atvinnuvegi farið fjölgandi. Höfnin stendur vel og fyrirhugaðar fjárfestingar skipta hundruðum milljarða á næstu 5-7 árum. Sveitarfélagið er með verðug markmið um að sækja fram í umhverfisvænum matvælaiðnaði þar sem af nógu er að taka og fyrirséð að störfum fjölgar svo um munar á komandi misserum. Hótel eru ýmist að rísa eða í undirbúningi og nýsköpun og ferðaþjónusta blómstrar. Grænir iðngarðar eru á teikniborðinu og var stórt skref tekið í þeim undirbúningi þegar starfsmaður var ráðinn til að koma þeim á fót.
Þegar þetta er talið upp er ljóst að liðinn er sá tími sem íbúar í Þorlákshöfn voru tilbúnir að taka hverju sem er, enda var atvinnuvegur ekki eins fjölbreyttur fyrstu áratugina í sögu þorpsins. Nú er öldin önnur og við íbúarnir getum stolt haft skoðun á því hvernig atvinnuuppbyggingu við viljum sjá í samfélaginu okkar. Hvernig framtíð viljum við skilja eftir fyrir komandi kynslóðir? Hver viljum við að saga okkar verði, sem nú fáum tækifæri til að hafa áhrif á framtíðina?
Við viljum hvetja alla íbúa í Ölfusi til að kynna sér málið og nýta tækifærið til að hafa áhrif á framtíð sveitarfélagsins.
Ása Berglind Hjálmarsdóttir - H lista
Berglind Friðriksdóttir - H lista
Böðvar Guðbjörn Jónsson - H lista
Gunnsteinn R. Ómarsson - B lista
Hrafnhildur Hlín Hjartardóttir - B lista
Hrafnhildur Lilja Harðardóttir - H lista
Hrönn Guðmundsdóttir - B lista
Sigfús Benóný Harðarson - H lista
„… svæðið er innan mikilvægs hrygningarsvæðis margra nytjafiska, þar með talið loðnu og þorsks sem eru verðmætustu nytjastofnar Íslandsmiða.
Að auki er þetta mikilvægt uppeldissvæði fyrir fjölmargar fisktegundir, en svæðið er sérstaklega mikilvægt fyrir ýsu og sandkola síðla sumars og fram á haust.
Í viðtali við dr. Guðrúnu Marteinsdóttur fiskifræðing frá 2012 segir hún að umrætt svæði, Selvogsbanki, hýsir eiginlega alla fiskistofna okkar: „Þeir koma nær allir þangað inn til hrygningar. Kannski er þetta verðmætasta svæðið á Íslandi,“ sagði dr. Guðrún.”