Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri er nú sá frambjóðandi til forseta Íslands sem mælist með mest fylgi allra í kosningaspá Heimildarinnar, sem vigtar þær skoðanakannanir sem gerðar eru. Alls segjast 24,9 prósent svarenda ætla að kjósa hana nú og er það í fyrsta sinn sem hún leiðir sem frambjóðandi frá því að farið var að gera kosningaspár fyrir komandi kosningar rétt fyrir miðbik aprílmánaðar. Halla Hrund hefur bætt við sig næstum 20 prósentustigum á rúmum hálfum mánuði og fylgi hennar hefur því fimmfaldast á þeim tíma.
Þeir frambjóðendur sem hafa orðið fyrir mestu fylgistapi vegna uppgangs Höllu Hrundar eru Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, Jón Gnarr, leikari og fyrrverandi borgarstjóri í Reykjavík og Halla Tómasdóttir, forstjóri B Team.
Fylgi Katrínar mælist nú 23,7 prósent og hefur dregist saman um 7,3 prósent frá 13. apríl. Samkvæmt nýjustu spánni situr Katrín nú í þriðja sæti yfir þá frambjóðendur sem mælast með mest fylgi. Það er í fyrsta sinn í kosningaspám Heimildarinnar vegna forsetakosninganna sem hún mælist ekki með mest fylgi allra. Jón hefur tapað minna en Katrín, eða alls 3,5 prósentustigum frá fyrstu spá, og mælist nú með 15,5 prósent stuðning.
Halla Tómasdóttir er hins vegar komin niður í fjögur prósent eftir að hafa mælst með sjö prósent fylgi fyrir rúmum tveimur vikum. Hún hefur því hlutfallslega tapað um 43 prósent af fylgi sínu á umræddu tímabili og þrátt fyrir að sitja í fimmta sæti yfir þá frambjóðendur sem eru með mest fylgi þá er hún meira 11,5 prósentustigum frá Jóni Gnarr í fjórða sætinu.
Baldur stöðugri
Baldur Þórhallsson sker sig úr hópnum sem nýtur mest fylgis á þann hátt að fylgi hans hefur verið stöðugra en hinna þriggja. Það mælist sem stendur 24,2 prósent, sem er það minnsta sem Baldur hefur mælst með, en það er samt sem áður undir tólf prósent minna fylgi en það sem hann mældist mest með.
Til samanburðar hefur fylgi Katrínar fallið um tæplega 24 prósent frá því að það toppaði og fylgi Jóns Gnarr um rúmlega 18 prósent.

Þeir fjórir frambjóðendur sem mælast með mest fylgi mættust í fyrsta sinn í kappræðum í Pressu á Heimildinni síðastliðinn föstudag. Áhuginn á þættinum var mikill og metaðsókn var á vef Heimildarinnar á meðan að á þættinum stóð. Hægt er að horfa á hann í heild hér að neðan.
Arnar Þór Jónsson, varaþingmaður Sjálfstæðisflokks og fyrrverandi dómari, mælist með þriggja prósenta fylgi og Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir leikkona með 1,6 prósent. Aðrir frambjóðendur mælast samtals með 3,1 prósent stuðning.
Í dag varð líka ljóst hversu margir muni berjast um að verða næsti húsráðandi á Bessastöðum, en kosið verður laugardaginn 1. júní. Af þeim 13 sem skiluðu inn meðmælendalistum fyrir lokafrest á föstudag teljast ellefu löglegir frambjóðendur. Þau eru, auk ofangreindra, Ásdís Rán Gunnarsdóttir, Ástþór Magnússon, Eiríkur Ingi Jóhannsson og Helga Þórisdóttir. Framboð Kára Vilmundarsonar Hansen og Viktors Traustasonar voru úrskurðuð ógild.
Hvað er kosningaspáin?
Kosningaspáin er unnin í samstarfi við dr. Baldur Héðinsson. Hann hefur keyrt kosningaspálíkan sem hann smíðaði fyrir fyrirrennara Heimildarinnar í öllum kosningum sem fram hafa farið á Íslandi síðastliðinn áratug, og mun gera það í aðdraganda forsetakosninganna einnig.
Líkanið miðar að því að setja upplýsingar sem skoðanakannanir veita í samhengi. Fyrirliggjandi skoðanakannanir eru teknar saman og þeim gefið vægi til þess að spá fyrir um úrslit kosninga. Niðurstöður spálíkansins eru svo birtar reglulega í Heimildinni, jafnt á prenti og vef, í aðdraganda kosninga.
Þær kannanir sem teknar eru gildar í kosningaspánni verða að uppfylla lágmarksskilyrði tölfræðilegrar aðferðafræði. Þar er litið til stærðar úrtaksins, fjölda svarenda, könnunartímabils og þess hvort úrtakið standist kröfur til að reynast marktækt, svo fátt eitt sé nefnt.
Athugasemdir