Hlaðvarpið Á vettvangi, sem fór í loftið á Heimildinni 22. apríl síðastliðinn, er vinsælasta íslenska hlaðvarp landsins um þessar mundir samkvæmt öllum listum sem halda utan um hlustanir.
Í þáttunum fylgir Jóhannes Kr. Kristjánsson kynferðisbrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eftir í um tveggja mánaða skeið. Þættirnir verða fjórir talsins og birtir vikulega á mánudögum. Næsti þáttur mun því verða aðgengilegur á mánudag, 29. apríl.
Í þáttunum fá hlustendur að kynnast starfinu á kynferðisbrotadeildinni, fólkinu sem þar vinnur og málunum sem þar streyma inn. Það er líka farið út fyrir deildina og rætt við fólk sem starfar í öllu kerfinu sem kemur að kynferðisbrotamálum á Íslandi. Spurt er; hvað getum við sem samfélag gert til að fækka kynferðisbrotum?
Í fyrsta þættinum, sem hægt er að hlusta í spilaranum hér fyrir ofan, var fylgst með rannsókn á máli sem kom upp í febrúar þegar tveir menn handteknir vegna rannsóknar á grófu kynferðisbroti á konu. Annar sakborninganna er leigubílstjóri. Brotaþoli hafði verið mjög ölvuð og tekið leigubíl þar sem hún taldi sig vera örugga. Hún rankaði hins vegar við sér á ókunnugum stað úti í bæ og taldi að brotið hefði verið á sér.
Jóhannes fylgdi lögreglumönnum á kynferðisbrotadeildinni allt frá því að hún fór að leita að þeim sem grunaðir voru um aðild að kynferðisbrotinu og fram yfir það að þeir voru handteknir. Í upphafi hafði lögreglan úr mjög litlu að moða vegna þess að ekki var vitað hver vettvangur glæpsins var eða um hvaða leigubíl væri að ræða. Fékk Jóhannes meðal annars að koma með í ómerktum lögreglubíl með tveimur rannsóknarlögreglumönnum sem leituðu að seinni grunaða manninum og þegar vettvangur glæpsins var rannsakaður.
Athugasemdir