Áður en hefðbundin dagskrá hófst á þingfundi í dag fóru nokkrir þingmenn í pontu og ræddu niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu í dagskrárliði um fundarstjórn forseta Alþingis.
Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) komst í morgun að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið hefði brotið gegn mannréttindasáttmála Evrópu í alþingiskosningunum 2021. Var það í kjölfar endurtalningar atkvæða í Norðvesturkjördæmi. Það var samhljóma álit Mannréttindadómstólsins að ríkið hafi brotið á rétti til frjálsra kosninga og rétti til skilvirks úrræðis.
Kristún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, sagði að formenn þingflokkanna hefðu unnið með Katrínu Jakobsdóttur, fyrrverandi forsætisráðherra, að endurskoðun á stjórnarskránni. „Þar sem meðal annars var verið að skoða breytingar sem sneru að því að geta skotið ákvörðun Alþingis um gildi kosninga til Hæstaréttar.“ Hún velti upp þeirri spurningu hvort að sú vinna myndi halda áfram og hvort að þær breytingar myndu ná í gegn áður en þing yrði rofið fyrir næstu kosningar.
Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, hyggst taka málið upp í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd á morgun. „Þarna er bent á mjög alvarleg atriði sem löggjafanum ber að taka á.“ Hún hvatti þingheim til að taka niðurstöðuna alvarlega og „fara í það að breyta þeim lögum sem nauðsynlegt er að breyta og breyta ákvæðum stjórnarskrár.“
Í kjölfar ræðu Þórunnar tjáði Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, þingmönnum að hann hafi óskað eftir því að skrifstofa Alþingis framkvæmi greiningu á dómnum.
„Hljótum að þurfa að líta í eigin barm“
„Niðurstaða Mannréttindadómstólsins er skýr, íslensk lög tryggja ekki réttinn til frjálsra kosninga, grundvallarforsendu lýðræðisins,“ sagði Logi Einarsson, þingmaður Samfylkingarinnar. Hann sagði það fortakslausa skyldu þingmanna að bæta úr þessu broti. Bæta þyrfti úr því „með breytingum á kosningalögum og stjórnarskrá. Um þetta hljótum við öll að vera sammála og það er brýnt að klára þetta helst í vor,“ sagði Logi. Hann velti upp þeirri spurningu hverjar pólitísku afleiðingarnar yrðu af þessu máli.
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, tók undir með Loga. „Við hljótum að þurfa að líta í eigin barm og velta því fyrir okkur hvernig það hefði verið hægt að koma í veg fyrir þau brot sem voru framin þegar í rauninni kjörbréfanefnd ákvað og Alþingi ákvað að staðfesta eigið hæfi, staðfesta eigin kjörbréf. Ég sé ekki að við getum hlaupist undan þeirri ábyrgð.“
Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, sagði í sinni ræðu að það þyrfti eftirlit með kosningunum á Íslandi „og það er ekkert til að skammast okkar fyrir.“ Sagði hann Pírata hafa beðið „um að hingað kæmi Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu og hefði eftirlit með þessum kosningum. Það hefði betur verið gert vegna þess að þá hefðum við hlutlausa fagmenn til þess að skera úr um hvað hefði misfarist í þessum kosningum frekar en okkur sem, hversu góð sem við teljum okkur vera, erum ekki hlutlaus í þessu máli.“
Athugasemdir