Gróðafíklar og brallarar vita að meirihluti landsmanna vill ekki selja Landsvirkjun, vill hvorki leyfa einkavæðingu á rafmagni né jarðhita. En mangararnir vita að það er gróðavegur að annast sölu á rafmagni og heitu vatni. Þá langar, þeir eru ofurseldir löngun til þess að selja orku, halda inn á gróðaveginn og þeir ætla þangað.
Þeir eru að marka sér leið.
Blíðlega í fyrstu til þess að vekja ekki varðmanninn. Þeir nota mjúkmæli, brallararnir, og fengu inni með þau á Rúv þennan morgun, 15.04.´24. Þessi tilvitnun er þaðan:
„Í dag verður fyrsta íslenska raforkukauphöllin opnuð. Tilgangurinn er að auka gagnsæi í raforkuviðskiptum. …
Fyrsta íslenska raforkukauphöllin tekur til starfa í dag. Fyrirtækið Vonarskarð ehf. sér um rekstur kauphallarinnar sem hefur verið í undirbúningi í þó nokkurn tíma.
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið veitti kauphöllinni leyfi í lok síðasta árs.
Kauphöllin á að einfalda innkaup þar sem hægt verður að kaupa rafmagn án útboðs. Björgvin Skúli Sigurðsson, framkvæmdastjóri Vonarskarðs, segir að kauphöllin tryggi orkuöryggi fyrirtækja og einstaklinga til lengri tíma. Löngu tímabært hafi verið að koma slíku verkefni á fót hér á landi. Kauphöllin er bara eðlileg þróun á raforkumarkaði í öllum löndum…“
Fyrirsögnin á næsta versi blíðmála blekkinganna er Landsvirkjun tapar hundruðum milljóna vegna skerðingar og ekkert um það getið að skerðingin stafar af vatnsskorti - engu öðru. Þeir eru að lauma því að okkur að Landsvirkjun sé skammarlega illa rekin, en segja það að sjálfsögðu ekki berum orðum og alls ekki hitt, að hún skili milljörðum í ríkissjóð ár hvert.
Gróðabrallararnir byrjuðu með ámóta fagurgala áður en þjóðkjörnir og aðrir opinberir þjónar þeirra tóku að selja banka og önnur fyrirtæki sem ríkið sat uppi með í kjölfar Hrunsins. Nú eru þeir, fjárplógsmennirnir, að nálgast lokatakmarkið með Íslandsbanka og eru þess vegna farnir að undirbúa sölu á Landsbankanum. Hagnaður af rekstri hans er umtalsverður, nokkrir milljarðar á ári og rennur í ríkissjóð; sameiginlegan sjóð landsmanna. Stjórnendur bankans vilja gjarnan gera enn betur og keyptu tryggingafélag líkt og aðrir bankar hafa á sínum eignaskrám. Það vita brallararnir að tryggingafélög gefa góðan og mikinn arð og hafa falið ofurhugunum í Bankasýslu ríkisins að koma í veg fyrir það með öllum ráðum að bankinn fái að standa við kauptilboð sem hann hefur gert, en slíkt gæti kostað ríkið mikil peningaútlát. Þó hafa ofurhugarnir nefnt það að bankinn fái að kaupa tryggingafélagið þrátt fyrir allt með því skilyrði að setja það strax í endursölu á lægra verði. Við þetta að mundi Landsbankinn tapa fé, setja verulega ofan og yrði falur lágvirði á „frjálsa“ markaðnum og umrætt tryggingafélag líka.
Þá þá yrði kátt í höllinni og hægt að grilla í góðra vina hópi eitthvert kvöldið.
Við hin sitjum bara í armslengd frá þessu og látum gott heita.
Eða hvað?
Athugasemdir (5)