Mannréttindadómstóll Evrópu komst að þeirri niðurstöðu í dómi sem kveðinn var upp í morgun að íslenska ríkið hafi brotið á mannréttindasáttmála Evrópu í alþingiskosningunum 2021, í kjölfar endurtalningar atkvæða í Norðvesturkjördæmi.
Magnús Davíð Norðdahl og Guðmundur Gunnarsson, sem hefðu komist inn á þing miðað við fyrstu útgefnu talningu atkvæða en gerðu það ekki eftir endurtalningu atkvæða, fóru með málið til Mannréttindadómstólsins. Dómstóllinn hefur gert íslenska ríkinu að greiða hvorum um sig 13.000 evrur í bætur, eða það sem nemur um tveimur milljónum króna. Magnús bauð sig fram fyrir Pírata og Guðmundur fyrir Viðreisn.
„Málið snerist um meint misferli við endurtalningu atkvæða í Norðvesturkjördæmi í alþingiskosningunum árið 2021, breytingar á úthlutun jöfnunarsæta í kjölfarið og rannsókn Alþingis á kærum eftir kosningar.“
Eins og áður hefur komið fram voru talsverðir annmarkar á framkvæmd kosninganna en kjörgögn lágu óinnsigluð frá kjördegi og til talningadags daginn eftir.
Það var samhljóma álit Mannréttindadómstólsins að ríkið hafi brotið á rétti til frjálra kosninga og rétti til skilvirks úrræðis.
Mannréttindadómstóllinn taldi að þótt málsmeðferð Alþingis vegna kvartana mannanna hefði verið sanngjörn, málefnaleg og tryggt nægilega rökstudda niðurstöðu, hefði hana skort nauðsynlegar varnir til þess að gæta hlutleysi og Alþingi hafi haft nær takmarkalaust vald til ákvarðana.
Skekkjan hafði áhrif á fimm þingmenn
Þær mannabreytingar sem urðu þegar skekkjan í talningunni í Borgarnesi kom í ljós á snertu jöfnunarþingmenn fimm flokka.
Hjá Viðreisn varð Guðmundur Gunnarsson ekki þingmaður Norðvesturkjördæmis, heldur Guðbrandur Einarsson þingmaður Suðurkjördæmis. Miðflokksmaðurinn Karl Gauti Hjaltason varð ekki þingmaður Suðvesturkjördæmis og í stað hans kom Bergþór Ólason inn sem þingmaður Norðvesturkjördæmis.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir þingmaður Samfylkingar fór ekki inn á þing fyrir Reykjavík suður, heldur varð Jóhann Páll Jóhannsson þingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður. Hjá Pírötum varð Lenya Rún Taha Karim ekki þingmaður í Reykjavík norður, heldur Gísli Rafn Ólafsson þingmaður Suðvesturkjördæmis. Hjá Vinstri grænum varð Orri Páll Jóhannsson síðan þingmaður Reykjavíkur norður, en Hólmfríður Árnadóttir oddviti flokksins í Suðurkjördæmi datt út af þingi.
Tilkynningu um dóminn má lesa hér
Fréttin hefur verið uppfærð
Athugasemdir (2)