„Ég hef ógeð á þessu. Mér finnst þetta algjörlega yfirgengilegur viðbjóður. Og ef ég mætti ráða myndi ég krefjast tafarlauss vopnahlés.“ Þetta segir Jón Gnarr, leikari og forsetaframbjóðandi, spurður hver hans afstaða er til ástandsins í Palestínu.
Jón var viðmælandi í þætti af hlaðvarpinu Vaktinn sem kom út í gær. Umsjónarmenn þáttarins eru Birkir Björnsson og Jóhann Sveinsson.
Jón telur að ásættanleg lausn á deilum Ísraels og Palestínu væri ef Ísrael skilaði þeim landssvæðum sem það hefur tekið. „Og leggja niður þessar andstyggilegu landnemabyggðir sínar – eða landtökubyggðir – þar sem eitthvað nöttaralið er að byggja sér þorp inni í annarra landi. Mér finnst það yfirgengilega frekt,“ segir borgarstjórinn fyrrverandi.
Jón telur að friður sé úti á svæðinu þangað til að þetta verði að draga þetta til baka. „Það þarf bara að jafna þetta við jörðu og segja þessu liði að hypja sig.“
Athugasemdir (9)