Alls hafa um 34.000 einstaklingar skrifað undir undirskriftalista þar sem veru Bjarna Benediktssonar í stóli forsætisráðherra er mótmælt. Fjöldi undirskrifta hefur vaxið hratt síðan listinn var stofnaður í fyrradag.
Fleiri hafa nú skrifað undir listann en samanlagður fjöldi atkvæða sem kjósendur greiddu Sjálfstæðisflokknum í Suðvesturkjördæmi og báðum Reykjavíkurkjördæmum í síðustu Alþingiskosningum. Úr þremur stærstu kjördæmum landsins fékk flokkurinn samtals 33.169 atkvæði haustið 2021.
Vex hratt en á langt í land
Söfnunin á enn nokkuð í land til að komast nálægt stærstu undirskriftasöfnunum í sögu landsins. Enn vantar um 50.000 undirskriftir til þess að ná tveimur stærstu undirskriftasöfnunum sem efnt hefur verið til hér á landi. Það eru undirskriftasöfnun Kára Stefánssonar árið 2018 og InDefence söfnunin 2008.
Á þremur mánuðum skrifuðu tæplega 83.729 manns undir lista Kára Stefánssonar, þar sem skorað var á ríkið til þess að eyða ellefu prósent af vergri landsframleiðslu í heilbrigðismál. Er það stærsta undirskriftasöfnun Íslandssögunnar.
Athugasemdir (1)