Allir, sem þekkja nokkuð til Katrínar Jakobsdóttur, vita, að hún er væn kona, góðum gáfum gædd, góðhjarta og velviljuð gagnvart mönnum og málleysingjum, og, að í hjarta sínu er hún græn, eins og Vinstri grænir áttu og eiga að vera.
Haustið 2017 gerðist það, að hún komst til valda sem forsætisráðherra, þá með tæplega 17% fylgi fyrir Vinstri græna.
Líta má á íslenzka ríkið sem stærsta fyrirtæki landsmanna. Fyrirtæki, sem við eigum öll saman og brýnt er, að stjórnað sé af sem mestri ráðdeild, kunnáttu og þekkingu. Þekking og kunnátta byggjast mikið á bæði menntun og reynslu. Í raun hefur mér sýnst reynslan alltaf mikilvægasti skólinn.
Það sætti því fyrir mér nokkurri undrun, komandi hingað heim eftir nær 30 ára fjarveru, að kona, sem er Íslenzku- og bókmenntafræðingur að mennt, algjörlega reynslulaus, að því er bezt varð séð, á sviði framkvæmda og reksturs, skuli hafa verið valin forstjóri í þessu stærsta fyrirtæki landsmanna. Góðar gáfur og námshæfileikar einar sér ná langt, en alls ekki alla leið í öllu. Allra sízt hér.
Ríkisstjórnin 2017-2021
Ekki tókst Katrínu eða VG að koma miklu af helztu stefnumálum VG á framfæri í ríkisstjórninni, í framkvæmd á kjörtímabilinu haust 2017 til hausts 2021. Þegar á reyndi, ýttu Bjarni Benediktsson og Sigurður Ingi öllum stærstu málum VG, eins og hvalveiðibanni, þjóðgarði á miðhálendinu, friðun villtra spendýra og fugla, stóru skrefi í loftslagsvernd og endurskoðun stjórnarskrár, út af borðinu, þó umsamin væru og fest hefðu verið í stjórnarsáttmála.
Allir sáu þetta auðvitað og skildu, ekki sízt fylgismenn Katrínar, og í júlí 2021 kom í ljós í skoðanakönnun, að 71% Vinstri grænna vildu ekki að flokkurinn færi aftur í óbreytt stjórnarsamstarf. Þessi stóri hópur studdi í raun ekki lengur ríkisstjórn síns eigin formanns.
Sjálfur skrifaði ég grein um málið í Morgunblaðið 5. júlí 2021, þar sem ég sagði m.a.:
Katrín Jakobsdóttur og aðrir forystumenn Vinstri grænna tala nú fjálglega um það, að fara aftur í sömu ríkisstjórn, sama ríkisstjórnarsamstarfið, eftir kosningar, ef úrslit leyfa.
Hefur Katrín blessuð og þetta, annars á ýmsan hátt ágæta fólk, virkilega ekkert skilið og ekkert lært síðustu 4 árin?
Gerir það sér enga grein fyrir því, hvílík hörmungarganga þetta ríkisstjórnarsamstarf hefur verið fyrir Vinstri græna og þeirra stefnu og hvílík sneypuför þetta í raun hefur verið?
Eða, heldur það kannske, að það geti bara klórað yfir stórfellt árangursleysið, hvað varðar stefnu- og baráttumál Vinstri grænna, og látið eins og uppgjöf og ósigur, nánast yfir alla málefnalínuna, sé í raun sigurganga og flottur árangur?
Þrátt fyrir þetta, og þá einkum þrátt fyrir andstöðu 71% flokksmanna sinna, ákvað Katrín að fara aftur í og leiða sömu ríkisstjórn. Ég held, að þetta hafi verið mikið áfall fyrir alla, sem trúðu á Katrínu. Þarna fannst alla vega undirrituðum, að annað hvort hefði dómgreind þessarar ágætu konu brugðizt, eða, að það, sem enn verra væri, að vilji til áframhaldandi valda hafi ráðið för, fremur en framgangur stefnumála og kosningarloforða.
Ríkisstjórn 2021-dags dató
28. nóvember 2021 tók svo 2. ráðuneyti Katrínar til starfa. Nú eru því liðin tvö og hálft ár af því kjörtímabili, og verður ekki séð, að eitt einasta þeirra mála, sem upphaflega var samið um og sett í stjórnarsáttmála af hálfu VG, hafi náð fram að ganga, frekar en á fyrra kjörtímabilinu, enda er nú svo komið, að upphaflegt 17% fylgi Katrínar/VG er komið niður í 5%. Hrun. Enda upplýsti Katrín nú á dögunum, að hún hefði ákveðið fyrir nokkru, að segja skilið við stjórnmálin. Er það skiljanlegt.
Viðskilnaður
Í framhaldinu staðfesti Katrín, að hún hyggðist segja af sér sem forsætisráðherra, reyndar þingmennsku og formennsku í VG, líka. Í sjálfu sér er þetta í huga undirritaðs í góðu lagi, enda er það mitt mat, að Katrín geti orðið jafn góður forseti og ég tel hana hafa verið bágborna forsætisráðherra.
Viðskilnaðurinn skiptir þó miklu máli. Í mínum huga hefði hann þurft að vera með þeim hætti, að Katrín hefði byrjað á því, að hlutast til um - með samningum við Bjarna, Sigurð Inga og aðra, sem máli skipta -, hvernig ný ríkisstjórn yrði skipuð, eftir hennar brotthvarf, þannig, að örugg stjórn ríkti áfram og ekki væri hætta á stjórnarkreppu. Þá fyrst hefði Katrín átt að segja af sér og bjóða sig fram.
Á slíkum framgangi hefði verið bragur alvöru og ábyrgðar; fyrirliggjandi verkefni samvizkusamlega klárað, og því skilað af sér í heila höfn, áður en farið væri í nýtt verkefni.
Þetta virðist Katrín hins vegar alls ekki hafa gert, heldur gengið frá borði með einhliða tilkynningu án þess að láta sig framhald ríkisstjórnarinnar miklu skipta. Fyrir þennan framgang, myndi ég ekki gefa háa einkunn. Falleinkunn kæmi þar vel til greina.
Nýr forseti
Þrátt fyrir þessa hörmungarsögu alla, tel ég, að Katrín sé frambærilegur kandídat til að verða hér nýr forseti. Jafnlítið og hún hafði til málanna að leggja sem stjórnmálamaður, jafn mikið hefði hún til málanna að leggja sem forseti.
Forsetaembættið gerir allt aðrar kröfur, en forsætisráðherraembættið. Katrín, hennar persóna, ferill og saga, fyllir þar flestar þarfir. Eins verður í því máli að skoða aðra frambjóðendur vel. Þar þarf líka að fara inn á persónulegan ferill og orðstír kandídata, þar getur friðhelgi einkalífsins ekki ráðið för.
Ég er ekki viss um, að allir frambjóðendur kæmu þar vel út, séu nógu blettlitlir eða blettlausir til að verða forseti lýðveldisins, þó að yfirborð – menntun, starfsferill, fyrirkoma – virðist gott og gallalaust.
Ef ekki hefði komið til framboð Höllu Hrundar Logadóttur, sem var að gerast nú rétt, þegar þetta er skrifað, hefði ég talið Katrínu bezta kostinn. Nú, hins vegar, sýnist mér Halla Hrund fara með afgerandi hætti á toppinn. Kemur þar hreinn bakgrunnur, feikimikil og margþætt menntun og líka reynsla, aðrir persónulegir eiginleikar, fas og framkoma til.
Hún er sjálfhverf, óheiðarleg og hrokafull. Þannig upplifi ég hana.
Aldrei minn forseti.