Á blaðamannafundi sem Katrín Jakobsdóttir hélt í Hörpu í dag, sagðist hún telja sig hæfa til þess að gegna embætti forseta Íslands, þrátt fyrir náin tengsl sín við sitjandi ráðherra og þingmenn.
„Það er hins vegar þannig að forsetinn er auðvitað ekki vanhæfur gagnvart lögum og verður að gæta þess í sínum ákvörðunum að hann gæti hlutleysis og taki ígrundaðar ákvarðanir.“
Hún segir spurninguna snúast um hvort hún treysti sér til þess þrátt fyrir að þekkja persónur og leikendur á sviði stjórnmálanna. „Svar mitt við því er já.“
Segir skoðanakannanir ekki hafa upplýst ákvörðun sína
Aðspurð hvort það sé sanngjarnt að túlka það sem svo að hún sé með ákvörðun sinni að flýja sökkvandi skip segir Katrín að það megi alveg stilla því upp þannig.
„Það er hins vegar ekki útaf skoðanakönnunum sem ég tek þessa ákvörðun.“
Þá segist Katrín ekki vera full eftirsjár að stjórnmálaferli sínum loknum. „Ég hef staðið í þessari baráttu stjórnmálana í ríflega 20 ár, gert margt gott, ekki náð öllu fram. Svo bara stundum er tíminn kominn og þá verður maður bara að segja það gott.“
Rákust á annan frambjóðanda á leið á blaðamannafund
Á leið af blaðamannafundi Katrínar hittu blaðmenn Heimildarinnar einn margra mótframbjóðenda Katrínar í komandi kosningum. Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir lýsti á dögunum yfir framboði til forseta. Í viðtali á Hafnartorgi sagðist hún verða góður forseti og að henni lítist vel á að flytja í Garðabæ, fari svo að hún verði kosin.
Athugasemdir