Andrými er tæplega 7 ára og er í dag staðsett á Bergþórugötu 20, í gulu bárujárnshúsi. Húsið iðar af lífi og er skipulagt og notað daglega af ýmsum félagasamtökum, óformlegum, sjálfskipulögðum grasrótarhópum og einstaklingum.
Andrými í raun eini griðastaður grasrótarinnar og hefur verið haldið uppi með frjálsum framlögum þeirra sem hafa tekið þátt í starfsemi hússins. Hér hefur farið fram alls konar starfsemi á sviði tónlistar og annarra listgreina sem hefði ekki fengið að komast á framfæri annars staðar. Auk þess er þetta einhver mikilvægasti samkomustaður aðgerðasinna og þeirra sem er umhugað um mannréttindi á Íslandi.
Það sem allir þessu fjölbreyttu hópar sem hafa nýtt sér rýmið eiga sameiginlegt er að þeir hafa skapað vettvang þar sem er stuðlað að baráttu í anda samfélagslegs réttlætis, valdeflingar, frelsis, jafnréttis og gagnkvæmrar hjálpar en þessi gildi hafa ávalt verið höfð í hávegum allt frá stofnun Andrýmis og voru í raun helsti hvatinn að stofnun þess.
Í samfélagi sem er jafn einsleitt og Ísland er Andrými einnig kjörið til þess að kynnast því hversu fjölmenningarlegri veröld við raunverulega búum í. Ég er þakklátur fyrir að hafa fengið að verja stórum hluta æsku minnar í þessu fallega félagsrými, innan um bæði réttsýnt og fordómalaust fólk. Sá tími sem ég hef varið þarna hefur án efa átt mikinn þátt í að móta mig sem manneskjuna sem ég er nú í dag.
Því miður stendur Andrými frammi fyrir mikilli áskorun þessa stundina, erfitt hefur verið að eiga fyrir þeim kostnaði sem fylgir því að halda gjaldfrjálsa félagsrýminu uppi. Það liggur þó enginn vafi á því að með félagsandann og samtakamáttinn að leiðarljósi sé hægt að tryggja áframhaldandi starfsemi hússins.
Ég býð ykkur öll velkomin í Andrými og hvet ykkur eindregið til þess að leggja okkur lið við að tryggja það að hið yndislega og mikilvæga samfélag sem myndast hefur í Andrými fái að lifa og dafna.
Fyrir þau sem vilja taka þátt í samfélagi Andrýmis geta leitað á andrymi.org
Athugasemdir