Hvenær ætlum við, sem þjóð, að opna augun? Þarf alltaf allt að gerast í bakgarðinum okkar svo það sé raunverulegt? Fólk er að deyja, börn eru að deyja.
Ég á mjög reglulega samtöl við ungt fólk sem segir mér frá sínum raunveruleika og það er nánast hætt að kippa sér upp við að vinir sínir og félagar overdose-i.
Hvenær er nóg komið og ráðamenn þessarar þjóðar ætla að hætta þessum leikaraskap með nefndavinnu og setja peningana þar sem þeir nýtast, inni í meðferðarstarfi. Keyrum þær meðferðarstofnanir sem nú þegar eru í boði á fullum afköstum, komum á laggirnar afeitrun fyrir börnin okkar og hættum að þykjast.
Við viljum meina að kannanir komi vel út þegar neysla unglinga er skoðuð og vel tókst til með reykingar á sínum tíma. Við getum ekki lifað á því lengur, staðan er grafalvarleg í dag. Fyrrum verkefnastýra Frú Ragnheiðar lét hafa eftir sér í viðtali í maí 2023 að þau sem þar starfa fyndu fyrir mikilli aukningu hjá unglingum sem til þeirra leita. Neyslan væri harðari og oxy sem pressað væri á Íslandi, stundum blandað með fentanyl, væri mikið áhyggjuefni. Fyrir þá sem ekki vita er það okkar veikasti hópur sem leitar til Frú Ragnheiðar eftir aðstoð, mikið til til að fá hreinan búnað, sem er vel.
Þessi þróun er ekkert minna en skelfileg en hvað veldur? Við, sem samfélag erum ekki að grípa börnin þegar þau sýna áhættuhegðun, við bíðum of lengi, við bíðum þar til orðið er of seint og ætlum þá að slökkva eldana. Mín skoðun er sú að við þurfum snemmtæka íhlutun. Skólakerfið, barnavernd og allir sem að börnum koma þurfa að taka höndum saman en ekkert mun gerast fyrr en stjórnvöld vakna og setja peninga í almennilega fræðslu og forvarnir. Forvarnir eiga aldrei að snúast um hræðsluáróður eða neyslusögur. Við þurfum að gefa börnum og unglingum verkfæri í hendurnar til þess að geta nýtt sér í lífinu. Markmið okkar allra á að vera að skila heilum einstaklingum út í lífið, áður en þeir þurfa að deyfa sig með vímugjöfum.
Aldrei gleyma því að neyslan er afleiðing af einhverju og bjargráð þar til einstaklingur missir stjórnina, þá stjórnar fíknin.
Hversu margir þurfa að deyja í viðbót? Vonandi verður það ekki barnið þitt, sem var bara að reyna að lifa af til þess að byrja með.
Samtök aðstandenda og fíknisjúkra standa fyrir samstöðufundi föstudaginn 5. apríl frá 16:00 til 18:00 á Austurvelli og skora á stjórnvöld að bregðast strax við þessum skelfilega heilbrigðisvanda og bjarga mannslífum. Fjölmargir aðilar verða á mælendaskrá og einnig verður orðið gefið laust. Mætum öll og sýnum samstöðu. Hver einasta rödd skiptir máli.
Athugasemdir