Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir leikkona segir að ef Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra bjóði sig fram til embættis forseta Íslands muni hún gera það líka. „Það er loforð. Mér fyndist það bera vott um oflæti og að auki fyndist mér hún með því sýna þingi, þjóð og öðrum frambjóðendum óvirðingu og það get ég ekki sætt mig við. Baráttan um Ísland snýst aðallega um íslenska náttúru og auðlindirnar sem eiga að vera sameign þjóðarinnar. Það fjöregg fengum við í arf og okkur ber að skila því heilu til næstu kynslóða. Nú vegur þyngst að ég treysti ekki Katrínu Jakobsdóttur, að fenginni reynslu, til að gæta þessa fjöreggs okkar. Það er þyngra en tárum taki.“
Þetta kemur fram í færslu á Facebook sem Steinunn Ólína birti síðdegis í dag, páskadag. Hún opnaði á mögulegt framboð á sama vettvangi í liðinni viku og hóf færsluna sem hún birti nú með því að þakka fyrir þann mikla stuðning sem hún fyndi fyrir. Hún skilji að því fólki væri alvara og henni þætti afar vænt um það.
Öfugt við marga finnist Steinunni Ólínu gleðilegt hversu margir sækjast eftir embætti forseta Íslands og vilja gera þjóð sinni gagn. „Ég er að hugsa um baráttuna um Ísland. Því um það stendur glíman. Glíman snýst ekki um það hvort þjóðin eignast geðþekkan forseta heldur hvort hún getur valið sér forseta sem hún treystir og sem þorir að stinga við fótum ætli hagsmunaöfl í samfélaginu að knýja fram lagabreytingar sem valdið geta stórfelldum skaða. Ég er ekki að bíða eftir rétta staðnum eða réttu stundinni til að tilkynna framboð.“
Þess í stað væri hún að bíða eftir því hvort „satt sé að sitjandi forsætisráðherra ætli að bjóða sig fram til embættis forseta Íslands. Geri hún það, þá býð ég mig fram. Það er loforð.“
Katrín Jakobsdóttir hefur ekki gefið afgerandi svar um hvort hún ætli að bjóða sig fram til forseta eða ekki. Í óundirbúnum fyrirspurnatíma í byrjun þessa mánaðar var Katrín spurð hvort hún ætlaði í slíkt framboð. Hún sagðist þá ekki hafa „leitt hugann að slíku framboði“, hún væri í starfi forsætisráðherra og yrði „hér áfram um sinn“.
Nokkrir hafa þegar lýst yfir framboði þótt framboðsfrestur sé til 26. apríl næstkomandi. Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, er einn þeirra, en hann naut stuðnings 56 prósent þeirra sem tóku afstöðu í nýrri könnun Prósents sem birt var í síðustu viku þar sem spurt er um þá sem gefið hafa kost á sér í embætti forseta Íslands. Séu þeir taldir með sem ekki vita hvern þeir vilja styðja, mældist Baldur með stuðning 37 prósent allra.
Halla Tómasdóttir, sem einnig bauð sig fram árið 2016, er næst vinsælasti frambjóðandinn samkvæmt könnuninni. Alls sögðust 23 prósent þeirra sem taka afstöðu með einhverjum frambjóðanda styðja Höllu í embættið. Arnar Þór Jónsson, fyrrverandi dómari og varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, naut stuðnings átta prósent.
Jón Gnarr, fyrrverandi borgarstjóri Reykjavíkur, hefur gefið út að hann muni tilkynna um ákvörðun sína um hvort hann bjóði sig fram eða ekki í myndbandi sem hann mun birta á samfélagsmiðlum á þriðjudag.
Athugasemdir (4)