Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, mun gefa kost á sér til embættis forseta Íslands. Þetta tilkynnti hún á blaðamannafundi á heimili sínu í hádeginu.
Í ávarpi sínu sagðist Helga vilja styðja við fræðasamfélagið, menninguna og atvinnulífið í landinu. Hún sagðist enn fremur hafa stýrt mikilvægri ríkisstofnun, þ.e. Persónuvernd, stundum í ólgusjó. „Á þeirri vegferð hef ég sýnt að ég er óhrædd við að taka erfiðar ákvarðanir,“ segir Helga.
Áhersluatriði hennar eru meðal annars að vera þjónn fólksins í landinu, vera málsvari íslensks drifkrafts og að sýna þekkingu, yfirvegun og áreiðanleika.
Helga hefur verið forstjóri Persónuverndar síðastliðin átta ár. Þar á undan starfaði hún hjá Lyfjastofnun, sem sviðsstjóri lögfræðisviðs og staðgengill forstjóra. Árin 2012-2013 var hún settur forstjóri Lyfjastofnunar.
Helga lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 1995. Hún hefur starfað hjá embætti ríkissaksóknara, á nefndarsviði Alþingis, hjá EFTA í Brussel og í menntamálaráðuneytinu.
Bætist í hópinn
Nýjasti frambjóðandinn bætist í sífellt stækkandi hóp. En þegar þetta er skrifað safna 53 undirskriftum á island.is.
Halla Tómasdóttir, forstjóri B Team, og Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði, hafa meðal annars tilkynnt framboð auk athafnamannsins Ástþórs Magnússonar, Sigríðar Hrundar Pétursdóttur framkvæmdastjóra og Arnars Þórs Jónssonar lögmanns.
Þau sem enn eru bendluð við embættið án þess að hafa sagt af né á um framboð, til dæmis Jón Gnarr, grínisti og fyrrverandi borgarstjóri. Þá vilja margir að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fari í framboð. Hún hefur verið nokkuð loðin í svörum spurð hvort hún hyggist gefa kost á sér.
Athugasemdir (1)