María Volkova fæddist í litlu þorpi í Úkraínu árið 1926. Fyrsta minning Maríu er af hungri. María var sex ára þegar hungursneyð skall á í Úkraínu. „Við krakkarnir komum heim og sögðum mömmu að við værum svöng,“ sagði María í viðtali við Breska ríkisútvarpið árið 2009. „Hún sagði okkur að fara út og borða laufin af kirsuberjatrénu.“
Hungursneyðin var af mannavöldum. Á árunum 1932–33 létust milljónir Úkraínumanna úr sulti í kjölfar þess að bændum var gert að láta af eigin sjálfbærri framleiðslu og gangast sovéskum samyrkjubúum á hönd. Þegar bændum tókst ekki að framleiða nóg af korni til að fylla þá kvóta sem stjórnvöld ákváðu gerðu erindrekar ríkisins í refsingarskyni upptækt allt korn þeirra og önnur matvæli.
„Fólk var svo veikt af sulti að magar þess voru þrútnir,“ sagði María en íbúar þorpsins nærðust á litlu öðru en arfa og laufum. „Börnin voru svo máttfarin að þau gátu ekki staðið í röð í skólanum.“
Þegar bændafjölskyldur tóku að yfirgefa þorp sín í von um að finna æti annars staðar gáfu stjórnvöld út tilskipun sem bannaði Úkraínumönnum að yfirgefa landið. Þúsundir bænda sem höfðu leitað á nýjar slóðir voru sendir aftur heim, beint í opinn dauðann.
„Ástandið á Gaza blasir við í hverjum einasta fréttatíma“
Einn daginn spurðist út í þorpi Maríu að korn fengist til sölu. Faðir Maríu seldi hjólið sitt fyrir fötu af korni. Síðar sama dag bönkuðu menn á vegum sovésku leyniþjónustunnar upp á. Þeir gerðu kornið upptækt og handtóku pabba hennar. Hún sá hann aldrei aftur.
„Fólkið dó saman sem fjölskylda,“ sagði María. Árið 1932 voru tuttugu og átta börn í bekknum hennar. Vorið eftir voru þau aðeins tólf.
Blóð fortíðar
Ég gleypi í mig/rauðbeður/svo að safinn/leikur/um varir mínar/blóð/fortíðar.
Svo ritar bresk-úkraínska ljóðskáldið Charlotte Shevchenko Knight í nýútkominni ljóðabók sem fjallar um arfleifð hungursneyðarinnar í Úkraínu 1932–33. Amma skáldsins lifði af hungursneyðina, sem í Úkraínu gengur undir heitinu „Holodomor“ eða Hungurdauðinn, og í bókinni segir frá því hvernig „Holodomor lifir enn/í beinum“ afkomenda kynslóðum síðar.
Við upphaf fjórða áratugar síðustu aldar hafði umheimurinn litla hugmynd um ástandið sem ríkti í Úkraínu. Ekki fyrr en ungum blaðamanni frá Wales, Gareth Jones, tókst með klækjum að komast hjá fjölmiðlahömlum sovéskra yfirvalda varð heimsbyggðinni hryllingurinn ljós.
Hefði verið hægt að koma í veg fyrir milljónir dauðsfalla og margra kynslóða erfðahungur hefði Hungurdauðinn verið fleirum ljós?
Hungur sem vopn
Í ár er þess minnst að tuttugu ár eru liðin frá andláti rithöfundarins og heimspekingsins Susan Sontag. Sontag skrifaði um stríðsátök í von um að kastljós fjölmiðlanna hefði áhrif á framgang átakanna. „Þetta er fyrsta þjóðarmorðið sem fjölmiðlar heimsins fylgjast með og sýna frá á hverju einasta kvöldi í sjónvarpinu,“ skrifaði Sontag um Bosníustríðið sem háð var á árunum 1992–1995. „Fréttamenn sendu ekki daglegar fréttir frá Armeníu árið 1915; það voru engar erlendar fréttamyndavélar í Dachau og Auschwitz.“
Viðbrögð við fréttaflutningnum ollu Sontag hins vegar vonbrigðum. „Fram að þjóðarmorðinu í Bosníu gat maður lifað í þeirri trú að væru fréttir fluttar af atburðunum myndi heimsbyggðin bregðast við þeim. Fréttaflutningurinn af þjóðarmorðinu í Bosníu batt enda á þá tálsýn.“
Margir halda því fram að Hungurdauðinn í Úkraínu teljist til þjóðarmorðs; að sovésk yfirvöld hafi svelt íbúana að yfirlögðu ráði í þeim pólitíska tilgangi að bæla niður úkraínska þjóðarvitund.
Í síðustu viku sökuðu Sameinuðu þjóðirnar og Evrópusambandið stjórnvöld í Ísrael um að nota hungur sem vopn í stríðinu á Gaza. Ísrael er gefið að sök að reyna að hrinda af stað „hungursneyð af mannavöldum“ með því að koma í veg fyrir að hjálparaðstoð berist inn í landið. Sé ekkert að gert segja samtökin að stefni í gríðarlegt mannfall á komandi vikum.
Ástandið á Gaza blasir við í hverjum einasta fréttatíma. Hyggjumst við sitja aðgerðarlaus yfir páskasteikinni og horfa á þjóðarmorð framið með hungri?
Athugasemdir (2)