Þessi grein birtist fyrir meira en ári.

„Ákveðið að vinna með gallað frumvarp“

Tek­ist var á um ný­sam­þykkt bú­vöru­lög á Al­þingi í dag. Kristrún Frosta­dótt­ir sagði frum­varp­ið gall­að og að lög­in fælu í sér óþarfa alls­herj­ar und­an­þágu. Þing­menn Fram­sókn­ar segja lög­in fram­fara­skref og að bænd­ur fagni breyt­ing­unni.

„Ákveðið að vinna með gallað frumvarp“

Nýsamþykkt búvörulög voru ofarlega á baugi í ræðum á Alþingi í dag. Var ekki einhugur meðal þingmanna um gagnsemi laganna, sem þykja nokkuð umdeild. 

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar, sagði að flokkur hennar hefði nú tryggt það að íslenska páskalambið rynni ljúflega niður. Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, og Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, voru hins vegar gagnrýnin á samþykkt laganna.

Undanþága frá samkeppnislögum og möguleiki á sameiningu

Nýju búvörulögin voru samþykkt í gær þrátt fyrir óskir stjórnarandstöðunnar um að fresta atkvæðagreiðslu og háværa gagnrýni frá ASÍ, Neytendasamtökunum, Samtökum verslunar- og þjónustu, Félagi atvinnurekenda og Samkeppniseftirlitinu. Héldu samtökin því fram að lagabreytingarnar gengju gegn hagsmunum almennings.

Breytingarnar fela í sér undanþágu afurðastöðva í kjötiðnaði frá grunnreglum samkeppnislaga um bann við ólögmætu samráði. Enn fremur verður þeim nú auðveldara að sameinast en áður.

Gísli Rafn Ólafsson, þingmaður Pírata, vakti athygli á því í ræðustól í gær að eitt fyrirtæki gæti nú náð einokunarstöðu í kjötframleiðslu á landinu og stýrt verðinu án þess að neytendur gætu rönd við reist. Bændur kæmu enn fremur illa út úr lagabreytingunum. 

Grikkur gerður þeim sem þurfa mest á breytingum að halda 

Kristrún Frostadóttir sagði að það virtist sem að eitthvað hefði farið verulega úrskeiðis við vinnslu frumvarpsins. Markmiðin í upphaflegu frumvarpi matvælaráðherra hefðu snúið að viðkvæmustu búgreinunum. „En skilgreiningin á framleiðandafélögunum í sjálfum frumvarpstextanum var svo þröng að hún náði aðeins yfir hvíta kjötið þrátt fyrir að þar hafi enginn óskað eftir undanþágu frá samkeppnislögum,“ sagði hún. 

Í stað þess að vinna frumvarpið aftur inni í ráðuneyti þannig að undanþágan næði til þeirra sem stæðu höllustum fæti „var ákveðið að vinna með gallað frumvarp,“ segir Kristrún. Niðurstaðan, að mati hennar, varð „ein allsherjar undanþága sem getur leitt af sér eina stóra afurðastöð fyrir alla kjötvinnslu í landinu óháð búgrein.“

Formaður Samfylkingar segir þetta hafa verið óþarfa. „Þessi aðferðafræði hefur gert þeim grikk sem mest þurftu á breytingunum að halda,“ sagði hún.

Vondur málstaður að halda því fram að ASÍ, Neytendasamtökin og SKE séu óvinir bænda

Sigmar sagði að breytingin á búvörulögum þýddu að afurðastöðvar yrðu undanþegnar samkeppnislögum. Nefndi hann að breytingin næði ekki aðeins til lítilla sláturhúsa heldur einnig stöndugri fyrirtækja. Til dæmis félög í eigu Ölmu leigufélags, Kaupfélags Skagfirðinga og Sláturfélags Suðurlands.

„Þeir sem eru að stilla því upp að ASÍ, Neytendasamtökin og Samkeppniseftirlitið séu einhverjir óvinir bænda hafa vondan málstað að verja. Það er ekki gagnlegt fyrir umræðuna að það megi ekki gagnrýna óskaplega miðstýrt landbúnaðarkerfi sem skilar bændunum sjálfum knöppum kjörum án þess að það sé sett í annarlegt samhengi,“ sagði Sigmar.

Segir bændur fagna breytingunum

Halla Signý Kristjánsdóttir sagði bændur um allt land fagna þeirri breytingu sem nýir búvörusamningar boðuðu. „Framsókn hefur tryggt að íslenska páskalambið rennur ljúflega niður í ár,“ sagði hún.

Halla Signý sagði að auknar heimildir afurðastöðva í kjötiðnaði til að sameinast og vera með samráð væri liður í því að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu kjötafurða. En þetta væri mikilvægt til að bregðast við ört vaxandi samkeppni að utan.

„Í alþjóðlegum samanburði eru innlendar afurðastöðvar í kjötiðnaði örsmáar og því ekki samkeppnishæfar við afurðastöðvar á erlendum mörkuðum sem eru mun stærri og hagkvæmari rekstrareiningar,“ segir Halla Signý.

Breytingarnar mikið framfaraskref í þágu innlendrar matvælaframleiðslu

Halldóra Hauksdóttir, þingmaður Framsóknar, var líkt og Halla Signý jákvæð gagnvart lagabreytingunum. „Í gær var stigið mikið framfaraskref í þágu innlendrar matvælaframleiðslu,“ segir hún.

Sagði Halldóra það vera vegna þess að sívaxandi innflutningur matvæla frá erlendum stórverksmiðjum hefði gert íslenskum landbúnaði erfitt fyrir. Í geiranum væru takmörkuð tækifæri til frekari hagræðingar. 

„Samkeppnin hefur nefnilega færst frá því að vera milli íslenskra bænda sem fylgja sömu stöðlum yfir í að vera íslenskir bændur á móti evrópskri framleiðslu þar sem lögmálin eru allt önnur.“ 

Til að bregðast við þessum aðstæðum væri hægt að gera innlendum aðilum kleift að sameinast og hagræða starfsemi „með því að lækka framleiðslukostnað og með því verð í þágu þeirra og neytenda.“

Halldóra segir að framfaraskref hafi verið stigið í þá áttina. 

„Þessar breytingar voru nauðsynlegar til að bregðast við döprum rekstrargrundvelli innlendrar kjötframleiðslu og stuðla að jöfnun samkeppnisskilyrða kjötafurðastöðva við innflutninginn. Skilyrðin eru enn innflutningnum í hag en ef stjórnvöld halda þessari vegferð áfram þá getum við horft áfram veginn bjartsýnni en áður,“ sagði hún.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

„Ég sprautaði mig í fyrsta skipti í meðferð“
4
ÚttektTýndu strákarnir

„Ég spraut­aði mig í fyrsta skipti í með­ferð“

Gabrí­el Máni Jóns­son upp­lifði sig alla tíð utangarðs. Hann féll ekki inn í hefð­bund­inn ramma skóla­kerf­is­ins og var snemma tek­inn út úr hópn­um. Djúp­stæð van­líð­an braust út í reiði og hann deyfði sára höfn­un með efn­um. Þar til hann fékk nóg og náði bata. „Ég gat ekki sætt mig við að vera gæ­inn sem ég hafði fyr­ir­lit­ið og hat­að frá barnæsku.“
„Ég veit ekki hvernig ég lifði af“
6
ÚttektTýndu strákarnir

„Ég veit ekki hvernig ég lifði af“

„Mér voru gef­in erf­ið spil og þeg­ar þú kannt ekki leik­inn er flók­ið að spila vel úr þeim,“ seg­ir Arn­ar Smári Lárus­son, sem glímdi við al­var­leg­ar af­leið­ing­ar áfalla og reyndi all­ar leið­ir til þess að deyfa sárs­auk­ann, þar til það var ekki aft­ur snú­ið. „Ég var veik­ur, brot­inn og fannst ég ekki verð­skulda ást.“ Hann árétt­ar mik­il­vægi þess að gef­ast aldrei upp. „Það er alltaf von.“

Mest lesið í mánuðinum

Týndu strákarnir – sem fundu leiðina heim
3
ÚttektTýndu strákarnir

Týndu strák­arn­ir – sem fundu leið­ina heim

Á átján ára af­mæl­is­dag­inn vakn­aði Fann­ar Freyr Har­alds­son á neyð­ar­vist­un og fékk lang­þráð frelsi eft­ir að hafa þvælst í gegn­um með­ferð­ar­kerfi rík­is­ins. Hann, Gabrí­el Máni Jóns­son og Arn­ar Smári Lárus­son lýsa reynslu sinni af kerf­inu sem átti að grípa þá sem börn og ung­ling­ar. Tveir þeirra byrj­uðu að sprauta sig í með­ferð, samt sam­mæl­ast þeir um að þessi inn­grip séu lík­leg­asta ástæð­an fyr­ir því að þeir lifðu af. Ekk­ert lang­tíma­úr­ræði er fyr­ir stráka sem stend­ur.
„Eiginmaður minn hefur aldrei átt eignarhlut í Skeljungi“
6
Stjórnmál

„Eig­in­mað­ur minn hef­ur aldrei átt eign­ar­hlut í Skelj­ungi“

Hild­ur Björns­dótt­ir, odd­viti Sjálf­stæð­is­flokks í borg­ar­stjórn, fjall­aði ít­rek­að um samn­inga sem vörð­uðu lóð­ir bens­ín­stöðva þrátt fyr­ir að eig­in­mað­ur henn­ar stýrði móð­ur­fé­lagi Skelj­ungs. Lóð­ir bens­ín­stöðva Skelj­ungs hafa síð­an ver­ið seld­ar til tengdra fé­laga fyr­ir vel á ann­an millj­arð króna. Hún seg­ir hæfi sitt aldrei hafa kom­ið til álita.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár

Loka auglýsingu