Fylgi Vinstri grænna mælist nú 6,7 prósent í nýrri könnun Maskínu sem gerð varð í marsmánuði. Það er mesta fylgi sem flokkurinn hefur mælst með í könnunum fyrirtækisins síðan í júlí í fyrra, þegar fylgið mældist átta prósent. Alls bæta Vinstri græn við sig 0,8 prósentustigi frá því í síðustu könnun. Lægst fór fylgi Vinstri grænna, flokks forsætisráðherrans Katrínar Jakobsdóttur, í 5,6 prósent hjá Maskínu í desember. Flokkurinn hefur mældist með undir fimm prósent fylgi hjá Gallup í febrúar sem hefði þýtt að hann félli af þingi. Vinstri græn fengu 12,7 prósent atkvæða í kosningum 2021.
Framsóknarflokkurinn bætir við sig 0,9 prósentustigi. Fylgi hans mælist nú 9,4 prósent, sem er ansi langt frá þeim 17,4 prósentum sem flokkurinn fékk í síðustu kosningum. Þriðji stjórnarflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn, dalar lítillega milli kannana og mælist nú með 18 prósent fylgi. Heilt ár er síðan að flokkurinn mældist með yfir 20 prósent fylgi í könnunum Maskínu.
Samanlagt fylgi stjórnarflokkanna þriggja mælist nú 34,1 prósent, en þeir fengu 54,4 prósent atkvæða í síðustu kosningum. Samanlagða fylgið hefur verið meira og minna á þessu slóðum síðustu mánuði. Samkvæmt þessu myndi ríkisstjórnin kolfalla ef kosið yrði í dag.
Samfylkingin áfram stærst en dalar
Samfylkingin er sá flokkur sem tapar mestu milli kannana, eða 1,6 prósentustigi, en mælist samt sem áður með 25,6 prósent fylgi. Það er langmesta fylgi allra flokka og Samfylkingin hefur mælst stærsti flokkur landsins í könnunum Maskínu síðan í desember 2022. Fylgið er enn meira en samanlagt fylgi Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna.
Miðflokkurinn hefur verið að mælast þriðji stærsti flokkur landsins undanfarið og heldur þeirri stöðu með 11,9 prósent fylgi. Það er lítillega meira en hann mældist með í febrúar. Viðreisn hressist líka aðeins milli kannana og nýtur nú stuðnings 9,7 prósent kjósenda. Sömu sögu er að segja af Pírötum sem mælast með 9,5 prósent fylgi.
Flokkur fólksins lækkar milli kannana og er nú sá flokkur sem á fulltrúa á þingi sem mælist með minnst fylgi, eða 5,7 prósent. Fylgi Sósíalistaflokks Íslands mælist svo 3,5 prósent.
Aldrei meiri óánægja með stjórnina
Maskína kannaði einnig ánægju með störf ríkisstjórnarinnar, sem mælist nú minni en nokkru sinni áður. Einungis 14,8 prósent segjast vera ánægðir með hana á meðan að 57,5 prósent segjast vera óánægð.
Líkt og búast mátti við er óánægjan almenn á meðal kjósenda stjórnarandstöðuflokka, en 66 til 93 prósent þeirra eru óánægðir með störf ríkisstjórnarinnar.
Athygli vekur hins vegar að töluverður munur er á milli kjósenda stjórnarflokkanna þegar kemur að ánægju með störf stjórnarinnar. Helmingur kjósenda Sjálfstæðisflokksins er ánægður með ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur en 15 prósent óánægður. Alls segja 37 prósent kjósenda Framsóknar vera ánægð með störf hennar en 34 prósent kjósenda Vinstri grænna. Þá er fjórðungur kjósenda Framsóknar óánægður og fimmtungur kjósenda Vinstri grænna.
Athugasemdir