Fjármála- og efnahagsráðuneytið ætlar ekki, eftir að hafa farið yfir umsagnir, að víkja efnislega frá þeim fyrirætlunum um fyrirkomulag á sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka sem kynnt voru í frumvarpsdrögum. Það verða þó gerðar viðbætur og leiðréttingar til að bregðast við varðandi framkvæmdaatriði.
Eitt þeirra atriða sem gerð var athugasemd við í umsögn var að það væri of mikið gagnsæi fólgið í því að birta sundurliðaðar upplýsingar um alla þá sem munu kaupa hlut í Íslandsbanka í komandi söluferli. Sá sem gerði þá athugasemd var Arion banki, einn af störu bökunum þremur á Íslandi. Hann taldi að slíkt gagnsæi gæti falið í sér að færri myndu taka þátt í útboðinu en ella og að það fæli í sér sérreglu sem víki til hliðar almennri reglu um bankaleynd.
Í skjali um niðurstöður samráðsins, sem dagsett er 18. mars og hefur verið birt í samráðsgátt stjórnvalda, segir að ábending Arion banka sé hárrétt, og að það geti verið að birting á kaupendalistanum í heild sinni dragi úr áhuga á þátttöku. „Mögulegt er að þessi fyrirætlan muni verða til þess að verð eignarhlutarins verði lægra en ella og er það sá fórnarkostnaður sem viðbótarskilyrði um gagnsæi getur haft í för með sér. Ef aukin áhersla væri á meginregluna um hagkvæmni þá kæmi þetta skilyrði mun síður til greina.“
Ráðuneytið ætlar þó að taka tillit til ábendinga um að skylda til birta lista yfir alla kaupendur feli í sér sérreglu gagnvart bankaleynd. Það þurfi skýrlega að mæla fyrir því í frumvarpinu þegar það verði lagt fram. „Þetta sé mikilvægt með vísan til þess að hver og einn söluaðili þarf að halda áskriftarbók fyrir eigin viðskiptavini og leggja fram tilboð í eigin nafni til seljanda“.
Geti skapað orðsporsáhættu
Arion banki gerði líka athugasemdir við þá framkvæmd sem er boðuð, en samkvæmt fyrirliggjandi frumvarpi verður farið í opið útboð þar sem öllum, nema Íslandsbanka sjálfum, sem hafa heimild samkvæmt lögum til að sjá um almenn útboð stendur til boða að fara með söluumboð á eignarhlutum ríkisins.
Bankanum sýndist, samkvæmt frumvarpsdrögum, að ekki væri gert ráð fyrir sérstöku samræmingarhlutverki við framkvæmd sölunnar, það er að einn aðili sé gerður að sérstökum umsjónaraðila útboðsins. Þess í stað virðist einungis ráðgert að ráðinn verði sérstakur umsjónaraðili tilboðsbóka. „Framangreint fyrirkomulag fer gegn viðteknum venjum á fjármálamarkaði og getur að óbreyttu leitt til þess að lægra verð fáist fyrir hlut ríkisins en ella.“
Fjármála- og efnahagsráðuneytið svarar því til í niðurstöðum sínum að gert sé ráð fyrir að ráðuneytið njóti fjármálaráðgjafar umfram það sem kveðið er á um í frumvarpsdrögunum sem birt voru. „Í þágu fyrirsjáanleika hefur verið bætt við drögin sérstakri heimild til að fela einum aðila eða fleirum að annast skipulagningu og yfirumsjón útboðsins.“
Gefa lítið fyrir gagnrýni á söluþóknun
Í frumvarpsdrögunum kom fram að söluþóknun vegna sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka ætti að vera undir einu prósenti af heildarsöluverði. Ríkið metur að það geti fengið tæplega 97 milljarða króna fyrir eftirstandandi 42,5 prósent hlut sinn í bankanum. Samkvæmt frumvarpsdrögunum stóð því til að greiða í mesta lagi tæplega milljarð króna í söluþóknun til þeirra sem sjá um söluna.
Þetta fannst Arion banka allt of lítið og vísaði í tölur frá Hollandi sem sýndu að þóknanir sem greiddar voru fjárfestingarbönkum í tengslum við einkavæðingu evrópskra fyrirtækja með almennu útboði, hvers stærð var yfir 100 milljón evrum, frá árinu 2006 hafði verið að meðaltali 1,7 prósent af söluvirði. „Af því má leiða að þær þóknanir sem birtast í frumvarpsdrögunum séu undir Evrópsku meðaltali. Í þessu samhengi vill Arion banki hf. einnig benda á samspil við fjölda söluaðila í fyrirhuguðu útboði, en ljóst er að möguleg þóknun hvers og eins fjármálafyrirtækis lækkar eftir því sem fjöldi söluaðila eykst. Eftir því sem söluaðilum fjölgar aukast jafnframt líkur á því að framkvæmd útboðsins verði óskipulögð sem eykur líkur á því að þau fjármálafyrirtæki sem taka þátt í útboðinu verði fyrir orðspors- og álitshnekki. Slíkt, í samspili við lægri þóknanir, gæti leitt af sér að fjármálafyrirtæki, innlend sem erlend, sem mesta reynslu hafa af framkvæmd útboða sjái sér ekki í hag í því að taka þátt í útboðsferlinu.“
Í niðurstöðum samráðsins segir ráðuneytið að Arion banki, sem geri að því skóna að þóknanir sem frumvarpsdrögin gefi til kynna séu undir evrópsku meðaltali, og að fjöldi söluaðila kunni að leiða til þess að fjármálafyrirtækis sem mesta reynslu hafa af framkvæmd útboða sjái sér ekki í hag í því að taka þátt í útboðsferlinu, sé ekki á réttum slóðum í gagnrýni sinni. „Bankinn bendir til samanburðar á meðaltöl sem liggja fyrir hjá Netherlands Financial Investment („NLFI“), Um þetta er það að segja að meðaltöl NLFI eru vegna fyrstu sölu við skráningu, en hér er um sölu á þegar skráðum bréfum að ræða.“
Þá sé gert ráð fyrir að ráðherra geti falið aðila, einum eða fleiri, til að sjá um yfirumsjón með útboðinu og yrði þá samið um það sérstaklega.
Athugasemdir